Arion banki hefur sett sér umhverfis- og loftslagsstefnu og hefur á síðustu árum boðið viðskiptavinum græna fjármálaþjónustu; græn bílalán, fyrirtækjalán, innlán og íbúðalán. Við höfum gefið út græna fjármálaumgjörð sem nær til fjármögnunar bankans og lánveitinga. Þannig hefur bankinn skuldbundið sig til að nýta það fjármagn sem hann sækir á lánsfjármörkuðum í tengslum við grænu umgjörðina í græn lán til fyrirtækja og einstaklinga eins og þau eru skilgreind í umgjörðinni. Til að sýna fram á nýtingu þessara fjármuna í græn verkefni hefur bankinn sett fram áhrifa- og úthlutunarskýrslu.
Græn fjármálaumgjörð
Bankar gegna lykilhlutverki í að fjármagna framfarir og við hjá Arion banka beinum sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu.
Græn fjármálaumgjörð Arion banka, sem bankinn gaf út árið 2021, spilar lykilhlutverk í að bankinn geti fjármagnað grænar lánveitingar til einstaklinga og fyrirtækja. Umgjörðin hefur nýst vel við fjármögnun bankans með útgáfu grænna skuldabréfa og öflun grænna innlána en ekki síður til að efla umhverfisvænt vöruframboð bankans sem nú samanstendur af grænum bílalánum, íbúðalánum, fyrirtækjalánum og innlánum. Verkefni sem falla undir grænar lánveitingar geta meðal annars snúið að orkusparnaði, orkuskiptum í samgöngum, vottuðum fasteignum, sjálfbærum sjávarútvegi, mengunarvörnum og framleiðslu á endurnýjanlegri orku.
Til að verkefni geti fengið græna lánveitingu þarf það að mæta þeim kröfum sem gerðar eru í grænu fjármálaumgjörðinni og til þeirra eru sömuleiðis gerðar ríkari kröfur varðandi upplýsingar um ófjárhagslega mælikvarða.
Í tengslum við grænu fjármálaumgjörðina fékk Arion banki verkfræðistofuna Mannvit til liðs við sig til að greina íbúðalánasafn bankans og setja fram nálgun á það hvað geti flokkast sem grænt íbúðarhúsnæði hér á landi. Um er að ræða fyrstu skýrslu þessarar tegundar hérlendis og er hún mikilvægt innlegg í umræðuna um grænar byggingar og þróun þeirra á innlendum fasteignamarkaði. Um 13% af því íbúðarhúsnæði sem Arion banki hefur lánað til falla undir skilgreiningu Arion banka og Mannvits á grænu íbúðarhúsnæði.
Græn fjármálaumgjörð Arion banka hefur fengið álit norska matsfyrirtækisins Cicero sem gaf umgjörðinni einkunnina ,,Medium Green“ og stjórnarháttum í tengslum við hana einkunnina ,,Good“. Deutsche Bank veitti ráðgjöf um mótun umgjarðarinnar. Fjármálaumgjörðin byggir á viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði, ICMA, um græna skuldabréfaútgáfu. Einnig er horft til flokkunarkerfis Evrópusambandsins, EU Taxonomy, og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.