Fjármögnun og lausafjárstaða

Á árinu 2022 hélt bankinn áfram að vinna að aukinni fjölbreytni fjármögnunarkosta, meðal annars með útgáfu grænna skuldabréfa í evrum og íslenskum krónum. Bankinn stýrir fjármögnun og lausafé með ábyrgum hætti sem meðal annars endurspeglast í sterkum lausafjárhlutföllum og jöfnu endurgreiðsluferli langtímaskulda á komandi árum.

Skuldabréfaútgáfur á erlendum mörkuðum

Í september 2022 gaf Arion banki út sína aðra grænu skuldabréfaútgáfu í evrum. Grænu skuldabréfin voru til þriggja ára að upphæð 300 milljónir evra.

Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 2,65% álagi á millibankavexti. BofA Securities Europe SA, J.P. Morgan SE, Nomura Financial Products Europe og Citigroup Global Markets Europe sáu um útgáfuna fyrir hönd bankans. Skuldabréfin voru gefin út undir grænni fjármálaumgjörð bankans. Í umgjörðinni er með skýrum og gagnsæjum hætti gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem lánveitingar bankans þurfa að uppfylla til að teljast grænar.

Í apríl 2022 gaf Arion banki út sértryggð skuldabréf í evrum að upphæð 200 milljónir evra. Um var að ræða viðbótarútgáfu við 300 milljón evra skuldabréf til fimm ára sem gefin voru út haustið 2021 og er heildarstærð útgáfunnar nú 500 milljónir evra. Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 0,37% álagi á millibankavexti. Barclays Bank Ireland PLC sá um útgáfuna fyrir hönd bankans.

Skuldabréfaútgáfur á innlendum mörkuðum

Í janúar 2022 gaf Arion banki út nýjan flokk grænna skuldabréfa í krónum. Nýi flokkurinn ARION 241020 GB fékk góðar viðtökur og voru alls seld bréf fyrir 6.020 m.kr. til breiðs hóps innlendra fjárfesta. Skuldabréfin eru til tveggja ára og níu mánaða og bera fljótandi óverðtryggða vexti 3M REIBOR + 0,70 álag. Skuldabréfin eru með vaxtagreiðslum á 3 mánaða fresti og einni endurgreiðslu höfuðstóls á lokagjalddaga árið 2024. Skuldabréfin voru gefin út undir grænni fjármálaumgjörð bankans.

Arion banki hélt áfram útgáfu sinni á sértryggðum skuldabréfum sem tryggð eru samkvæmt lögum nr. 11/2008 um sértryggð skuldabréf. Á árinu 2022 voru gefin út sértryggð skuldabréf fyrir 10,1 milljarða króna.

Arion banki endurnýjaði samninga við Kviku, Íslandsbanka og Landsbankann um viðskiptavakt á sértryggðum skuldabréfum á Nasdaq Iceland útgefnum af Arion banka. Tilgangur samninganna er að efla viðskipti með markflokka sértryggðra skuldbréfa sem eru útgefin af bankanum.

Í desember 2022 gaf Arion banki út tvo flokka víkjandi skuldabréfa í krónum sem telja til eigin fjárþáttar 2 (e. Tier 2) fyrir samtals 12,1 milljarða króna.

Seldar voru 9.860 m.kr. á kröfunni 5,01% í flokknum ARION T2I 33 sem er verðtryggt vaxtagreiðslubréf með vaxtagreiðslum tvisvar á ári. Seldar voru 2.240 m.kr. á kröfunni 9,46% í flokknum ARION T2 33 sem er óverðtryggt vaxtagreiðslubréf með vaxtagreiðslum tvisvar á ári. Báðir flokkarnir eru með lokagjalddaga þann 15. desember 2033 og með innköllunarheimild af hálfu útgefanda 15. desember 2028 og á öllum vaxtagjalddögum þar á eftir.

Endurgreiðsluferill fjármögnunar
Milljarðar króna
Samsetning fjármögnunar
%

Lánshæfismat

Moody´s

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Moody's Investors Service veitti Arion banka í fyrsta sinn lánshæfiseinkunn. Arion banki fékk langtímaeinkunnina A3 og skammtímaeinkunnina Prime-2 á innlán í erlendum og innlendum gjaldmiðlum. Arion banki fékk lánshæfiseinkunnina Baa1 sem útgefandi óverðtryggðra skuldabréfa. Lánshæfismat innlána og lánshæfismat bankans sem útgefanda er með jákvæðum horfum.

Lánshæfismatið endurspeglar sterka eiginfjárstöðu Arion banka sem m.a. kemur fram í traustu vogunarhlutfalli (e. leverage ratio) ásamt góðri og batnandi arðsemi af kjarnastarfsemi, lágu hlutfalli vanskilalána og fullnægjandi lausafjárstöðu. Framangreindir þættir vega á móti áhættu vegna einstakra lántaka, landfræðilegri samþjöppun, markaðsáhættu og því að bankinn fjármagnar sig reglulega á skuldabréfamörkuðum.

Jákvæðar horfur endurspegla bætt áhættusnið bankans og væntingar Moody‘s um minni sveiflur í arðsemi hans á næstu 12-18 mánuðum.

Innlán Arion banki
Langtíma A3
Skammtíma P-2
Horfur Jákvæðar
Síðasta mat 12. júlí 2022
Útgefandi Arion banki Íslenska ríkið
Langtíma Baa1 A2
Skammtíma

Horfur Jákvæðar Stöðugar
Síðasta mat 12. júlí 2022  

S&P Global Rating

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) staðfesti lánshæfismat Arion banka, BBB, og horfur héldust áfram stöðugar. Skammtímalánshæfismat bankans er A-2.

S&P hækkaði lánshæfismat sértryggðra skuldabréfa Arion banka frá A- í A með stöðugum horfum. Lánshæfi sértryggðra skuldabréfa er nú það sama og einkunn íslenska ríkisins hjá S&P. Lánshæfismat sértryggðra skuldbréfa endurspeglar styrk Arion banka sem útgefanda, trausta umgjörð íslensks fjármálakerfis og gæði íbúðalánasafns bankans.

Í tilkynningu frá S&P segir m.a. að betri arðsemi Arion banka styðji við getu bankans til að takast á við afleiðingar mögulegar hóflegrar verðleiðréttingar á húsnæðismarkaði. S&P gerir einnig ráð fyrir því að bankinn standi af sér samkeppni frá lífeyrissjóðum á húsnæðislánamarkaði, ef til hennar kemur.

Þá eru stöðugar horfur í takt við væntingar S&P um að eiginfjárgrunnur Arion banka verði áfram mjög sterkur og að arðsemi haldist áfram góð á næstu tveimur árum og verði ívið hærri en hjá samkeppnisaðilum. Vaxtamunur og þóknanir hækki frá því lágmarki sem náð var í heimsfaraldrinum og útlánatöp lækki niður í um 0,30% útlána. Að auki gerir S&P ráð fyrir því að hægt verði að halda kostnaði í skefjum þrátt fyrir mikla verðbólgu þar sem bankinn muni áfram þjóna flestum viðskiptavina sinna með stafrænum hætti.

Flokkur Arion banki Sértryggð skuldabréf Íslenska ríkið*
Langtíma BBB A A
Skammtíma A-2
A-1
Horfur Stöðugar Stöðugar Stöðugar
Síðasta mat 13. júlí 2022 27. maí 2022 13. maí 2022

*Skuldbindingar í erlendri mynt. Frekari upplýsingar má fá á www.sedlabanki.is.

Þróun lánshæfismats

Lausafjárstaða og lausafjáráhætta

Bankinn er fjármagnaður að stórum hluta með innlánum frá einstaklingum, fyrirtækjum og fagfjárfestum. Eitt af meginmarkmiðum Arion banka er að viðhalda sterku lausafjárþekjuhlutfalli (e. liquidity coverage ratio, LCR) til að styðja við stefnu og framgang bankans. Lausafjárþekjuhlutfallið, sem er reiknað samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands og evrópskum reglum byggðum á Basel III staðlinum, tekur á áhættuþáttum sem snerta hvikleika innlána og tímamisvægi eigna og skulda. Í árslok var lausafjárþekjuhlutfall bankans 203% og fyrir erlenda gjaldmiðla var hlutfallið 607%, sem er vel yfir þeim mörkum sem reglur Seðlabankans kveða á um.

Fjármögnunarhlutfall bankans (e. Net Stable Funding Ratio, NSFR) var 119% í árslok 2022. Hlutfallið vegur tiltæka stöðuga fjármögnun bankans gagnvart nauðsynlegri stöðugri fjármögnun samkvæmt aðferð sem tekur m.a. tillit til seljanleika eigna og gjalddaga skulda. Há hlutföll draga fram styrka fjármögnun bankans og getu til að styðja við útlánastarfsemi hans í framtíðinni.