GRI Standards tilvísunartafla

Árs- og sjálfbærniskýrsla Arion banka 2023 hefur verið unnin í samræmi við Global Reporting Initiative, GRI Standards og UFS-leiðbeiningar Nasdaq. Þá er einnig horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og tíu grundvallarviðmiða Global Compact, sáttmála SÞ um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Arion banki er aðili að meginreglum um ábyrga bankastarfsemi (UN PRB) og hefur unnið að innleiðingu markmiðanna frá undirritun í september 2019. Upplýsingar um framvindu þeirrar vinnu er að finna hér.

GRI-tilvísunartafla 2023

Upplýsingar sem settar eru fram í GRI Standards tilvísunartöflu gilda fyrir árið 2023 og tengjast meginstarfsemi Arion banka. Lögð er áhersla á að uppfylla þá þætti sem snúa að lýsingu á starfseminni, samfélagslegum áhrifum hennar, mannauði, umhverfisáhrifum, stjórnarháttum og efnahag.

KPMG ehf. var ráðið til að aðstoða við gerð umhverfisuppgjörs Arion banka fyrir árið 2023. Bankinn er ábyrgur fyrir upplýsingagjöfinni í heild og því að þau gögn, sem greiningin byggist á, séu rétt. KPMG fór yfir gögnin, reiknaði út umhverfisáhrif í samræmi við Greenhouse Gas Protocol og aðstoðaði við uppsetningu samkvæmt UFS leiðbeiningum Nasdaq og GRI Standards og skoðaði tengingar við væntanlegan ESRS staðal. 

Deloitte hefur veitt álit með takmarkaðri vissu á upplýsingagjöf Arion banka í tengslum við sjálfbærni árið 2023 sem sett er fram samkvæmt GRI Standards og UFS-leiðbeiningum Nasdaq.

Gögn sem snúa að mannauði koma úr mannauðskerfi bankans. Fjárhagsupplýsingar hafa verið endurskoðaðar og staðfestar af endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte.

Við hlustum á hagsmunaaðila okkar og tökum tillit til sjónarmiða þeirra við val okkar á efnistökum í þessari skýrslu.

GRI tilvísunartafla 

GRI 3-1, GRI 3-2 og GRI 3-3

Ferli við val á mikilvægisþáttum, hverjir þeir eru og stýring þeirra

Innleiðingu á GRI 3 2021 er ekki enn að fullu lokið en skýrslugjöf Arion banka tekur mið af GRI 1 2021, GRI 2 2021 og GRI 3 2021. Áður tók skýrslugjöfin mið af GRI Core en nú fylgir hún GRI Standards.

Við val á mikilvægisþáttum í Árs- og sjálfbærniskýrslu 2023 var byggt á vinnu og skýrslugjöf fyrri ára, meðal annars mikilvægisgreiningu sem framkvæmd var árið 2021 og greiningum innlendra og erlendra aðila á bankanum í tengslum við frammistöðu hans í umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum. Líkt og fyrri ár nýtum við okkur flest þau atriði sem koma fram í UFS-leiðbeiningum Nasdaq í skýrslugjöfinni.

Í ár tekur bankinn fyrstu skref sín í innleiðingu á ESRS-staðlinum, European Sustainability Reporting Standard. Staðallinn er hluti af kröfum væntanlegrar innleiðingar á tilskipun um sjálfbærniupplýsingagjöf stórra og/eða skráðra fyrirtækja (CSRD) í íslenskan rétt. Í fyrsta sinn birtum við því tvöfalda mikilvægisgreiningu í tengslum við staðalinn en niðurstöður greiningarinnar voru fengnar með samtölum við hagaðila, könnun meðal starfsfólks og vinnustofum í samstarfi við KPMG. Vísað er í ESRS-staðalinn að hluta í umhverfisuppgjöri bankans en innleiðingu á staðlinum er hvergi nærri lokið og verða niðurstöðurnar nýttar í skýrslugjöf bankans í auknum mæli þegar fram líða stundir.

Bein og óbein áhrif af starfseminni

Þrátt fyrir að bein umhverfisáhrif af starfsemi banka séu ekki mikil í samanburði við ýmsar aðrar atvinnugreinar teljum við engu að síður mikilvægt að birta upplýsingar um þann þátt. Arion banki vill vera til fyrirmyndar þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum og hefur sett sér það markmið að draga úr losun í eigin starfsemi um 80% fyrir árið 2030. Frá árinu 2015 hefur bankinn verið aðili að loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar og þar með skuldbundið sig til að birta árangurinn. Við val á viðfangsefnum í tengslum við GRI-staðalinn veljum við því þá þætti sem snúa að losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi bankans og við teljum viðeigandi að birta.

Við gerum okkur grein fyrir því að mestu umhverfis- og loftslagsáhrif bankans eru óbein og hljótast einkum af þjónustu okkar við viðskiptavini, einkum lánveitingum og fjárfestingum. Við erum staðráðin í að styðja sífellt betur við viðskiptavini okkar og samfélagið þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, meðal annars út frá markmiðum Parísarsamkomulagsins og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Á árinu 2023 birtum við aðra Áhrifa- og úthlutunarskýrslu okkar sem nær yfir úthlutun fjármuna sem aflað hefur verið með grænum skuldabréfaútgáfum og grænum innlánum. Deloitte hefur endurskoðað nýtingu fjármuna, sem aflað hefur verið með grænum skuldabréfaútgáfum og grænum innlánum, með takmarkaðri vissu.

Arion banki er aðili að Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF). Um er að ræða alþjóðlegan samstarfsvettvang fjármálafyrirtækja sem hefur það meginmarkmið að samræma mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda sem fjármálafyrirtæki fjármagna í gegnum lánveitingar og fjárfestingar. Bankinn birti fyrstu skýrslu sína um fjármagnaðan útblástur í árslok 2022 og byggist hún á aðferðafræði PCAF. Mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda, sem fjármögnuð er í gegnum lánveitingar og fjárfestingar, er forsenda þess að bankinn geti sett sér markmið varðandi samdrátt í losuninni. Fyrstu markmið Arion banka af þeim toga voru sett árið 2023 og birt í nýjustu skýrslu bankans um fjármagnaða losun.

Ábyrg innkaup og samskipti við birgja í tengslum við frammistöðu þeirra í umhverfis- og loftslagsmálum skipta okkur máli og á árinu 2020 innleiddum við nýtt UFS-birgjamat. Siðareglur birgja voru innleiddar á árinu 2021.

Mannauður bankans, jafnréttismál, mannréttindi, fræðsla, heilsa og öryggi starfsfólks skipta einnig miklu máli í starfsemi bankans og endurspeglast það meðal annars í stefnum bankans, svo sem mannauðsstefnu, fræðslustefnu, jafnréttis- og mannréttindastefnu og heilsu- og öryggisstefnu.

Framkvæmdastjórn bankans hefur samþykkt sex heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem bankinn ætlar að leggja megináherslu á. Markmiðin sem unnið er sérstaklega að eru markmið 5 um jafnrétti kynjanna, markmið 7 um sjálfbæra orku, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt, markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu, markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu og markmið 13 sem snýr að aðgerðum í loftslagsmálum. Þessi sex heimsmarkmið eru einnig höfð að leiðarljósi við val á efnisþáttum og mörkum þeirra.

Allir efnisþættir og mörk þeirra snúa að Arion banka. Dótturfélög bankans eru ekki tekin með í þessari skýrslu nema það sé sérstaklega tekið fram.

Eftirfarandi mikilvægisþættir voru metnir viðeigandi í greiningu sem gerð var árið 2022 og eiga enn við:

 • GRI 201 Fjárhagsleg frammistaða 2016
 • GRI 203 Óbein efnahagsleg áhrif 2016
 • GRI 204 Framkvæmd innkaupa 2016
 • GRI 205 Aðgerðir gegn spillingu 2016
 • GRI 206 Samkeppnishamlandi hegðun 2016
 • GRI 302 Orka 2016
 • GRI 303 Vatn og frárennsli 2018
 • GRI 304 Líffræðilegur fjölbreytileiki 2016
 • GRI 305 Losun gróðurhúsalofttegunda 2016
 • GRI 306 Úrgangur 2020
 • GRI 308 Mat á frammistöðu birgja varðandi umhverfismál 2016
 • GRI 401 Atvinnumál 2016
 • GRI 402 Kjaramál 2016
 • GRI 403 Heilsa og öryggi starfsfólks 2018
 • GRI 404 Þjálfun og fræðsla 2016
 • GRI 405 Fjölbreytileiki og jöfn tækifæri 2016
 • GRI 406 Mismunun 2016
 • GRI 413 Nærsamfélagið 2016
 • GRI 414 Mat á frammistöðu birgja varðandi félagsþætti 2016
 • GRI 415 Opinber stefna 2016
 • GRI 417 Markaðssetning og merkingar á vörum 2016
 • GRI 418 Persónuvernd 2016

Stýring mikilvægisþátta

Stýring einstakra viðfangsefna í Árs- og sjálfbærniskýrslu Arion banka 2023 samkvæmt GRI Standards fer í gegnum sama ferli og önnur verkefni innan Arion banka, í gegnum stjórn eða yfirstjórn og viðeigandi svið og eftirlitseiningar.

Frá árinu 2021 hefur verið starfandi sjálfbærninefnd innan bankans og stýring á sjálfbærniáhættu í tengslum við umhverfis- og félagsþætti og stjórnarhætti skilgreind sem hluti af áhættustýringarkerfi bankans. Sjá nánari upplýsingar hér

Fjöldi stefna og reglna sem snúa að viðfangsefni skýrslunnar hefur verið samþykktur af stjórn bankans og framkvæmdastjórn, meðal annars:

Einnig er Arion banki aðili að ýmsum innlendum og erlendum sáttmálum og skuldbindingum í tengslum við ábyrga bankastarfsemi og vinnur að því að uppfylla þær skuldbindingar. Sjá umfjöllun hér.

Vísað er í frekari umfjöllun um aðgerðir okkar varðandi einstök viðfangsefni í GRI-tilvísunartöflu.