Áhættustýring og innra eftirlit

Margs konar áhætta er samofin daglegri starfsemi Arion banka sem fjármálafyrirtækis. Mikilvægur þáttur í starfsemi bankans og ábyrgð hans gagnvart samfélaginu er að stýra áhættu og taka upplýstar ákvarðanir. Áhættustýring er því grundvallarþáttur í starfi bankans. Stefna bankans er að hafa virka áhættustýringu sem felur í sér að greina og mæla verulega áhættu og grípa til aðgerða ef hún fer út fyrir skilgreind mörk.

Stjórn bankans ber endanlega ábyrgð á framkvæmd áhættustýringar og samþykkir áhættustefnur sem tiltaka m.a. umgjörð, stjórnarhætti og viðeigandi eftirlitskerfi. Áhættustýring dótturfélaga er á ábyrgð stjórna viðkomandi dótturfélaga. Fyrir móðurfélagið (bankann) ákvarðar stjórn bankans áhættuvilja. Áhættuviljinn er settur fram á formi yfirlýsingar ásamt mælanlegum mörkum á áhættuþáttum sem áhættustýringarsvið bankans hefur eftirlit með. Tryggt er að stefnur, viðskiptaáætlun og heimildarrammar séu í samræmi við áhættuvilja.

Bankastjóri ber ábyrgð á að viðhalda skilvirku áhættustýringarkerfi, -ferli og -eftirliti, svo og að viðhalda sterkri áhættumenningu þannig að áhætta sé viðfangsefni alls starfsfólks. Bankinn starfar eftir þriggja línu líkaninu í samræmi við stefnu bankans um innra eftirlit.

Áhættunefnd stjórnar bankans sinnir ráðgjafar- og eftirlitshlutverki gagnvart stjórn hvað varðar áhættustýringarkerfi bankans og áhættuvilja, og gætir samræmis við viðskiptaáætlun, markmið og gildi bankans. Nefndin ber einnig ábyrgð á innra mati á eiginfjár- og lausafjárþörf. Lánanefnd stjórnar tekur ákvarðanir um lánafyrirgreiðslur, sölutryggingar og fjárfestingar sem falla utan heimilda bankastjóra og gefur stjórn ráðgjöf í þeim málum sem fela í sér áhættu umfram skilgreindan áhættuvilja.

Bankastjóri hefur skipað fimm áhættunefndir sem taka til lykiláhættuþátta í rekstri bankans. Eigna- og fjárhagsskuldbindinganefnd stýrir áhættu sem stafar af misvægi eigna og skulda; lausafjáráhættu, markaðsáhættu, vaxtaáhættu og eiginfjárstýringu. Nefndin tekur jafnframt ákvarðanir um sölutryggingar og fjárfestingar. Hlutverk rekstraráhættunefndar er að tryggja skilvirka stýringu rekstraráhættu innan bankans í samræmi við áhættuvilja og lagalegar kröfur. Nefndin ber ábyrgð á að stýra ófjárhagslegri áhættu, þar með talið upplýsingaöryggis- og gagnaáhættu, fjármunabrotum, viðskiptaferlum, útvistun, líkanaáhættu, hlítingaráhættu og háttsemisáhættu.

Lánanefnd Arion banka tekur ákvarðanir um lánafyrirgreiðslur og hefur umsjón með lánareglum bankans, en nauðasamnings- og niðurfellingarnefnd tekur ákvarðanir um nauðasamninga og niðurfellingar. Báðar nefndir starfa innan þeirra heimilda sem lánanefnd stjórnar ákvarðar. Sjálfbærninefnd bankans tryggir að stefna bankans og ákvarðanir séu í samræmi við skuldbindingar hans í tengslum við umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti. Nefndin hefur m.a. umsjón með grænum fjármögnunarramma bankans.

Yfiráhættunefnd ber ábyrgð á innleiðingu og eftirfylgni með stefnu þeirri sem sett er af stjórn. Henni er ætlað að tryggja heildstæða yfirsýn framkvæmdastjórnar yfir umgjörð áhættustýringar og þá margvíslegu áhættuþætti sem bankinn stendur frammi fyrir hverju sinni.

Innri endurskoðun bankans gerir óháðar og hlutlægar úttektir á starfsemi bankans, dótturfélögum hans og lífeyrissjóðum í rekstri hjá bankanum. Innri endurskoðun gerir grein fyrir niðurstöðum sínum með skýrslum til stjórnenda og upplýsir endurskoðunarnefnd stjórnar og stjórn um niðurstöður úttekta sinna.

Regluvarsla er sjálfstæð eining sem er stýrt af regluverði og heyrir beint undir bankastjóra. Regluvarsla stýrir háttsemis- og hlítingaráhættu bankans en þar undir fellur meðal annars persónuvernd og áhætta bankans vegna fjármunabrota.

Áhættustýringarsvið bankans starfar undir stjórn framkvæmdastjóra áhættustýringar. Sviðið er sjálfstæð stjórnunareining og ber beina ábyrgð gagnvart bankastjóra. Áhættustýringarsvið skiptist í þrjár einingar: Áhættugreiningu, sem greinir og mælir safnlæga áhættu og ber ábyrgð á líkönum og skýrslum; áhættueftirlit, sem styður við og hefur eftirlit með áhættustýringu og innra eftirlit í fyrstu línu; og lánagreiningu, sem styður við lánveitingarferlið og tekur þátt í lánaákvörðunum. Öryggisstjóri bankans styður við og hefur eftirlit með virkni stýringa sem verja bankann fyrir áhættum er tengjast upplýsinga- og tækniöryggi, og raunlægu öryggi. Öryggisstjóri og áhættustjóri lífeyrissjóða tilheyra áhættustýringarsviði.

Arion banki er lítill banki í alþjóðlegu samhengi en er flokkaður sem kerfislega mikilvægur á Íslandi. Samstæðan starfar í litlu hagkerfi, með eigin gjaldmiðil, sem er háð tiltölulega fáum atvinnugreinum, sveiflum í fjármagnsflæði og gengissveiflum. Helstu áhættuþættir samstæðunnar eru útlánaáhætta, samþjöppunaráhætta, lausafjáráhætta, vaxtaáhætta, áhætta tengd upplýsingatæknikerfum, viðskiptaáhætta og sjálfbærniáhætta. Þessir áhættuþættir eru að mestu leyti innan móðurfélagsins. Samstæðan stendur frammi fyrir áhættum í gegnum dótturfélög vegna tryggingastarfsemi og sjóðastýringar og vegur rekstraráhætta þar þyngst.

Í áhættuskýrslu bankans árið 2023 er fjallað ítarlega um áhættuþættina og stýringu þeirra.