Mannauður

Markmið okkar er að halda í og laða að framúrskarandi starfsfólk og efla það í faglegum og persónulegum vexti. Við viljum skapa jákvætt og hvetjandi starfsumhverfi og styðja við starfsfólk. Við leggjum áherslu á að skapa jöfn tækifæri sem og árangursdrifna vinnustaðarmenningu. Í sameiningu leggjum við okkur fram um að skilja þarfir og uppfylla væntingar viðskiptavina okkar, því árangur þeirra er árangur okkar.

Mannauðsstefnan okkar

 

Starfskjarastefna Arion 

Samkvæmt gildandi starfskjarastefnu skal stefnt að því að bjóða á hverjum tíma samkeppnishæf laun til að bankinn geti laðað til sín og haldið í framúrskarandi starfsfólk og að störf hjá bankanum séu eftirsóknarverð í augum hæfra einstaklinga. Við framkvæmd starfskjarastefnunnar er haft að leiðarljósi að hún stuðli ekki að óeðlilegri áhættutöku heldur hvetji til þess að langtímasjónarmiða sé gætt og tryggi heilbrigðan rekstur bankans. Starfskjarastefnan er liður í að gæta langtímahagsmuna eigenda bankans, starfsfólks, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila með skipulegum og gagnsæjum hætti.

Starfskjarastefna Arion

Árangursdrifin menning

„Á árinu 2023 unnum við að ýmsum verkefnum tengdum menningu samstæðunnar. Mikilvægur liður í okkar starfi er að byggja upp og viðhalda jákvæðri menningu. Við hófum árið á Arion deginum í Hörpu þar sem saman kom allt starfsfólk samstæðunnar til að setja tóninn fyrir nýtt ár. Frábær dagur með kraftmiklu starfsfólki. Á haustmánuðum skipulögðum við hönnunarhraðal þar sem starfsfólk kom saman á tveggja daga vinnustofu til að skapa nýjar lausnir fyrir samstæðuna. Þar fæddust margar frábærar hugmyndir sem eiga eftir að skila sér til viðskiptavina okkar. Ný stefna leit dagsins ljós á árinu 2023, ásamt þjónustuviðmiðum og nýjum gildum. Árið 2024 verður nýtt vel til að innleiða þessar breytingar í menningu fyrirtækisins.
Áfram var lögð mikil áhersla á fræðslu á árinu. Við leitum stöðugt leiða til að auka úrvalið og leiðir sem starfsfólk getur nýtt sér við fræðslu. Við bættum mælikvarða tengdum skyldufræðslu við kaupaukakerfið okkar til að leggja enn frekari áherslu á mikilvægi þessa málaflokks. Við innleiddum fræðslukerfi sem bíður upp á leikvæðingu við kennslu á kerfi fyrirtækisins. Spennandi þróun sem bætir hæfni og færni starfsfólks enn frekar. Við héldum leiðtogaþjálfun áfram á árinu og útskrifuðum þrjá öfluga stjórnendahópa. Við buðum upp á skemmtilegt mentorprógramm sem allt starfsfólk gat óskað eftir að taka þátt í og fengið að vinna með mentor í að efla sig í leik og starfi.
Niðurstöður úr vinnustaðagreiningu og reglulegum mælingum sýna að Arion er öflugur vinnustaður þar sem starfsfólki líður vel og er ánægt með starfsumhverfið. Hlutfall helgaðs starfsfólk er hátt og það er almennt tilbúið að mæla með Arion sem vinnustað. Eins sýna mælingar að í fyrirtækinu starfa öflugir stjórnendur.
Við erum spennt fyrir þeim tækifærum og áskorunum sem eru fram undan og erum þegar farin af stað með verkefni tengd menningu og starfsþróun sem munu efla Arion enn frekar sem vinnustað.

Helga Halldórsdóttir, forstöðumaður mannauðs

Fólkið okkar

Hjá okkur starfar öflugur hópur starfsfólks með fjölbreyttan bakgrunn. Meðalaldur starfsfólks Arion banka er 41 ár og meðalstarfsaldur er 10 ár. Í lok árs 2023 var heildarfjöldi stöðugilda 737 samanborið við 700 stöðugildi í lok árs 2022. Kynjahlutfall starfsfólks er 57% konur og 43% karlar. Önnur kyn eru færri en fimm einstaklingar.

Aldur starfsfólks
%
Kyn starfsfólks
%

 

Starfsfólk hefur val um hvort og í hvaða stéttarfélag það greiðir en flestir eru meðlimir í Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF). Einnig er mikill meirihluti starfsfólks félagar í starfsmannafélaginu okkar sem ber nafnið Skjöldur.

Eins og fram kemur í mannauðsstefnunni okkar leggjum við áherslu á að laða að framúrskarandi starfsfólk og styðja við það í faglegum og persónulegum vexti. Við áhættumetum samkeppnishæfi vinnustaðarins og leiðir til að tryggja nauðsynlega hæfni og þekkingu starfsfólks. Niðurstöður úr áhættumati sýna að áhætta er óveruleg.

Við erum í samstarfi við háskólana, meðal annars með því að taka á móti starfsnemum sem koma tímabundið til starfa hjá okkur. Þeir vinna að fyrir fram ákveðnum verkefnum sem tengjast námi þeirra. Eins hafa nemendur gert lokaverkefni í grunn- og framhaldsnámi háskólanna í samstarfi við Arion. Á hverju ári ráðum við til okkar fjölda námsmanna úr háskólasamfélaginu sem starfa hjá okkur yfir sumarið og sum hver halda áfram í hlutastarfi hjá okkur samhliða námi yfir veturinn. Er þetta meðal annars liður í að laða að efnilegt og hæfileikaríkt fólk til starfa.

Jafnréttismál

Við höfum sett okkur skýra stefnu í jafnréttis- og mannréttindamálum og ber bankastjóri ábyrgð á framgangi málaflokksins innan bankans. Bankastjóri situr jafnframt í jafnréttisnefnd ásamt fulltrúum starfsfólks. Við héldum áfram að vinna að markmiðum okkar sem sett voru fram með aðgerðaáætlun í jafnréttismálum árið 2021 í tengslum við jafnréttis- og mannréttindastefnu bankans.

Markmið stefnunnar og áætlunarinnar er að skapa umhverfi þar sem fólk með sambærilega menntun, starfsreynslu og ábyrgð býr við jöfn tækifæri og kjör, án tillits til kyns, kynvitundar, kynhneigðar, uppruna, þjóðernis, litarhafts, aldurs, fötlunar, trúar eða annarrar stöðu. Í áætluninni er aukin áhersla á að jafna kynjahlutföll innan bankans, ekki einungis á meðal stjórnenda heldur einnig innan starfaflokka, nefnda og starfseininga.

Við leggjum áherslu á að auglýsa störf og höldum markvisst utan um tölfræði tengda jafnréttismálum í ráðningum. Gerðar eru reglulegar greiningar og úttektir á kynjahlutfalli niður á starfseiningar og starfaflokka með það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á kynjahlutföll. Í stjórnendaráðningum er jafnframt horft til fyrirliggjandi arftakaáætlunar sem er uppfærð reglulega. Markmiðið með slíkri áætlun er meðal annars að hafa yfirsýn yfir aðila sem geta þróast í lykilstöður innan fyrirtækisins.

Kynjahlutfall stjórnenda
%

 

Arion banki er aðili að Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact. Jafnréttissáttmálinn er alþjóðleg yfirlýsing og samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta, óháð landi og atvinnugrein, og snúa viðmiðin fyrst og fremst að kynjajafnrétti. Bankinn er einnig aðili að alþjóðlegri yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja og skuldbindur sig til að vinna að tíu grundvallarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna sem varða samfélagsábyrgð, þar með töldum mannréttindum. Áhersla Arion banka á jafnrétti styður við fimmta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem snýr að jafnrétti kynjanna (e. gender equality).

Við höfum undirritað viljayfirlýsingu um Jafnvægisvogina, hreyfiafl Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Til þess að hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar þurfa fyrirtæki að hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar innan fyrirtækisins en miðað er við 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi. Þá höfum við lagt okkar af mörkum við að hvetja konur til þess að sækjast eftir störfum í tæknigreinum. Það höfum við meðal annars gert með samstarfi við Vertonet, samtök kvenna í upplýsingatækni, og með því að taka þátt í verkefninu Stelpur og tækni.

Reglulega eru gerðar mælingar á upplifun starfsfólks af jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Niðurstöður sýna að starfsfólk upplifir heilt yfir að það geti viðhaldið heilbrigðu jafnvægi milli vinnu og persónulegra skyldna og eru niðurstöðurnar yfir markmiði okkar á ársgrundvelli. Þar teljum við að fjarvinnustefnan og aukinn sveigjanleiki í starfsumhverfi okkar hafi áhrif.

Jafnvægi milli vinnu og einkalífs
Á kvarðanum 1-5

Jafnlaunavottun

Frá árinu 2015 höfum við unnið eftir jafnlaunakerfi og verið með jafnlaunavottun. Markmiðið er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti. Árið 2018 fékk Arion jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins fyrstur íslenskra banka og þá sýndu niðurstöður launagreiningar 2,4% óútskýrðan launamun kynjanna. Frá árinu 2022 höfum við lagt aukna áherslu á þennan málaflokk og innleiddum mánaðarlegar launagreiningar til viðbótar við jafnlaunaúttektina sem við förum í gegnum árlega.

Í viðhaldsúttekt á jafnlaunakerfinu, sem framkvæmd var á árinu 2023, var niðurstaðan 0,2% óútskýrður launamunur samanborið við 0,4% árið 2022. Markmiðið er að niðurstöður launagreiningar séu undir 1% og erum við því afar stolt af þeim góða árangri sem náðst hefur á þessu sviði. Til viðbótar við markmið um niðurstöður launagreiningar settum við fram markmið í aðgerðaáætlun 2021-2024 um að miðgildi heildarlauna karla sem hlutfall af heildarlaunum kvenna lækki niður fyrir 1,3. Miðgildi heildarlauna karla sem hlutfall af heildarlaunum kvenna árið 2023 var 1,28 samanborið við 1,29 árið 2022 og 1,43 árið 2021. Jafnframt er horft til hlutfallsins í mismunandi starfaflokkum innan bankans.

Miðgildi árslauna karla sem hlutfall af miðgildi árslauna kvenna
Miðgildi árslauna karla sem hlutfall af miðgildi árslauna kvenna

Arion vísitalan og vinnustaðagreining

Arion vísitalan er könnun sem send er annan hvern mánuð til alls starfsfólks bankans. Tilgangur Arion vísitölunnar er þríþættur:

  • að mæla upplifun starfsfólks af eigin störfum, starfsumhverfi og líðan á vinnustað;
  • að vera rödd starfsfólks til að koma ábendingum hratt og auðveldlega á framfæri;
  • að finna tækifæri til umbóta og bregðast við vandamálum á skjótan og öruggan hátt.

Niðurstöður Arion vísitölunnar á árinu gefa til kynna að starfsfólki líður almennt vel í vinnunni og er ánægt með starfsumhverfið. Meðaltal Arion vísitölunnar á árinu var 4,38 á kvarðanum 1-5. Árlega er gerð ítarlegri vinnustaðagreining og stjórnendamat og er þátttaka almennt góð.

Meðmælavísitalan (sNPS)

Jafnframt er framkvæmd nýliða- og starfslokakönnun. Starfsfólki gefst tækifæri til að koma ábendingum á framfæri í opnum svörum i öllum okkar könnunum. Mannauður og stjórnendur yfirfara niðurstöður kannana og vinna að úrbótum eftir þörfum.

Meðmælavísitalan (sNPS) mældist einnig góð á árinu og helgun starfsfólks er mikil. Mælingin segir til um hvort starfsfólk mælir með bankanum sem vinnustað við vini og vandamenn og er kvarðinn á bilinu -100 til 100. Niðurstöður vinnustaðagreiningar sýndu að 93% starfsfólks eru ánægð með vinnustaðinn og helgun starfsfólks mælist 4,27 á kvarðanum 1-5.

Heilsuvernd

Hjá Arion banka er lögð áhersla á að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Fastráðnu starfsfólki stendur til boða að fara í reglulegt heilsufarsmat hjá fagaðila og í bólusetningu gegn árlegri inflúensu auk þess sem bankinn er í samstarfi við fagaðila sem þjónustar starfsfólk með það að markmiði að bæta heilsu þess. Annar liður í heilsueflingu starfsfólks er styrkur til íþróttaiðkunar, styrkur vegna kaupa á sjónglerjum og möguleiki á sálfræðiþjónustu.

Bankinn hefur sett sér heilsu- og öryggisstefnu með það að markmiði að bæta lífsgæði og vinnuumhverfi starfsfólks og tryggja að lögum um heilsu og öryggi sé framfylgt.

Heilsu- og öryggisstefna 

Heilsuvísitala
Arion

96,7%

Hlutfall starfsfólks sem nýtti sér íþróttastyrk

87%

Hlutfall starfsfólks sem
nýtti samgöngustyrk

29%

Heilsutengdir viðburðir
á árinu voru

23

Hlutfall starfsfólks sem fékk boð í heilsufarsskoðun og þáði boðið

60%

EKKO

Við leggjum ríka áherslu á að samskipti einkennist af gagnkvæmri virðingu og að starfsfólki líði vel. Einelti, kynbundin eða kynferðisleg áreitni, sem og annað ofbeldi (EKKO), er ekki undir neinum kringumstæðum umborið. Hjá bankanum er starfandi eineltisteymi sem ber ábyrgð á stefnu, verkferlum og fræðslu í tengslum við EKKO.

Stjórnendum og starfsfólki er skylt að sitja námskeið um EKKO með það að markmiði að auka vitund um málefnið og stuðla að sameiginlegum skilningi á hugtökum og verkferlum í málaflokknum. Næsta námskeið verður haldið 2024 en það er rafrænt námskeið sem öllum ber skylda til að taka. Þá framkvæmdum við einnig könnun um EKKO meðal starfsfólks og mælist það mjög lágt í öllum flokkum.

Stefna gegn einelti, áreitni og ofbeldi (EKKO)

Fræðsla og starfsþróun

Fræðslustefnan gerir okkur kleift að hafa skýra sýn í fræðslumálum og fræðslumarkmið okkar styðja við heildarstefnu fyrirtækisins. Fræðsluþarfir breytast með tímanum og því þurfa stefnur og markmið að þróast í takt við tíðarandann hverju sinni.

Lesa nánar um fræðslustefnuna

Fjölbreytt fræðsla er í boði, bæði staðkennsla og rafræn fræðsla. Eitt af lykilmarkmiðum bankans er að allt starfsfólk ljúki skyldufræðslu, m.a. um siðareglur, upplýsingaöryggi, varnir gegn peningaþvætti og persónuvernd.

Á árinu nýttum við leikvæðingu við kennslu á kerfi bankans. Við innleiddum nýtt kerfi sem gerir okkur kleift að nýta leiki til að útrýma ósamræmi í kennsluaðferðum og þar með bæta árangur fræðslunnar. Í gegnum leikvæðingu fá allir kennslu á hin ýmsu kerfi bankans með sama hætti og um leið fáum við mjög nákvæmar tölfræðiupplýsingar um árangur fræðslunnar.

Við héldum áfram með öfluga leiðtogaþjálfun þar sem 30 manns útskrifuðust á árinu. Metnaðarfull útskriftarverkefni komu út úr þjálfuninni og eru staðfesting á því hversu öfluga stjórnendur við erum með í samstæðunni.

Við vorum með opið mentorprógramm sem stóð öllu starfsfólki til boða en þar komust 25 aðilar að á árinu.

Vegna starfa sinna þarf ákveðinn hluti starfsfólks að hafa verðbréfaréttindi. Það hefur því aflað sér þeirrar menntunar og tekið próf. Verðbréfaréttindi nýtast einnig öðrum þeim sem starfa á fjármálamarkaði og því eru fjölmörg sem hafa þessi réttindi þó að þau séu ekki nauðsynleg. Þeim sem öðlast hafa verðbréfaréttindi er skylt að sækja reglulega endurmenntun sem tryggir að þau viðhaldi fræðilegri þekkingu, faglegri hæfni og gildum. Bankinn hefur stutt við starfsfólk til að afla sér þessarar menntunar sem og endurmenntunar.

Öflug fræðsla er í boði fyrir alla nýliða, bæði staðkennsla og rafræn fræðsla. Sérstakt stjórnendaprógramm er í boði fyrir alla nýja stjórnendur. Jafnframt styrkir bankinn starfsfólk til náms og námskeiða utan bankans auk þess sem hægt er að sækja styrki til stéttarfélaga.

Reynslumikið starfsfólk bankans hefur bæst í hóp þeirra sem búa til rafrænt fræðsluefni fyrir starfsfólk. Að auki er starfsfólk hvatt til að sækja ráðstefnur, námskeið og fyrirlestra utan bankans en Arion banki er með aðild að hinum ýmsu fagsamtökum, eins og t.d. Dokkunni og Stjórnvísi.

Starfsþróun

Á árinu var hannað starfsþróunarmódel í samstarfi við stjórnendur til að gera mögulega starfsþróun innan teyma sýnilegri fyrir starfsfólk. Laus störf eru auglýst innanhúss auk þess sem hægt er að sækja formlega um starfsþróun. Mannauður heldur utan um þær óskir og yfirfer á vikulegum ráðningarfundum. Arftakaáætlun í tengslum við lykilstöður er unnin í samstarfi við framkvæmdastjórn a.m.k. árlega.

fræðsluviðburðir sem voru
í boði fyrir starfsfólk á árinu

193

Fjöldi fræðsluviðburða sem hver starfsmaður sótti að meðaltali á árinu

9,4

Fjöldi rafrænna fyrirlestra í fræðslukerfi bankans

379

Rafrænir fyrirlestrar sem hver starfsmaður hlustaði á að meðaltali á árinu

36