Einstaklings­þjónusta

Arion banki veitir einstaklingum vandaða og fjölbreytta fjármálaþjónustu hvar og hvenær sem er. Flestir viðskiptavinir kjósa að sinna fjármálum sínum í gegnum app, netbanka og aðrar stafrænar lausnir á meðan aðrir kjósa að koma í bankann eða hringja í þjónustuver. Vörður tryggingar og Stefnir eru dótturfélög bankans og náið samstarf innan Arion samstæðunnar gerir viðskiptavinum kleift að fá heildræna fjármálaþjónustu í útibúum bankans og í gegnum stafrænar þjónustuleiðir. Rík áhersla hefur verið á framlag bankans til umhverfismála og í því skyni býður bankinn grænar vörur svo sem græn innlán, græna sjóði, græn bílalán og græn íbúðalán. Bankinn starfrækir 13 útibú auk þjónustuvers.

Þægilegri bankaþjónusta

Bankaþjónusta fyrir einstaklinga hefur gjörbreyst á frekar skömmum tíma. Í dag er þjónustan að mestu leyti sjálfvirk og óþarfi að koma í útibú nema eitthvað stórt standi til. Einnig er hægt að leysa málin með fjarfundi á Teams ef fólk vill spara sér ferðina. Þetta er komið það langt að yfir 99% allra aðgerða sem einstaklingar framkvæma eru framkvæmdar í appi eða netbanka. Þetta hefur leitt til mikils tímasparnaðar fyrir viðskiptavini.

Arion banki fylgir verklagsreglum um ábyrga vörustjórnun þar sem áhersla er á að gæta hagsmuna viðskiptavina við vöruþróun og tryggja eins og kostur er að viðskiptavinir fái vörur og þjónustu við hæfi. Þróun á þessum verklagsreglum hélt áfram á árinu og leggur bankinn sérstakan metnað í að standa vel að allri vörustjórnun. 

Bankinn hefur stækkað búðarborð sitt til að bjóða heildarlausnir í fjármálum einstaklinga hvort sem þær snúa að bankaþjónustu, tryggingum eða fjárfestingum, s.s. sjóðum eða lífeyrisvörum. Samhliða hefur fræðsla starfsfólks bankans verið aukin til að gera þeim kleift að upplýsa viðskiptavini um alla þætti þjónustunnar og bæta gæði hennar. Hlutverk útibúa er í auknum mæli að aðstoða viðskiptavini við stórar ákvarðanir og að veita yfirsýn yfir fjármál hvers og eins. 

Stærstur hluti eða yfir 70% af sölu bankans fara fram í gegnum stafrænar lausnir. Samanburðarrannsóknir við erlenda banka hafa sýnt að Arion banki skipar sér í röð með fremstu bönkum í heiminum hvað þetta varðar. Þá var Arion appið valið besta bankaappið á Íslandi sjötta árið í röð að mati viðskiptavina allra bankanna samkvæmt könnun MMR.

Arion Premía er þjónusta þar sem sérstaklega er haldið utan um þjónustu við umsvifamikla viðskiptavini bankans. Markmið þjónustunnar er að tryggja að þessi hópur viðskiptavina, sem er með umtalsverð innlán hjá bankanum og/eða verðbréf í vörslu hans, njóti góðra kjara og bestu þjónustu hverju sinni. Á árinu fjölgaði Premíu viðskiptavinum bankans og hefur mælst mikil ánægja með þessa nýju þjónustu.

Verðtryggð íbúðalán
aukast á ný

Mikil eftirspurn var eftir íbúðalánum á árinu og heildarlánveiting ársins var 150 milljarðar samanborið við 211 milljarða árið á undan. Útlánaþróunin var tiltölulega stöðug yfir árið en mest munaði um bylgju umsókna um endurfjármögnun í kjölfar þess að fasteignamat ársins 2023 var birt. Umsóknir um verðtryggð íbúðalán hafa aukist og eru um 50% umsókna en á árinu 2021 var hlutfall umsókna um verðtryggð íbúðalán undir 20%.

Íbúðalánateymi Arion banka er stöðugt vakandi fyrir nýjungum þegar kemur að íbúðalánum og kynnti nokkrar á árinu. Helst ber að nefna að Arion banki býður nú sumarhúsalán á kjörum sem eru nær íbúðalánavöxtum. Með þessari breytingu verður hægt að nota sjálfvirka íbúðalánaferlið við lánveitinguna sem minnkar til muna handavinnu og kostnað. Þetta gerir bankanum kleift að bjóða betri kjör. Á árinu var einnig boðið upp á leigulán fyrir viðskiptavini í Premíu þjónustu bankans sem vilja kaupa fasteign til útleigu. Slík lán bera íbúðalánavexti að viðbættu vaxtaálagi.

Ný íbúðalán
Milljarðar króna

Netverslun náði nýjum hæðum á árinu

Arion banki býður fjölbreytt úrval debet- og kreditkorta með ýmsum fríðindum og ferðatryggingum. Á árinu bættust tvö ný kort við vöruframboð bankans sem eru sérhönnuð og eingöngu í boði fyrir viðskiptavini í Premíu þjónustu. Bankinn innleiddi Google Pay sem leysir af hólmi eldri lausn og gerir korthöfum með Android síma kleift að greiða með símanum á einfaldan og öruggan hátt. Á árinu var einnig gerð sú breyting að debetkorthafar sem eru 23 ára og yngri greiða nú hvorki árgjald né færslugjald fyrir debetkort.

Í samstarfi við Valitor var settur upp vefur fyrir endurkröfur sem auðveldar viðskiptavinum að sækja um endurgreiðslu ef þeir lenda í svikafærslum. Vefurinn mun minnka til muna handavinnu vegna slíkra mála og leiða til hraðari meðferðar og bættrar þjónustu. Í samræmi við reglur um sterka sannvottun kortagreiðslna, sem tóku gildi í vor, er auðkenning á kortagreiðslum nú framkvæmd af korthöfum í Arion appinu eða Netbankanum í stað innsláttar á SMS kóðum eins og verið hefur til fjölda ára.

Netverslun náði nýjum hæðum á árinu og var nóvember stærsti netsölumánuður frá upphafi en þá var netverslun rúm 30% af öllum kortaviðskiptum mánaðarins. Þó að jólaverslunin sé í auknum mæli að færast fram í nóvember var desember veltuhæsti mánuður ársins eins og svo oft áður. Viðskiptavinir Arion banka völdu gjafakort Arion banka í jólapakkann nú sem aldrei fyrr en vinsældir gjafakortsins hafa aldrei verið meiri.

Áfram aukning í bílalánum

Mikil aukning var í bílalánum til einstaklinga þriðja árið í röð og hefur lánabók bílalána vaxið um 65% frá ársbyrjun 2020. Markaðshlutdeild Arion banka í bílalánum hefur aukist verulega undanfarin ár og má rekja þennan góða árangur til rafrænna lausna í umsóknarferli og framúrskarandi þjónustu. Stórum áfanga var náð á árinu þegar rafrænar þinglýsingar bílalána voru settar í loftið og er umsóknarferli bílalána orðið því sem næst 100% rafrænt, allt frá umsókn til útgreiðslu lána.

Arion banki fjárfesti á árinu í fyrirtækinu Frágangi sem mun nýtast bankanum í áframhaldandi þróun á umsóknarkerfi bílalána.

Bílalán og kaupleigusamningar
Milljarðar króna

83% skammtímalána samþykkt sjálfvirkt

Mikil áhersla er lögð á aukin þægindi fyrir viðskiptavini við veitingu skammtímalána svo sem yfirdrátta, núlána og kreditkortaheimilda. Er svo komið að 83% slíkra lána eru veitt sjálfvirkt og hefur það hlutfall aldrei verið hærra. Þetta leysir viðskiptavini undan því að bíða eftir svari þar sem lánið er samþykkt samstundis. Mikil ánægja hefur verið með þessa þróun og þessi fyrirgreiðsla jókst umfram áætlanir á árinu. Vanskil skammtímalána hafa ekki hækkað undanfarin misseri þrátt fyrir um margt krefjandi aðstæður í samfélaginu.

Áhersla var lögð á að auka aðgengi Premía viðskiptavina að skammtímalánum og fá þeir nú hæstu sjálfsafgreiðsluheimild sem í boði er.

Breyting var gerð á samningsformi núlána í takt við stafræna vegferð bankans, en nú eru öll núlán veitt með rafrænni undirritun og var það gert til að einfalda ferlið fyrir viðskiptavini þannig að þeir þurfi ekki að koma í útibú til að undirrita skjöl. Hefur það sérstaklega komið sér vel fyrir viðskiptavini á landsbyggðinni sem hafa um langan veg að fara.

Samstarf við Leiguskjól í anda opinnar bankastarfsemi hefur gengið mjög vel en Leiguskjól hefur nú gefið út yfir tvö þúsund húsaleiguábyrgðir i nafni bankans. Samstarfið við Leiguskjól er gott dæmi um velheppnað samstarf við sprotafyrirtæki sem skapar ávinning fyrir viðskiptavini, bankann og sprotafyrirtækið.

Tryggingar í þjónustuleiðum Arion banka

Viðskiptavinir geta nálgast tryggingar Varðar í gegnum þjónustuleiðir Arion banka og Varðar og hefur það samstarf skilað afar góðri sölu á tryggingum. Útibú Arion banka spila þar lykilhlutverk þar sem starfsfólk Arion banka býður viðskiptavinum að fá tilboð í tryggingarnar sínar. Viðskiptavinir Arion banka geta nú einnig fengið tilboð í tryggingarnar í Arion appinu. Þetta er mikilvægur hluti af þeirri vegferð bankans að bjóða upp á heildarþjónustu í fjármálum sem hefur skilað sér í bættri upplifun meðal viðskiptavina Arion og Varðar sem geta nú haft yfirsýn yfir fjármálin sín og tryggingar í einu og sama appinu.

Innlán halda áfram að aukast

Mikil hækkun varð á stýrivöxtum á árinu sem hefur leitt til vaxtahækkana hjá viðskiptabönkunum. Þá hafa fjármögnunarmarkaðir verið dýrir. Þessi þróun hefur aukið samkeppni um innlán til muna. Þrátt fyrir það fjölgaði talsvert þeim einstaklingum sem fengu laun sín greidd inn á bankareikning hjá Arion banka og vöxtur einstaklingsinnlána var tæp 4%. 

Ef litið er til mismunandi innlánareikninga þá var áhersla á Grænan vöxt til þess að innlán á þeim reikningi jukust mikið, það sama má segja um Vöxt óbundinn og Vöxt 30 daga.