Efnahags­umhverfið

Hægja tók á íslensku hagkerfi á árinu. Í byrjun árs voru hjól efnahagslífsins loks farin að snúast af fullum krafti á nýjan leik eftir að COVID-19 faraldurinn tók að fjara út. Lausleg fjármálastefna og peningastefna, sem höfðu verið nauðsynlegar á samdráttartímum, voru ekki lengur þörf meðul þar sem sjúklingurinn var farinn að hressast. Þvert á móti var verðbólgan komin á flug sem kallaði á aukið aðhald rétt í þann mund sem efnahagslífið var að ná þrótti sínum til baka. Þá settu jarðhræringar og eldgos mark sitt á efnahagslífið á árinu.

Einkaneysla víkur fyrir útflutningi

Verðbólga var nálægt 10% frá því um mitt sumar 2022 og í byrjun árs var orðið ljóst að meira þyrfti til ef koma ætti böndum á hana. Hugtakið verðbólga bar ekki lengur aðeins á góma í orðræðu hagfræðinga heldur rataði það aftur í almenna umræðu. Peningastefnunefnd Seðlabankans, sem hafði verið vongóð um að sigur væri í augsýn, sá sig knúna til að setja aukinn kraft í stýrivaxtahækkanir. Meginvextir bankans voru hækkaðir um 0,5 prósentustig í febrúar, 1 prósentustig í mars og 1,25 prósentustig í maí. Um sumarið urðu stýrivextir hærri en verðbólga í fyrsta sinn í yfir tvö ár en raunstýrivextir höfðu orðið jákvæðir á aðra mælikvarða fyrr á árinu. Síðasta stýrivaxtahækkun ársins, og mögulega síðasta hækkunin í þessum hækkunarfasa, kom svo í ágúst og enduðu stýrivextir í 9,25%. Jarðhræringar á Reykjanesskaga og yfirvofandi eldgos sem ógnaði Grindavík í nóvember urðu til þess að frekari vaxtahækkunum var frestað, þótt þörfin hafi líklega verið til staðar.

Nokkur árangur náðist á fyrri hluta ársins og var verðbólgan komin niður í 7,6% í júlí en neðar varð henni ekki hnikað á árinu, þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr verðhækkunum innfluttrar verðbólgu. Innlendar vörur héldu áfram að hækka hratt í verði og framlag húsnæðis var áfram verulegt. Hins vegar bötnuðu verðbólguhorfur nokkuð undir lok ársins, rétt eftir að ákveðið var að halda stýrivöxtum óbreyttum, og aukin bjartsýni virtist ríkja þegar árið var kvatt. Þá virtist vera kominn ákveðinn samhugur hjá ólíkum hagaðilum, og hjá þjóðinni í heild sinni, um að takast myndi að kveða verðbólguna niður.

Stýrivextir Seðlabanka Íslands og verðbólga eftir eðli og uppruna
%
Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Arion banki

 

Kominn var tími á viðsnúning í ríkisfjármálum eftir mikinn hallarekstur síðustu ára. Aðhald var aukið en þó ekki meira en svo að halli ársins er áætlaður um 54 ma.kr. samanborið við 97 ma.kr. árið 2022. Þetta var gert með því að auka tekjur um 13,6%. Útgjöld jukust engu að síður um 9,2% og aðhaldið fólst þá kannski helst í því að leyfa útgjöldum ekki að vaxa jafnmikið og tekjunum. Ríkisfjármálin benda til þess að stjórnvöld ætli sér að vaxa úr vandanum fremur en að fara í sársaukafullan niðurskurð. Þótt aðhald sé að aukast kemur það í hlut peningastefnunnar að bera hita og þunga af því að koma jafnvægi á hagkerfið.

Heildarjöfnuður ríkissjóðs
Milljarðar króna á verðlagi 2023 og hlutfall af VLF
Heimildir: Hagstofa Íslands, Fjárlagafrumvarp 2024

 

Aukið aðhald peningastefnunnar og aðhaldssamari ríkisfjármál fóru smám saman að draga úr þenslu í hagkerfinu. Heilt yfir árið var hagvöxtur líklega með ágætum, en það er aðallega vegna þess hve sterkur fyrri hluti ársins var. Hagvöxturinn fór hins vegar ekki aðeins lækkandi heldur breyttist samsetning hans. Einkaneyslan gaf undan fyrir ferðaþjónustunni og því má segja að veitingahúsin hafi farið að þjóna erlendum viðskiptavinum í stað þeirra íslensku. Það má líta á það sem ákveðið heilbrigðismerki, enda eru takmörk á því hversu mikið hagkerfið getur vaxið á einkaneyslunni einni saman. Þá tók einnig að draga úr fjárfestingu á árinu, bæði hjá hinu opinbera og einnig íbúðafjárfestingu.

Hagvöxtur
%
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki.
Hlutdeild einstakra liða til hagvaxtar
Magnbreyting frá fyrra ári
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki.

 

Ferðaþjónustan, sem er ein af þremur útflutningsstoðum þjóðarinnar, hafði nánast horfið um tíð en náði fullum bata á árinu. Um 2,2 milljónir ferðamanna komu til landsins sem gerir 2023 að næstbesta ferðamannaári sögunnar, á eftir árinu 2018, og fjöldi skráðra gistinátta erlendra ríkisborgara hefur aldrei verið meiri. Tekjur af erlendum ferðamönnum jukust fyrir vikið um 37% á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins samanborið við sama tíma árið 2022. Það má sannarlega segja að ferðaþjónustan hafi verið einn helsti drifkraftur útflutnings, og í raun hagvaxtar í heild sinni. Það var sérstaklega heillavænlegt því að á sama tíma dróst útflutningsverðmæti sjávarútvegs saman um 2,1% og útflutningur iðnaðarvara um 11,4%. Þessar greinar eru þó alls ekki í neinum vandræðum, heldur hafði árið á undan einfaldlega verið einstaklega hagstætt hvað varðar afurðaverð.

Fjöldi erlendra ferðamanna
Fjöldi (milljónir)
Heimildir: Hagstofa Íslands, Ferðamálastofa
Hlutur í heildarútflutningi
%
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki.

 

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að endurkoma ferðaþjónustunnar skilaði því einnig að viðskiptajöfnuður varð jákvæður á nýjan leik, en aukinn þjónustujöfnuður vó upp á móti auknum halla á vöruskiptajöfnuði.

Það helsta sem var að frétta af gengi íslensku krónunnar var hversu lítið var að frétta. Gengi krónunnar hefur sjaldan sveiflast jafnlítið á einu ári. Eftir tímabundna veikingu í upphafi árs var gengið fremur stöðugt framan af. Svo virðist sem væntingar um innflæði af sölu Kerecis til Coloplast hafi ýtt af stað styrkingarhrinu í sumar þegar EURISK lækkaði um nærri 5% á tveimur mánuðum. Á fyrstu átta mánuðum ársins styrktist krónan um 6,8% gagnvart evru en sú styrking fór að ganga til baka, sérstaklega í nóvember þegar óvissan á Reykjanesskaga náði hámarki. Sú veiking stöðvaðist eftir að Seðlabankinn greip inn í gjaldeyrismarkað í fyrsta sinn í tíu mánuði og þá höfðu fréttir af mögulegri yfirtöku JBT Corporation á Marel einnig jákvæð áhrif. Krónan endaði árið um 1% sterkari gagnvart evru en í upphafi árs.

Viðskiptajöfnuður
% af VLF
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki. * Fyrstu níu mánuðir ársins
Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum
Heimildir: Seðlabanki Íslands

 

Mikil þörf var á starfsfólki í hinar ýmsu atvinnugreinar. Í upphafi árs töldu 53% fyrirtækja vera skort á starfsfólki sem er álíka hlutfall og árið 2007. Skorturinn var mestur í byggingarstarfsemi en eflaust hefur ferðaþjónustan veitt mörgum vinnu. Talsverðar launahækkanir og hækkandi raunvaxtastig skiluðu sér því ekki í auknu atvinnuleysi. Þvert á móti þá lækkaði atvinnuleysi enn frekar.

Launahækkanir höfðu verið miklar árið 2022 og í desember þess árs hækkaði launavísitalan um ríflega 4% á milli mánaða. Aðilar vinnumarkaðarins tókust hart á í byrjun ársins og ekki náðist að semja til lengri tíma heldur varð niðurstaðan eins árs samningur, en hvorki atvinnurekendur né verkalýðsfélögin virtust sérstaklega ánægð með þann samning. Launahækkanir árið 2023 voru þó líklega nokkuð hófsamari en árið á undan en á fyrstu ellefu mánuðum ársins hækkaði launavísitalan um 6,5%. Undir lok árs voru aðilar vinnumarkaðarins farnir að ræða framhaldið og virtist tónninn mýkri báðum megin borðsins.

Þótt árangurinn við að ná niður verðbólgu hafi verið takmarkaður fóru á seinni hluta ársins að sjást skýr merki um að tekið væri að hægja á hagkerfinu. Í apríl var raunbreyting í kortaveltu Íslendinga á milli ára orðin neikvæð sem gaf fyrirheit um hægari einkaneyslu sem breyttist í samdrátt einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi. Hægari einkaneysla átti sér margar birtingarmyndir. Íslendingar fóru til að mynda að draga nokkuð úr utanlandsferðum þegar líða tók á árið og innflutningur á varanlegum og hálfvaranlegum neysluvörum, á borð við föt og heimilistæki, minnkaði. Ef til vill mætti segja að við Íslendingar værum núna að greiða fyrir COVID-kreppuna sem við varla fundum fyrir þegar hún var hvað dýpst.

Einkaneysla á mann og vísitala launa
Breyting milli ára á föstu verðlagi
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki.
Atvinnuleysi - árstíðaleiðrétt
%
Heimildir: Hagstofa Islands

 

Aðhaldssöm peningastefna og hert skilyrði á lánamarkaði gerðu það að verkum að draga fór úr íbúðaverðshækkunum, en íbúðamarkaðurinn kom þó sífellt á óvart á árinu með hækkunum umfram væntingar. Í kjölfar mikilla stýrivaxtalækkana um vorið virtist verð á fasteignum jafnvel vera komið í lækkunarfasa. Fasteignamarkaðurinn tók hins vegar við sér að nýju um haustið, stuttu eftir að skilyrði til hlutdeildarlána voru víkkuð, en á þriðja ársfjórðungi fjölgaði einmitt fyrstu kaupendum mikið. Þá hafa verðtryggð lán veitt lántökum skjól fyrir háum vöxtum, og gert fólki kleift að kaupa sér húsnæði, en um leið dregið úr virkni peningastefnunnar á fasteignamarkaðinn. Um haustið náðu verðtryggð lán 50% hlutdeild í útistandandi lánum á nýjan leik og ljóst að sú þróun mun halda áfram. Að endingu má nefna að fólksfjölgun hefur verið gríðarleg á undanförnum tveimur árum sem hefur haldið eftirspurn uppi.

Þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr húsnæðisverðshækkunum er húsnæði enn að leiða verðlagshækkanir í vísitölu neysluverðs, vegna þess að tekið er tillit til verðtryggðra vaxta þegar húsnæðisliðurinn er reiknaður. Þannig hækkaði reiknuð húsaleiga um 12,1% þótt íbúðaverð hækkaði aðeins um 4,2%. Til að mynda lækkaði húsnæðisverð á landinu sem hlutfall af launum um 6,3% á árinu, en vegna hærri vaxta jókst hlutfall launa sem þarf til að standa undir greiðslubyrði lána við íbúðakaup.

Íbúðaverð
Ársbreyting á markaðsverði íbúða í vísitölu neysluverðs
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki
Húsnæðisverð sem hlutfall af launum
Vísitala (mars 2000 = 100)
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki.