Dóttur- og eignaumsýslufélög
Arion banka samstæðan samanstendur af móðurfélaginu Arion banka og dótturfélögunum Stefni, Verði tryggingum og Leiguskjóli. Sala á greiðslulausnafyrirtækinu Valitor kláraðist um mitt ár eftir að samþykki Samkeppniseftirlitsins lá fyrir. Dótturfélögin Vörður og Stefnir gegna mikilvægu hlutverki í þjónustuframboði bankans og framtíðarstefnu og eru til húsa í höfuðstöðvum Arion banka. Saman bjóða Arion banki og dótturfélög viðskiptavinum sínum heildstæða fjármálaþjónustu í gegnum fjölbreyttar og þægilegar þjónustuleiðir. Eignaumsýslufélögin Landey, Stakksberg og Sólbjarg eru í eigu Arion banka og voru stofnuð utan um yfirteknar eignir.
Dótturfélög
Vörður tryggingar hf.
Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag sem býður þægilegar tryggingalausnir fyrir heimili og fyrirtæki. Undanfarin tvö ár hefur starfsemi félagsins litast af áhrifum Covid. Það var því fagnaðarefni að veiran lét undan síga á fyrstu mánuðum ársins 2022. Þegar efnahagskerfi heimsins voru að ná sér eftir Covid tók hins vegar við stríðsástand vegna innrásar Rússa í Úkraínu sem hægði á öllum umbótum. Fjármálamarkaðir urðu sérlega illa úti og hafa í raun ekki fengið aðra eins útreið í fjölda ára. Ástandið hefur kynt undir verðbólgu sem er nú í hæðum sem ekki hafa sést í þróuðum löndum í áratugi.
Veðurfarslegar aðstæður geta haft mikil áhrif á afkomu vátryggingafélaga. Einkum á það við um fjölda og alvarleika umferðatjóna en válynd veður geta einnig leitt af sér fleiri tjón á fasteignum og á það jafnt við um heimili og atvinnuhúsnæði. Fyrstu fjórir mánuðir liðins árs voru einkar erfiðir veðurfarslega og má segja að sú neikvæða staða sem komin var upp á fyrsta ársþriðjungi hafi sett mark á afkomu vátryggingarekstrar á árinu í heild. Að auki leiddu áðurnefndar aðstæður á fjármálamörkuðum af sér gríðarlegt tap á annars varfærnu verðbréfasafni félagsins. Það fátíða gerðist að bæði hlutabréf og skuldabréf lækkuðu á sama tíma. Þessar aðstæður leiddu til þess að tap varð á rekstri félagsins á árinu 2022. Slíkt hefur ekki gerist síðan á árinu 2008.
Sjálfbærni og samfélagsábyrgð
Í sjálfbærnimálum var unnið eftir stefnu sem mótuð var til þriggja ára. Áhersla var á forvarnir en forvarnasérfræðingur var í fyrsta sinn ráðinn til félagsins á liðnu ári. Sérstök áhersla var lögð á samvinnu um forvarnir og öryggismál við stærri fyrirtæki. Slík vinna skilar sér í færri tjónum og þar með lægri tjónakostnaði og dregur úr óþægindum og truflun í starfsemi viðkomandi fyrirtækja. Forvarnafulltrúi Varðar skrifaði fjölda greina í dagblöð, m.a. um öryggismál í umferðinni og leiðir til að draga úr innbrotum á heimili og í fyrirtæki.
Í eignatjónum er að færast í aukana að skoðanir fari fram í gegnum fjarbúnað sem heitir Sightcall. Slíkur hugbúnaður gerir það að verkum að sérfræðingar félagsins þurfa ekki að mæta á vettvang til að skoða og meta tjón. Þannig sparast tími og kolefnisspor minnkar þar sem ekki er um akstur að ræða á milli staða.
Áfram var viðvörunum komið á framfæri við viðskiptavini þegar veðurfarslegar ógnir steðjuðu að, t.d. yfirvofandi fok- og frostsprungutjón á heimilum og frístundahúsum.
Á árinu hlaut Vörður enn á ný Jafnvægisvog Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA), fyrirtækið var meðal efstu fyrirtækja í mælingu VR á Fyrirtæki ársins, Framúrskarandi fyrirtæki Creditinfo og áfram fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum. Viðurkenningar sem þessar eru mikilvæg endurgjöf og fólki hvatning um að vinna stöðugt að umbótum. Í nútímasamfélagi skiptir upplýsingaöryggi æ meira máli, og fékk félagið á dögunum endurnýjaða ISO 27001 vottun um stjórnkerfi upplýsingaöryggis.
Rekstrarafkoma
Rekstur Varðar var þungur á árinu 2022. Eftir tvö óvanaleg og tjónalétt Covid ár jókst fjöldi tjóna á ný samhliða aukinni fjölgun ferðamanna og virkni landsmanna. Heildarfjöldi tilkynntra tjóna var liðlega 22 þúsund, fjölgaði um 3.000 á milli ára. Á sama tíma jókst tjónakostnaður um 26%. Tjónum fjölgaði og tjónakostnaður hækkaði í flestum greinaflokkum. Stærsta einstaka tjónið á liðnu ári tengdist sprengingu hjá fyrirtæki á landsbyggðinni. Auk mikilla skemmda á húsnæði og rekstrarstöðvunar slösuðust tveir einstaklingar alvarlega. Við neikvæða tjónaþróun bættist síðan eins og áður var getið um tap á fjárfestingastarfsemi.
Þróun á árinu 2022 staðfestir mikilvægi þess að vátryggingafélög séu ávallt vel fjármögnuð. Óvænt áföll eru ekki fyrirséð.
Hið jákvæða er að á liðnu ári hélt viðskiptavinum Varðar áfram að fjölga og eru þeir nú liðlega 65.000. Á sama tíma jukust iðgjöld umtalsvert eða um 11%. Fjölgun viðskiptavina nær bæði til heimila og fyrirtækja.
Verkefnin fram undan
Áfram verður leitast við að þróa starfsemi Varðar; bæta þjónustu og endurskoða og efla framboð trygginga og skilmála þeirra. Framhald verður á þróun og innleiðingu stafrænna lausna. Á sama tíma og Vörður hyggst bjóða stafrænar lausnir ætlar fyrirtækið að vera mannlegt og bjóða fjölbreytt úrval þegar kemur að lausnum og samskiptum. Fjölmörg tækifæri eru ónýtt til hagsbóta fyrir viðskiptavini þegar kemur að samstarfi Varðar við eigandann Arion banka.
Framtíðarhorfur
Sókn Varðar á tryggingamarkaðnum hefur verið hröð og hefur viðskiptavinum fjölgað ár frá ári. Með framsæknum lausnum verður leitast við að þjóna heimilum og fyrirtækjum með þeim hætti sem skapar hvað mest þægindi fyrir þau. Tækifæri til vaxtar og umbóta í þjónustu eru mikil og hefur markið verið sett á áframhaldandi vöxt og að félagið verði leiðandi í þjónustu og lausnaframboði.
Stefnir hf.
Stefnir hf. er eitt elsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins. Stefnir byggir á farsælli og verðmætri sögu og hefur skapað virði með viðskiptavinum sínum í áratugi. Stefnir hefur verið leiðandi í vöruþróun á sjóðastýringarmarkaði og náð árangri með ábyrgum hætti fyrir viðskiptavini sína með sterkri liðsheild og teymisvinnu. Félagið er að fullu í eigu Arion banka og tengdra félaga og starfsstöðvar félagsins eru til húsa í höfuðstöðvum bankans. Eignir í stýringu félagsins eru rúmir 260 milljarðar króna og eru í eigu fjölbreytts hóps fjárfesta, allt frá einstaklingum upp í stærstu fagfjárfesta landsins. Í árslok 2022 voru 24 starfsmenn hjá Stefni.
Eignir í virkri stýringu lækkuðu á árinu um 28 milljarða króna eða úr tæpum 288 milljörðum króna í 260 milljarða. Lækkunin skýrist bæði af neikvæðri ávöxtun og útflæði úr sjóðum sem rekja má til óvissu á mörkuðum. Þrátt fyrir erfitt ástand markaða fjölgaði sjóðfélögum hjá Stefni um 5,5%, m.a. vegna vel heppnaðrar markaðssóknar og greiðs aðgengis að sjóðum Stefnis í gegnum stafrænar dreifileiðir sem eru í dag ráðandi í viðskiptum með sjóði. Dreifing eignaflokka í stýringu er góð og tekjusamsetning félagsins í samræmi við markmið stjórnar.
Vöruþróun og stórir áfangar á árinu
Virk vöruþróun í takt við þarfir viðskiptavina Stefnis er eitt af áhersluatriðum félagsins. Á árinu stofnaði Stefnir fjóra nýja sjóði og af þeim voru tveir fyrir almenna fjárfesta. Stefnir – Sustainable Arctic Fund einblínir á hlutabréfafjárfestingar á Norðurslóðum með sjálfbærni að leiðarljósi. Stefnir – Innlend hlutabréf Vogun fjárfestir í innlendum hlutabréfum og má nýta skuldsetningu og afleiður. Aðrir sjóðir eru Stefnir – Multi Strategy Fund II sem hefur víðtækar fjárfestingarheimildir og SÍL 2 sem er sérhæfður skuldabréfasjóður.
Stórir áfangar náðust í sérhæfðum fjárfestingum en slit SÍA I, elsta framtakssjóðs Stefnis, eftir sölu síðustu eignar sjóðsins og sölu SÍA III á Reykjavík Edition hótelinu við Austurhöfn má telja til verkefna sem skiluðu fjárfestum sjóðanna og Stefni góðum árangri.
Ábyrgar fjárfestingar og hlutverk Stefnis
Hlutverk Stefnis er að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Ábyrgar fjárfestingar, fjölbreyttir fjárfestingarkostir og ítarleg upplýsingagjöf eru lykilatriði við framkvæmd þeirrar samfélagsábyrgðar sem Stefnir vill standa fyrir. Með því að taka tillit til umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta hefur Stefnir jákvæð áhrif á samfélag sitt, eigendur í sjóðum og er öðrum haghöfum til góðs.
Stjórn Stefnis hefur sett félaginu stefnu um ábyrgar fjárfestingar og er stöðugt unnið að innleiðingu hennar í fjárfestingaferla og við samval fjárfestinga. Vöruþróun felst að miklu leyti í að bjóða ábyrga fjárfestingarkosti í takt við óskir viðskiptavina okkar.
Stjórn Stefnis hefur tileinkað sér góða stjórnarhætti og einsett sér að stuðla að og styðja við ábyrga hegðun og fyrirtækjamenningu innan Stefnis, til hagsbóta fyrir alla hagaðila félagsins. Stefnir var fyrst íslenskra félaga til að hljóta nafnbótina fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum árið 2012 og hefur viðhaldið þeirri vinnu allar götur síðan.
Leiguskjól
Leiguskjól ehf. er fjártæknifélag sem býður viðskiptavinum sínum húsaleiguábyrgðir frá Arion banka, auk annarrar virðisaukandi þjónustu og rekur einnig leiguvefinn www.myigloo.is. Arion banki á 51% hlut í Leiguskjóli ehf.
Leiguskjól er gott dæmi um samstarfsaðila sem bankinn hefur valið að starfa með og styður við þjónustu bankans. Leiguskjól tók þátt í Startup Reykjavík hraðlinum árið 2018. Þar hófst fjárfesting bankans í félaginu þegar bankinn eignaðist 6% hlut. Á árinu 2019 gerði bankinn samstarfssamning við félagið ásamt því að auka við fjárfestingu sína í félaginu og á bankinn nú 51% hlut. Fjárfestingin og samstarfssamningurinn við Leiguskjól eru liður í áherslu bankans á aukið samstarf við fjártæknifélög þar sem markmiðið er meðal annars að nýta grunnstoðir bankans og tengja við þann fókus og kraft sem felst í frumkvöðlastarfi.
Eignaumsýslufélög
Sólbjarg
Sólbjarg ehf. er eignarhaldsfélag yfir fyrrum ferðaþjónustusamstæðu TravelCo hf. en dótturfélög þess voru Terra Nova Sól ehf., Heimsferðir ehf. og TravelCo Nordic/Bravo Tours.
Á fyrsta ársfjórðungi 2020 lauk Sólbjarg sölu á Terra Nova Sól ehf., á fjórða ársfjórðungi 2021 sölu á 59,4% eignarhlut sínum í dönsku ferðaskrifstofunni Bravo Tours 1998 A/S og á öðrum ársfjórðungi 2022 sölu á öllum rekstri, vörumerki og léni Heimsferða ehf.
Sólbjarg er minnihlutaeigandi í Ferðaskrifstofu Íslands í gegnum eignarhald sitt á Heimbjargi ehf. (áður Heimsferðir ehf.).
Stakksberg
Stakksberg ehf. er félag í eigu Arion banka sem snemma á árinu 2018 tók yfir kísilverksmiðjuna í Helguvík í kjölfar gjaldþrots fyrri eiganda, United Silicon hf. Síðan þá hefur Stakksberg unnið endurbótaáætlun fyrir verksmiðjuna og leitað að hæfum kaupendum sem gætu rekið verksmiðjuna með ábyrgum hætti. Að höfðu samráði við viðeigandi stjórnvöld var nýju umhverfismati, sem byggðist á endurbótaáætluninni, lokið og sýndu fjárfestar verksmiðjunni umtalsverðan áhuga. Arion banki hefur alla tíð gert þá kröfu að mögulegir kaupendur væru traustir aðilar sem byggju yfir yfirgripsmikilli reynslu af rekstri kísilvera.
Í upphafi árs 2022 gekk Arion banki til einkaviðræðna við PCC sem hefur starfrækt kísilverksmiðju á Bakka við Húsavík í góðri sátt við nærsamfélagið. Það var mat bankans að PCC byggi yfir nauðsynlegri þekkingu og reynslu til að starfrækja verksmiðjuna í Helguvík með farsælum hætti. Voru fulltrúar PCC og Arion banka sammála um að forsenda þess að farið yrði af stað aftur með kísilframleiðslu í Helguvík væri að slíkt yrði gert í góðri sátt við yfirvöld og íbúa Reykjanesbæjar. Eftir að hafa kynnt metnaðarfull áform sín fyrir ýmsum hagaðilum var það niðurstaða PCC að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi viðræðum um kaup félagsins á kísilverksmiðjunni.
Í kjölfar þeirrar niðurstöðu horfir Arion banki til sölu á þeim innviðum sem eru til staðar í Helguvík, annaðhvort til flutnings eða með það að markmiði að koma þar upp annars konar starfsemi en kísilframleiðslu. Viðræður eru í gangi við nokkra aðila, innlenda og erlenda.
Helstu eignir Stakksbergs, lóð og verksmiðjuhúsnæði í Helguvík á Reykjanesi, voru fluttar yfir í Landey, fasteignaþróunarfélag Arion banka, um áramótin.
Landey
Landey ehf. er fasteignaþróunarfélag í eigu Arion banka hf. Landey hefur frá stofnun árið 2009 komið að eignarhaldi á ýmsum fasteignum og þróunarverkefnum. Núverandi eignir félagsins eru lóðir og fasteignir á Blikastaðalandi, við Þrastarhöfða í Mosfellsbæ, 51% eignarhlutur í Arnarneshálsi í Garðabæ og lóð og verksmiðjuhúsnæði í Helguvík.
Markmið félagsins er að auka verðmæti eigna sinna með áframhaldandi þróun og uppbyggingu þessara svæða.