Ávarp bankastjóra

Þrátt fyrir krefjandi efnahagsumhverfi náðist góður árangur í starfsemi bankans á árinu 2023. Efnahagslífið einkenndist af hárri verðbólgu og háu vaxtastigi þar sem aðgerðir Seðlabanka Íslands miðuðu að því að hægja á hagvexti og ná verðbólgu niður. Fjölmörg heimili huga nú að endurfjármögnun íbúðalána þar sem þau hafa verið í skjóli fastra vaxta síðustu ár og mun sú þróun áfram setja mark sitt á starfsemi bankans. Á árinu unnum við að margvíslegum verkefnum sem miða að því að efla þjónustu okkar og gera okkur betri í að mæta þörfum viðskiptavina okkar. Meðal annars settum við okkur nýja stefnu, ný gildi og þjónustuviðmið sem munu móta þjónustu okkar næstu árin. Á árinu 2023 náðust öll helstu fjárhagsmarkmið bankans og nam hagnaður ársins 25,7 milljörðum króna og arðsemi eiginfjár 13,6%, sem er yfir 13% arðsemismarkmiði bankans.

Bankastjóri Arion banka

Benedikt Gíslason

Stöðugur og góður rekstur

Árið 2023 er þriðja árið í röð sem öll helstu fjárhagsmarkmið nást. Þannig er óhætt að segja að góður stöðugleiki einkenni núorðið starfsemi Arion samstæðunnar. Fjölbreytni þeirrar þjónustu sem Arion banki og dótturfélög veita viðskiptavinum sínum leikur hér mikilvægt hlutverk. Að auki njótum við góðs af áherslu undanfarinna ára á skilvirkni starfseminnar. Þannig höfum við eflt stafræna þjónustu okkar, fækkað þeim fermetrum sem starfsemi okkar krefst og nýtt okkur sjálfvirknivæðingu í æ ríkari mæli. Jafnframt hefur áhersla á fjármálaþjónustu sem kallar ekki á eiginfjárbindingu reynst okkur vel. Þannig höfum við markvisst aukið veltuhraða eiginfjár bankans með því að selja útlán til aðila sem vilja auka fjölbreytni eignasafna sinna.

Ný stefna

Á árinu samþykkti stjórn Arion banka nýja stefnu og ný gildi. Stefnan færir í orð framtíðarsýn okkar og hvaða augum við lítum hlutverk okkar og tilgang.

Hlutverk okkar er að liðsinna þeim sem vilja ná árangri á Íslandi og víðar á norðurslóðum með snjöllum og traustum fjármálalausnum sem efla fjárhagslegt heilbrigði og stuðla að sjálfbærri verðmætasköpun. Þannig viljum við að þjónusta okkar efli viðskiptavini okkar og að saman sköpum við verðmæti sem hafa jákvæð áhrif á samfélag okkar og umhverfi.

Virkja kraft norðursins

Árið 2023 settum við tilgang okkar í fyrsta skipti í orð. Segja má að tilgangur bankans sé í raun svarið við spurningunni: Hvers vegna er Arion banki til? Við ákváðum að svara þeirri spurningu með eftirfarandi ákalli til okkar sjálfra: Til að virkja kraft norðursins! Þannig felur tilgangurinn í sér óbilandi trú okkar á það umhverfi sem við störfum í; trú á fólkið sem byggir þetta land og í raun allt norðurslóðasvæðið. Trú á að fólk búi yfir krafti, hugmyndum og draumum sem eru þess virði að leggja lið og gera að veruleika – samfélaginu öllu til góða.

Af hverju norðurslóðir?

Sumir kunna að spyrja sig hvaða erindi íslenskur banki telji sig eiga á öllu því víðfeðma svæði sem norðurslóðir eru. Skilgreina má norðurslóðir sem nyrstu hluta Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands, Grænland, Ísland og Færeyjar, og svo norðurhéruð Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Staðreyndin er auðvitað sú að Ísland á margt sameiginlegt með öðrum löndum svæðisins sem einkennist af víðerni, strjálli og dreifðri byggð, köldu loftslagi og árstíðaskiptum með myrkum vetrum og björtum sumrum.

Við erum sannfærð um að Ísland og íslensk fyrirtæki hafi margt fram að færa á þessu svæði sem mun skipta æ meira máli næstu árin, ekki síst í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Víða er mikil uppbygging fram undan, til að mynda á Grænlandi, þar sem reynsla okkar Íslendinga getur komið að góðum notum. Á aðeins hálfri öld hefur Ísland farið frá því að vera land sem þiggur þróunaraðstoð yfir í að vera í fremstu röð á heimsvísu þegar kemur að velsæld. Um 10% íbúa norðurslóða eru frumbyggjar og skiptir miklu að öll uppbygging fari fram í sátt við fólk og umhverfi. Hefur bankinn því sett sér sérstaka sjálfbærnistefnu í tengslum við norðurslóðir.

Lánasafn bankans til fyrirtækja á norðurslóðum, utan Íslands, óx um 10% á árinu 2023 og í safninu vega lán til sjávarútvegs um 61%.

Ætlum að verða betri í að þjóna

Framtíðarsýn okkar til næstu þriggja til fimm ára felur í sér að við ætlum að verða best í að mæta þörfum markhópa okkar – leiðandi fyrirtæki sem er drifkraftur árangurs viðskiptavina og samfélagsins alls. Í dag veitum við mjög góða fjármálaþjónustu – en við vitum að við getum gert enn betur.

Til að vísa okkur veginn í þeirri vegferð sem fram undan er settum við okkur sérstök þjónustuviðmið. Öll þróun og þjónusta þarf að uppfylla þessi viðmið sem í sinni einföldustu mynd fela í sér að markmið okkar sé ævinlega að einfalda líf viðskiptavina okkar, gleðja þá og sýna þeim í verki að við stöndum með þeim.

Öflug á hlutabréfamarkaði

Arion banki hefur nú í rúman áratug gegnt lykilhlutverki þegar kemur að uppbyggingu hlutabréfamarkaðar á Íslandi. Árið 2023 var þar engin undantekning og kom bankinn að skráningu Arnarlax, Hampiðjunnar, Kaldalóns og Ísfélagsins. Gaman er að segja frá því að Arion banki hefur komið að níu af síðustu tíu skráningum í kauphöll.

Einnig var Arion banki með mestu heildarveltu á hlutabréfamarkaði NASDAQ Iceland og er þetta áttunda árið í röð sem bankinn er með mestu hlutabréfaveltu allra markaðsaðila, um 20% markaðshlutdeild.

Besta bankaappið sjöunda árið í röð – og verður bara betra

Arion appið hefur gefið okkur forystu sem við ætlum að halda. Um er að ræða eina mikilvægustu þjónustuleið okkar og kynntum við á árinu til leiks ýmsar nýjungar í appinu. Má þar nefna birtingu rauntímagagna vegna verðbréfaviðskipta, kauptilboð í hlutabréf á ákveðnu gengi og möguleika á að hætta við tilboð sem eru í vinnslu. Við kynntum sömuleiðis nýtt viðmót fyrir útgreiðslur á séreign og skyldulífeyri og yfirlit yfir hreyfingar lífeyrissparnaðar.

Jafnframt bjóðum við nú sérstakt netkort fyrir verslun á netinu. Kortið er án kostnaðar og fylgir því aukið öryggi í netviðskiptum, en öryggismál eru eðli máls samkvæmt í algjörum forgangi þegar kemur að þjónustu okkar.

Komum til móts við viðskiptavini

Að liðsinna viðskiptavinum okkar þegar þeir fjárfesta í íbúðarhúsnæði er ein mikilvægasta þjónusta sem við veitum. Hátt vaxtastig og há verðbólga undanfarið hafa skapað krefjandi aðstæður fyrir heimilin í landinu. Þegar vextir voru lágir festu fjölmörg heimili vexti óverðtryggðra íbúðalána í þrjú til fimm ár. Segja má að sá hópur hafi verið í skjóli frá því háa vaxtastigi sem við höfum séð síðustu mánuði og ár.

Nú þegar fastvaxtatímabili margra er að ljúka getur greiðslubyrgði heimilisins hækkað til muna. Til að koma til móts við þennan hóp höfum við annars vegar boðið upp á svokallað greiðslufrí í einn mánuð á ári og hins vegar svokallað greiðsluþak sem felst í því að við lækkum greidda vexti um allt að 4 prósentustig. Sú vaxtagreiðsla sem frestast færist þá á höfuðstól lánsins. Þetta er lausn sem hentar þeim sem vilja lækka greiðslubyrði en kjósa að vera áfram með óverðtryggt lán. Við höfum lagt okkur fram um að setja okkur í samband við þennan hóp viðskiptavina til að fara yfir þá kosti sem eru í boði. Mikilvægt er að hver og einn kynni sér kostina og meti hvað hentar sínum aðstæðum best.

Heilt samfélag í óvissu

Tíð eldgos eru því miður orðin hluti af tilveru okkar Íslendinga. Reykjanesið er vaknað til lífsins og eru íbúar heils samfélags á hrakhólum. Íbúar Grindavíkur vita ekki hvenær – eða hvort – hægt verður að flytjast aftur til bæjarins. Vegna óvissunnar ákváðum við ásamt öðrum fjármálafyrirtækjum í nóvembermánuði að frysta íbúðalán vegna húsnæðis í Grindavík í þrjá mánuði og fella niður vexti og verðbætur lánanna á tímabilinu. Snemma árs 2024 ákváðum við svo að framlengja úrræðið í þrjá mánuði til viðbótar, eða til aprílloka, enda hafði óvissan þá síst minnkað. Með þessu viljum við leggja okkar af mörkum til að létta á þeim áhyggjum sem hvíla á íbúum Grindavíkur.

Konur fjárfestum – langtíma átaksverkefni

Við höfum á undanförnum árum lagt ríka áherslu á jafnréttismál innan bankans. Við vorum fyrsti bankinn til að fá jafnlaunavottun VR árið 2015 og síðar jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins. Við höfum sett okkur það markmið að óútskýrður launamunur sé undir 1%; á árinu 2023 var hann 0,2% og konur hærri. Jafnframt höfum við sett okkur það markmið að miðgildi heildarlauna karla sem hlutfall af heildarlaunum kvenna lækki niður fyrir 1,3. Hlutfallið hefur farið lækkandi undanfarin ár og var 1,28 á árinu 2023. Hér getum við – og ætlum – að gera betur.

Á árinu 2023 horfðum við til stöðu kynjanna þegar kemur að fjármálum. Þátttaka á fjármálamarkaði er mikilvæg leið til að hafa áhrif í samfélaginu, samfara því að byggja upp eigin framtíð. Með því að fjárfesta tekur fólk þátt í þróun og uppbyggingu samfélagsins og sú þróun verður jafnari eftir því sem fleiri taka þátt. Við lögðumst í mikla greiningarvinnu og eins og við var að búast er því miður enn langt í að jafnræði ríki þegar kemur að sparnaði, lífeyriseign og almennri þátttöku kynjanna á fjármálamarkaði. Því fórum við af stað með sérstakt átaksverkefni með það að markmiði að efla konur þegar kemur að fjárfestingum. Átakið hefur farið vel af stað og hefur verið húsfyllir á öllum þeim fræðslufundum sem bankinn hefur staðið fyrir.

Allar myndir í þessari árs- og sjálfbærniskýrslu eru úr herferð átaksins Konur fjárfestum.

Fjárhagslegt heilbrigði og sjálfbær verðmætasköpun

Síðustu ár höfum við fengið til liðs við okkur tvö matsfyrirtæki til að taka út frammistöðu okkar á sviði sjálfbærni enda er okkur umhugað um að vera þar í fremstu röð. Sem fyrr fékk bankinn mjög góða einkunn frá alþjóðlega matsfyrirtækinu Sustainalytics sem setur okkur í topp 3% á heimsvísu, bæði á meðal svæðisbundinna banka og meðal þeirra tæplega 16.000 fyrirtækja sem félagið hefur metið. Einnig gaf íslenska matsfyrirtækið Reitun okkur, þriðja árið í röð, hæsta stigafjölda sem félagið hefur gefið, 90 stig af 100 mögulegum, og einkunnina A3. Er þetta sérstaklega ánægjulegt þar sem bæði þessi fyrirtæki gera sífellt strangari kröfur.

Sterk staða bankans – gott lánshæfismat frá Moody‘s

Forsenda þess að við getum staðið okkur gagnvart viðskiptavinum, hluthöfum og samfélaginu er að bankinn sé arðsamur og fjárhagslega sterkur. Og það er Arion banki. Eiginfjárhlutfall bankans í árslok var 24,1%, vel yfir kröfum eftirlitsaðila, og vogunarhlutfall 12,4% sem er umtalsvert hærra en hjá helstu bönkum í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Á árinu gaf Moody‘s bankanum, sem útgefanda sértryggðra skuldabréfa í evrum, einkunnina Aa2. Það lánshæfismat endurspeglar gæði íslenskra íbúðalána og sterka umgjörð og stöðu sértryggðra bréfa á Íslandi. Arion banki var fyrsti íslenski bankinn til að gefa út sértryggð skuldabréf í evrum sem nú eru mikilvægur þáttur í fjármögnun íslenska bankakerfisins. Um er að ræða hæstu lánshæfiseinkunn íslensks útgefanda og má segja að það séu ákveðin tímamót að Arion banki fái einkunn sem er þremur þrepum hærri en lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins.

Þakkir til stjórnarformanns Arion banka

Brynjólfur Bjarnason, sem var fyrst kjörinn í stjórn Arion banka á hluthafafundi í nóvember 2014 og kjörinn formaður stjórnar í mars 2019, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Það eru því viss tímamót hjá okkur og vil ég fyrir hönd starfsfólks Arion þakka Brynjólfi fyrir afar ánægjulegt og árangursríkt samstarf.

Skýr stefna og framtíðarsýn

Á árinu 2023 styrktum við enn frekar stöðu bankans og undirbyggðum næstu skref. Skýr tilgangur, hlutverk og framtíðarsýn varða veginn sem fram undan er. Óhætt er að segja að spennandi tímar séu í vændum.

Ég þakka samstarfsfólki, viðskiptavinum, hluthöfum og stjórn Arion banka árangursríkt samstarf á árinu 2023.