Mannauður

Við viljum skapa jákvætt og hvetjandi vinnuumhverfi og styðja við starfsfólk. Lögð er rík áhersla á að halda í og laða að framúrskarandi starfsfólk og styðja við það í faglegum og persónulegum vexti. Við sköpum jöfn tækifæri og leggjum áherslu á að auka færni starfsfólks með árangursdrifinni menningu. Í sameiningu leggjum við okkur fram um að skilja þarfir og uppfylla væntingar viðskiptavina okkar, því upplifun þeirra er okkur hjartans mál.

Mannauðsstefnan okkar

Starfskjarastefna Arion 

Samkvæmt gildandi starfskjarastefnu sem samþykkt var á aðalfundi bankans árið 2022 skal stefnt að því að bjóða á hverjum tíma samkeppnishæf laun til að bankinn geti laðað til sín og haldið í framúrskarandi starfsfólk og að störf hjá bankanum séu eftirsóknarverð í augum hæfra einstaklinga. Við framkvæmd starfskjarastefnunnar er haft að leiðarljósi að hún stuðli ekki að óeðlilegri áhættutöku heldur hvetji til þess að langtímasjónarmiða sé gætt og tryggi heilbrigðan rekstur bankans. Starfskjarastefnan er liður í að gæta langtímahagsmuna eigenda bankans, starfsfólks, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila með skipulegum og gagnsæjum hætti.

Starfskjarastefna Arion

Jákvæð fyrirtækjamenning

„Árið 2022 var allt í senn krefjandi, gefandi og lærdómsríkt. Í byrjun árs tókum við á móti hópi starfsfólks sem kom frá Verði yfir til Arion og höfum við nýtt árið til að aðlaga okkur að menningu hvort annars. Samþættingin hefur gengið vel og sjáum við að mikill kraftur og metnaður býr í okkar starfsfólki. Um mitt ár tókum við Workplace í notkun þar sem við miðlum upplýsingum, hugmyndum og deilum sögum af góðum árangri. Sameiginlegur samskiptavettvangur á stórum vinnustað er mikilvægur liður í að byggja upp og viðhalda góðri stemningu og jákvæðri menningu.

Við lögðum sérstaka áherslu á fræðslumál á árinu ásamt því að setja af stað mentorprógramm, nýliðaprógramm og leiðtogaþjálfun. Þá tókum við upp aukið samstarf við Gallup á árinu og framkvæmum nú Arion vísitöluna, vinnustaðagreiningar og aðrar smærri kannanir með breyttu sniði. Tölfræðigreiningar og notkun gagna í mannauðsmálum verða sífellt mikilvægari og höfum við lagt kapp á að bæta aðgengi stjórnenda að mannauðsgögnum og nýta greiningar í auknum mæli til að styðja við ákvarðanatöku.

Síðast en ekki síst gátum við loksins haldið árshátíð, jólaball og aðrar samkomur þar sem starfsfólk kom saman og gerði sér glaðan dag. Eftir takmarkanir síðustu ára sjáum við nú sem aldrei fyrr hvað það skiptir miklu máli að hafa gaman saman. Við erum spennt fyrir þeim áskorunum sem næsta ár færir okkur og munum takast á við þær með það að markmiði að gera betur í dag en í gær. Það er lykillinn að árangri.

Helga Halldórsdóttir, forstöðumaður mannauðs

Fólkið okkar

Hjá okkur starfar öflugur hópur starfsfólks með fjölbreyttan bakgrunn. Meðalaldur starfsfólks er 42 ár og meðalstarfsaldur er 10 ár. Í lok árs 2022 var heildarfjöldi stöðugilda 700 samanborið við 619 stöðugildi í lok árs 2021. Fjölgunin skýrist einna helst af tilfærslu starfsfólks frá Verði yfir til Arion banka í byrjun árs 2022. Kynjahlutfall starfsfólks er 58% konur og 42% karlar. Önnur kyn eru færri en fimm einstaklingar.

Aldur starfsfólks
%
Kyn starfsfólks
%

 

Starfsfólk hefur val um hvort og í hvaða stéttarfélag það greiðir en flestir eru meðlimir í Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF). Einnig er mikill meirihluti starfsfólks félagar í starfsmannafélaginu okkar sem ber nafnið Skjöldur.

Eins og fram kemur í mannauðsstefnunni okkar leggjum við áherslu á að laða að framúrskarandi starfsfólk og styðja við það í faglegum og persónulegum vexti. Á árinu hófum við því að áhættumeta samkeppnishæfni vinnustaðarins og leiðir til að tryggja nauðsynlega hæfni og þekkingu starfsfólks. Niðurstöður úr áhættumati sýna að áhætta er óveruleg.

Jafnréttismál

Við höfum sett okkur skýra stefnu í jafnréttis- og mannréttindamálum og ber bankastjóri ábyrgð á framgangi málaflokksins innan bankans. Bankastjóri situr jafnframt í jafnréttisnefnd ásamt fulltrúum starfsfólks. Við héldum áfram að vinna að markmiðum okkar sem sett voru fram með aðgerðaáætlun í jafnréttismálum árið 2021 í tengslum við jafnréttis- og mannréttindastefnu bankans.

Markmið stefnunnar og áætlunarinnar er að skapa umhverfi þar sem fólk með sambærilega menntun, starfsreynslu og ábyrgð býr við jöfn tækifæri og kjör, án tillits til kyns, kynvitundar, kynhneigðar, uppruna, þjóðernis, litarhafts, aldurs, fötlunar, trúar eða annarrar stöðu. Í nýju áætluninni er aukin áhersla á að jafna kynjahlutföll innan bankans, ekki einungis á meðal stjórnenda heldur einnig innan starfaflokka, nefnda og starfseininga.

Við leggjum áherslu á að auglýsa störf og höldum markvisst utan um tölfræði tengda jafnréttismálum í ráðningum. Gerðar eru reglulegar greiningar og úttektir á kynjahlutfalli niður á starfseiningar og starfaflokka með það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á kynjahlutföll. Í stjórnendaráðningum er jafnframt horft til fyrirliggjandi arftakaáætlunar sem er uppfærð reglulega. Markmiðið með slíkri áætlun er meðal annars að hafa yfirsýn yfir aðila sem geta þróast í lykilstöður innan fyrirtækisins.

Kynjahlutfall stjórnenda
%

 

Arion banki er aðili að Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact. Jafnréttissáttmálinn er alþjóðleg yfirlýsing og samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta, óháð landi og atvinnugrein, og snúa viðmiðin fyrst og fremst að kynjajafnrétti. Bankinn er einnig aðili að alþjóðlegri yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja og skuldbindur sig til að vinna að tíu grundvallarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna sem varða samfélagsábyrgð, þar með töldum mannréttindum. Áhersla Arion banka á jafnrétti styður við fimmta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem snýr að jafnrétti kynjanna (e. gender equality).

Jafnvægisvogin

Við höfum einnig undirritað viljayfirlýsingu um Jafnvægisvogina, hreyfiafl Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Þau fyrirtæki sem hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar innan fyrirtækisins en miðað er við 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi. Á árinu tókum við einnig þátt í átaksverkefni Vertonet til að auka nýliðun kvenna í upplýsingatækni.

Reglulega eru gerðar mælingar á upplifun starfsfólks á jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Niðurstöður sýna að starfsfólk upplifir heilt yfir að það geti viðhaldið heilbrigðu jafnvægi milli vinnu og persónulegra skyldna og eru niðurstöðurnar yfir markmiði okkar á ársgrundvelli. Þar teljum við að fjarvinnustefnan og aukinn sveigjanleiki í starfsumhverfi okkar hafi áhrif.

Jafnvægi milli vinnu og einkalífs
Á kvarðanum 1-5

Jafnlaunavottun

Frá árinu 2015 höfum við unnið eftir jafnlaunakerfi og verið með jafnlaunavottun. Markmiðið er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti. Árið 2018 fékk Arion jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins fyrstur íslenskra banka og þá sýndu niðurstöður launagreiningar 2,4% óútskýrðan launamun kynjanna. Á árinu 2022 höfum við lagt aukna áherslu á þennan málaflokk og innleiddum mánaðarlegar launagreiningar til viðbótar við jafnlaunaúttektina sem við förum í gegnum árlega.

Í viðhaldsúttekt á jafnlaunakerfinu sem framkvæmd var á árinu var niðurstaðan 0,4% óútskýrður launamunur (konur hærri) samanborið við 0,1% árið 2021 (karlar hærri). Okkar markmið er að niðurstöður launagreiningar séu undir 1% og erum við því afar stolt af þeim góða árangri sem náðst hefur á þessu sviði. Til viðbótar við markmið um niðurstöður launagreiningar settum við fram markmið í aðgerðaráætlun 2021-2024 um að miðgildi heildarlauna karla sem hlutfall af heildarlaunum kvenna lækki niður fyrir 1,3. Miðgildi heildarlauna karla sem hlutfall af heildarlaunum kvenna árið 2022 var 1,29 samanborið við 1,43 árið 2021. Jafnframt er horft til hlutfallsins í mismunandi starfaflokkum innan bankans.

Miðgildi árslauna karla sem hlutfall af miðgildi árslauna kvenna

Arion vísitalan og vinnustaðagreining

Arion vísitalan er könnun sem send er reglulega til alls starfsfólks bankans. Tilgangur Arion vísitölunnar er þríþættur:

  • Að mæla upplifun starfsfólks á eigin störfum, starfsumhverfi og líðan á vinnustað
  • Að vera rödd starfsfólks til að koma ábendingum hratt og auðveldlega á framfæri
  • Að finna tækifæri til umbóta og bregðast við vandamálum á skjótan og öruggan hátt.

Niðurstöður Arion vísitölunnar á árinu gefa til kynna að starfsfólki líður almennt vel í vinnunni og er ánægt með starfsumhverfið. Meðaltal Arion vísitölunnar á árinu var 4,36 á kvarðanum 1-5. 

Meðmælavísitalan (sNPS)

Meðmælavísitalan (sNPS) mældist einnig góð á árinu og helgun starfsfólks er mikil. Mælingin segir til um það hvort starfsfólk mæli með bankanum sem vinnustað við vini og vandamenn og er kvarðinn á bilinu -100 til 100. Niðurstöður vinnustaðagreiningar sýndu að 93% starfsfólks eru ánægð með vinnustaðinn og helgun starfsfólks mælist 4,23 á kvarðanum 1-5.

Heilsuvernd

Hjá Arion banka er lögð áhersla á að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Fastráðnu starfsfólki stendur til boða að fara í reglulegt heilsufarsmat hjá fagaðila, fara í bólusetningu gegn árlegri inflúensu auk þess sem bankinn er í samstarfi við fagaðila sem þjónustar starfsfólk með það að markmiði að bæta heilsu þess. Annar liður í heilsueflingu starfsfólks er styrkur til íþróttaiðkunar, styrkur vegna kaupa á sjónglerjum og möguleiki á sálfræðiþjónustu.

Bankinn hefur sett sér heilsu- og öryggisstefnu með það að markmiði að bæta lífsgæði og vinnuumhverfi starfsfólks og tryggja að lögum um heilsu og öryggi sé framfylgt.

Heilsu- og öryggisstefna 

 

 

Heilsuvísitala
Arion

96%

Hlutfall starfsfólks sem nýtti sér íþróttastyrk

86%

Hlutfall starfsfólks sem
nýtti samgöngustyrk

10%

Heilsutengdir viðburðir
á árinu voru

11

Hlutfall starfsfólks sem fékk boð í heilsufarsskoðun og þáði boðið

81%

EKKO

Við leggjum ríka áherslu á að samskipti einkennist af gagnkvæmri virðingu og að starfsfólki líði vel. Einelti, kynbundin eða kynferðisleg áreitni, sem og annað ofbeldi (EKKO) er ekki undir neinum kringumstæðum umborið. Hjá bankanum er starfandi eineltisteymi sem ber ábyrgð á stefnu, verkferlum og fræðslu í tengslum við EKKO. Nóvembermánuður var tileinkaður EKKO fræðslu. 

Stjórnendum og starfsfólki var skylt að sitja námskeið um EKKO með það að markmiði að auka vitund um málefnið og stuðla að sameiginlegum skilningi á hugtökum og verkferlum í málaflokknum. Þá framkvæmdum við einnig könnun um EKKO meðal starfsfólks og mælist það mjög lágt í öllum flokkum.

Stefna gegn einelti, áreitni og ofbeldi (EKKO)

Fræðsla og starfsþróun

Fræðslustefnan gerir okkur kleift að hafa skýra sýn í fræðslumálum og fræðslumarkmið okkar styðja við heildarstefnu fyrirtækisins. Fræðsluþarfir breytast með tímanum og því þurfa stefnur og markmið að þróast í takt við tíðarandann hverju sinni.

Lesa nánar um fræðslustefnuna

Á árinu lögðum við mikla áherslu á fræðslumálin og fræðslustarfið breyttist töluvert. Rafræn fræðsla var innleidd á öllum sviðum í ríkara mæli og einnig reglubundin fræðsla þar sem starfsfólk deilir þekkingu sinni með samstarfsfólki.

 

 

Á árinu gerðum við úrbætur á nýliðafræðslunni og innleiddum reglubundna rafræna fræðslu sem nýtt starfsfólk sinnir á fyrstu 90 dögum í starfi. Við fórum einnig af stað með leiðtogaþjálfun sem stjórnendur munu fara í gegnum á næstu árum. Samhliða því settum við af stað mentorprógramm með það að markmiði að skapa umhverfi sem eflir og þróar okkar starfsfólk og skapar vettvang til að miðla þekkingu og reynslu milli samstarfsfélaga. Reynslumikið starfsfólk sem tekið hefur að sér hlutverk mentors deilir þekkingu og styður við samstarfsfólk í að takast á við áskoranir í starfi.

Þá er starfsfólk hvatt til að sækja ráðstefnur, námskeið og fyrirlestra utan bankans en Arion banki er með aðild að hinum ýmsu fagsamtökum eins og t.d. Dokkunni og Stjórnvísi.

 

fræðsluviðburðir sem voru
í boði fyrir starfsfólk á árinu

83

Fjöldi fræðsluviðburða sem hver starfsmaður sótti að meðaltali á árinu

6,8

Fjöldi rafrænna fyrirlestra í fræðslukerfi bankans

286

Rafrænir fyrirlestrar sem hver starfsmaður hlustaði á að meðaltali á árinu

11