Ábyrg bankastarfsemi

Við leggjum ríka áherslu á umhverfis- og félagsþætti í starfsemi okkar og góða og vandaða stjórnarhætti. Hlutverk okkar er að liðsinna þeim sem vilja ná árangri á Íslandi og víðar á norðurslóðum með snjöllum og traustum fjármálalausnum sem efla fjárhagslegt heilbrigði og stuðla að sjálfbærri verðmætasköpun.

Yfirskrift stefnu bankans um sjálfbærni er Saman látum við góða hluti gerast og felur meðal annars í sér að við viljum vera öðrum fyrirmynd um ábyrga og arðbæra viðskiptahætti sem taka mið af umhverfi og samfélagi. Hjá Arion banka leggjum við áherslu á að samfélagsábyrgð og sjálfbærni séu hluti af daglegri starfsemi bankans, ákvarðanatöku og ferlum. Siðareglur bankans eru viðmið fyrir starfsfólk til að stuðla að ábyrgri ákvarðanatöku.

Stefna Arion banka um sjálfbærni

Við viljum vera öðrum fyrirmynd um ábyrga og arðbæra viðskiptahætti sem taka mið af umhverfi, efnahagslífi og því samfélagi sem við störfum í. Við setjum okkur í spor viðskiptavina og leitumst stöðugt við að gera betur í dag en í gær.

Við störfum á eftirsóknarverðum vinnustað þar sem þekking skapar verðmæti til framtíðar, viðskiptavinum, fjárfestum og samfélaginu öllu til góða.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá helstu áhersluatriði Arion banka í tengslum við sjálfbærni.

 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Framkvæmdastjórn Arion banka hefur samþykkt sex heimsmarkmið sem bankinn leggur megináherslu á. Markmiðin, sem unnið er sérstaklega að, eru markmið 5 um jafnrétti kynjanna, markmið 7 um sjálfbæra orku, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt, markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu, markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu og markmið 13 sem snýr að aðgerðum í loftslagsmálum.

Starfsemi bankans, þar á meðal aðgerðir í jafnréttismálum, stefna og aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum, stuðningur við frumkvöðla og atvinnulífið í heild, framsækni í stafrænni þjónustu sem og virk þátttaka í uppbyggingu efnahagslífsins, ríma vel við þessi heimsmarkmið.

Skýrslugjöf um sjálfbærni

Starfsemi Arion banka fellur undir ákvæði ársreikningalaga um ófjárhagslega upplýsingagjöf, 66. gr. d. Upplýsingar í árs- og sjálfbærniskýrslu 2023 eru unnar og birtar samkvæmt Global Reporting Initiative, GRI Standards, sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að miðla upplýsingum tengdum samfélagsábyrgð og sjálfbærni á gagnsæjan og samanburðarhæfan hátt.

Við miðlun upplýsinga um sjálfbærni í starfseminni er einnig notast við UFS-viðmið Nasdaq á Norðurlöndunum og tíu grundvallarviðmið Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Þá er horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í fjórða sinn er gerð grein fyrir framvindu innleiðingar á meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible Banking (PRB), en Arion banki gerðist aðili að meginreglunum í september 2019.

Samhliða útgáfu árs- og sjálfbærniskýrslu 2023 er gefin út skýrsla um fjármagnaðan útblástur bankans samkvæmt aðferðafræði PCAF og markmið til ársins 2030. Partnership for Carbon Accounting Financials, eða PCAF, er alþjóðlegur samstarfsvettvangur sem hefur það að markmiði að samræma mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda vegna fjárfestinga og lánveitinga banka.

Í ár tekur bankinn sín fyrstu skref í innleiðingu á ESRS-staðlinum, European Sustainability Reporting Standard. Staðallinn er hluti af kröfum væntanlegrar innleiðingar á tilskipun um sjálfbærniupplýsingagjöf stórra og/eða skráðra fyrirtækja (CSRD) í íslenskan rétt. Í fyrsta sinn birtum við því tvöfalda mikilvægisgreiningu í tengslum við staðalinn en niðurstöður greiningarinnar voru fengnar með því að taka samtöl við hagaðila, gera könnun meðal starfsfólks og halda vinnustofur. Vísað er til ESRS-staðalsins að hluta í umhverfisuppgjöri bankans en innleiðingu á staðlinum er hvergi nærri lokið.

Á árinu 2023 tók gildi sjálfbærnilöggjöf hér á landi sem meðal annars gerir bankanum skylt að birta upplýsingar í tengslum við flokkunarkerfi Evrópusambandsins (EU Taxonomy). Bankinn birtir í fyrsta sinn upplýsingar í samræmi við flokkunarreglugerðina í viðauka við ársreikning samstæðunnar. Þar má finna almenna umfjöllun um flokkunarreglugerðina, innleiðingu hennar hér á landi og þá starfsemi sem flokkunarkerfið nær yfir.

Deloitte hefur veitt álit með takmarkaðri vissu á upplýsingagjöf í tengslum við sjálfbærni í árs- og sjálfbærniskýrslu Arion banka 2023 samkvæmt GRI Standards og leiðbeiningum Nasdaq. Deloitte veitti jafnframt álit með takmarkaðri vissu á framvinduskýrslu bankans til UNEP FI í tengslum við PRB.  

Einkunnir í UFS-áhættumati 2023

Arion banki er með samning við tvö reitunarfyrirtæki sem taka árlega út frammistöðu bankans á sviði umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta. Einkunnir annarra matsfyrirtækja byggja ekki á endurgjöf eða samskiptum við bankann.
 

Arion banki viðheldur framúrskarandi einkunn í UFS-áhættumati Reitunar

Arion banki hlaut framúrskarandi einkunn í UFS-áhættumati Reitunar í desember 2023 og er í flokki A3. Matið byggist á árangri bankans á sviði umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta. Bankinn viðhélt 90 stigum af 100 mögulegum og hélt því í við auknar kröfur sem gerðar eru á milli ára. Níutíu stig er mesti fjöldi stiga sem Reitun hefur gefið og er bankinn í hópi þriggja annarra útgefanda sem eru í flokknum A3. Um fjörutíu íslenskir útgefendur hafa verið metnir.

Í niðurstöðum Reitunar kemur fram að Arion banki sýni mikinn vilja til að gera vel í sjálfbærnitengdum málefnum og hafi náð góðum árangri. Bankinn þekki þau áhrif sem hann geti haft, samfélaginu og umhverfinu til góða, og setji því gott fordæmi fyrir íslenskan markað.

Nánari upplýsingar um niðurstöður Reitunar má finna hér.

  

Morningstar Sustainalytics metur Arion banka í efstu 3% á heimsvísu á sviði sjálfbærni

Arion banki fékk í lok árs 2023 uppfærðar niðurstöður úr UFS-áhættumati alþjóðlega matsfyrirtækisins Morningstar Sustainalytics sem sérhæfir sig í mati á áhættu fyrirtækja þegar kemur að umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum. Niðurstaðan er jákvæð og er bankinn að þeirra mati áfram í hópi þeirra banka sem standa hvað fremst í þessum málum á heimsvísu.

Á skalanum 0-100 hlaut bankinn 10,5 stig þar sem færri stig þýða minni áhættu og er það því mat Morningstar Sustainalytics að lítil hætta sé á verulegu fjárhagslegu tjóni vegna UFS-þátta hjá bankanum. Arion banki er í efstu 5% þegar horft er til ríflega eitt þúsund banka um heim allan sem Morningstar Sustainalytics hefur metið og í efstu 3% þegar horft er til tæplega 500 svæðisbundinna banka. Í samanburði við um það bil sextán þúsund fyrirtæki sem Morningstar Sustainalytics hefur metið er bankinn jafnframt í efstu 3%.

Stjórnarhættir sjálfbærnimála og áhættustýring

Í Arion banka er starfandi sjálfbærninefnd og er stýring á áhættu í tengslum við umhverfis- og félagsþætti og stjórnarhætti skilgreind sem hluti af áhættustýringarkerfi bankans. Bankastjóri er formaður nefndarinnar sem hefur það meginhlutverk að fylgjast með frammistöðu bankans í tengslum við stefnu og skuldbindingar á sviði sjálfbærni og tryggja að tillit sé tekið til UFS-þátta í ákvarðanatöku og áætlunum. Græn fjármögnunarnefnd og jafnréttisnefnd bankans heyra undir nefndina.

Í sjálfbærninefnd sitja, auk bankastjóra, framkvæmdastjórar viðskiptabankasviðs, fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs, markaða, upplifunar viðskiptavina, fjármálasviðs og fulltrúi lögfræðiráðgjafar. Framkvæmdastjóri áhættustýringar, forstöðumaður samskipta og sjálfbærni og sjálfbærnistjóri sitja fundi án atkvæðisréttar. Þá sitja fulltrúar dótturfyrirtækjanna Stefnis og Varðar fundina eftir atvikum.

Bankinn hefur sett sér áhættustefnu um sjálfbærni sem er samþykkt af stjórn og endurskoðuð árlega. Í þeirri stefnu kemur meðal annars fram að bankinn leitist við að tryggja að starfsemi hans og þjónusta hafi ekki í för með sér neikvæð áhrif á fólk eða umhverfi. Einnig kemur þar fram að bankinn styðji aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum sem sett hefur verið fram með það að markmiði að standast skuldbindingar Parísarsamkomulagins og að metnaðarfull áform um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040 náist. Lykilmælikvarðar í tengslum við umhverfis- og félagsþætti og stjórnarhætti eru hluti af mánaðarlegri áhættuskýrslu til stjórnar og áhættuvilji bankans hefur verið skilgreindur í tengslum við þá.

Í lok árs 2023 hófst árlegt áhættumat bankans. Matið var að þessu sinni fellt inn í áhættuumgjörð bankans og framkvæmt samhliða árlegu áhættumatsferli. Eðlislæg áhætta í tengslum við mannauðsmál og félagsþætti er almennt metin lág. Helsta áhættan sneri að hæfni og þróun starfsfólks ásamt jafnrétti og fjölbreytileika. Í tengslum við umhverfismál voru hættan á grænþvotti og umhverfis- og loftslagsáhrif á lánveitingar og fjárfestingar metin sem helstu áhættur. Niðurstöðurnar sýndu jafnframt að helstu áhættur bankans í tengslum við stjórnarhætti snúa að vörnum gegn peningaþvætti, brotum í tengslum við þekkingu á viðskiptavinum (KYC) og málefnum persónuverndar. Stýringar á fyrrgreindum áhættum innan bankans voru heilt yfir metnar fullnægjandi eða sterkar.

Árið 2023 tóku gildi reglur Seðlabankans nr. 772/2023 um upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja sem meðal annars fela í sér innleiðingu framkvæmdarreglugerðar (ESB) 2022/2453 um tæknilega framkvæmdarstaðla varðandi birtingu upplýsinga um áhættu vegna umhverfisþátta, félagsþátta og stjórnarhátta. Evrópska bankaeftirlitið (EBA) gaf út fyrrnefnda tæknistaðla og sniðmát sem bankinn birtir nú í fyrsta sinn í áhættuskýrslu (Pillar 3) 2023. Tæknistaðlarnir byggjast meðal annars á tilmælum Task Force on Climate-related Financial Disclosures (TCFD) sem bankinn hefur nýtt sér síðustu ár til að öðlast betri yfirsýn yfir áhættu tengda loftslagsbreytingum og í umfjöllun um sjálfbærniáhættu.

Bankinn hefur innleitt stefnu um aðgerðir gegn fjármunabrotum, svo sem peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka, mútum og spillingu og markaðssvikum. Stjórn bankans samþykkti á árinu sérstaka stefnu um varnir gegn mútum og spillingu með það að markmiði að setja almenna mælikvarða um málaflokkinn. Stefnan felur í sér að innan bankans ríki ekkert umburðarlyndi fyrir spillingu og mútum og að í starfseminni séu ferlar sem tryggi að starfsfólk tilkynni öll tilvik sem kunna að tengjast mútum og spillingu. Bankinn gerir sér grein fyrir að áhætta tengd mútum og spillingu er almennt til staðar á öllum sviðum fjármálastarfseminnar og hafa helstu áhættur verið greindar innan bankans sem endurmetur ráðstafanir sínar reglulega til að bregðast við helstu áhættum hverju sinni. Þessi áhersla bankans styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 16 þar sem markmiðið er meðal annars að draga úr ólöglegu flæði fjármagns, mútum og spillingu. Nánari upplýsingar um varnir gegn mútum og spillingu má finna í áhættuskýrslu bankans fyrir árið 2023.

Í lok árs 2022 samþykkti stjórn bankans uppfærslu á kaupaukakerfi fyrir fastráðið starfsfólk bankans sem byggist á skýrum markmiðum og er háð ströngum skilyrðum Fjármálaeftirlitsins. Á árinu 2023 voru bæði fjárhagslegir og ófjárhagslegir mælikvarðar hluti af kerfinu en þeir ófjárhagslegu tengjast meðal annars árangri varðandi heildaránægju viðskiptavina, þekkingu á viðskiptavinum (KYC), fræðslu og jafnréttismálum.

Helstu mælikvarðar Arion banka í tengslum
við umhverfis- og félagsþætti og stjórnarhætti

 
Umhverfisþættir

Markmið fyrir árið 2030:
  • hlutfall sjálfbærra lánveitinga verði a.m.k. 20% af heildarlánabók bankans;
  • draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi (umfang 1 og 2) um 80% m.v. árið 2015 og kolefnisjafna þá losun sem eftir stendur;
  • vinna stöðugt að því að ná betur utan um losun vegna aðkeyptra vara og þjónustu (umfang 3) í starfsemi bankans;
  • stuðla að samdrætti í fjármagnaðri losun í þeim atvinnugreinum sem hafa hvað mest áhrif (umfang 3) í samræmi við markmið um kolefnishlutleysi árið 2040. Nýjustu markmið eru birt árlega í skýrslu bankans um fjármagnaða kolefnislosun;
  • markmið í tengslum við fjármagnaðan útblástur séu samþykkt af SBTi.
Undirmarkmið fyrir rekstur bankans árið 2024:
  • að unnið sé að því að hlutfall flokkaðs úrgangs í rekstri bankans sé a.m.k 90%;
  • að bankinn kaupi áfram einungis inn bíla sem nota 100% endurnýjanlega orkugjafa.

Félagsþættir

Markmið fyrir árið 2024:
  • að unnið sé eftir aðgerðaáætlun bankans í jafnréttis- og mannréttindamálum sem er lögð fram til þriggja ára í senn;
  • að auka hlutfall kvenna í fjárfestingum.
Núverandi markmið 2021-2024 eru m.a.:
  • að viðhalda jafnlaunavottun;
  • að niðurstaða jafnlaunagreiningar sýni launamun kynjanna undir 1%;
  • að miðgildi heildarlauna karla sem hlutfall af heildarlaunum kvenna sé undir 1,3;
  • að einkunn í könnun um upplifun starfsfólks af jafnvægi milli vinnu og einkalífs sé að lágmarki 4,2;
  • að starfsfólki verði að jafnaði tryggð 80% af launum í fæðingarorlofi í 6 mánuði óháð kyni;
  • að starfsfólk þekki stefnu sem og forvarnar- og viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis;
  • í virðiskeðju bankans, þar með talið í innkaupum og í lánveitingum til fyrirtækja, leitast bankinn við að ganga úr skugga um að alþjóðleg mannréttindi séu virt og að gætt sé að jafnrétti.

Stjórnarhættir

Markmið fyrir árið 2024:
  • að a.m.k. 90% nýrra birgja sem eru með samning við bankann hafi farið í gegnum birgjamat þar sem frammistaða í umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum er metin og að sama hlutfall hafi samþykkt siðareglur bankans fyrir birgja;
  • að allt starfsfólk ljúki skyldufræðslu, m.a. um siðareglur, upplýsingaöryggi, varnir gegn peningaþvætti og persónuvernd;
  • að innri markmiðum bankans um þekkingu á viðskiptavinum (KYC/AML) sé náð;
  • að koma á samræmdu áhættumati fyrir mismunandi atvinnugreinar og landsvæði út frá UFS-áhættu í tengslum við fjárhagsleg áhrif á bankann.

Ábyrgar lánveitingar og fjárfestingar

Arion banki er aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible Banking. Markmið meginreglnanna er að tengja starfsemi banka við mikilvæg alþjóðleg markmið og skuldbindingar á sviði sjálfbærni, þar með talið heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamkomulagið. Til að laga stefnu okkar og gjörðir að meginreglum PRB og markmiðum Parísarsamkomulagsins höfum við meðal annars sett okkur umhverfis- og loftslagsstefnu og markmið sem eru endurskoðuð og uppfærð árlega. Nánari upplýsingar um umhverfis- og loftslagsstefnu bankans, fjármagnaðan útblástur og markmið má finna hér. Á árinu 2023 var líkt og undanfarin ár áfram unnið að innleiðingu meginreglnanna. Meðal annars unnum við að setningu fyrstu loftslagsmarkmiða bankans og gerðumst aðilar að Science Based Targets initiative og Net-Zero Banking Alliance. Þá birtum við aðra skýrslu okkar í tengslum við fjármagnaðan útblástur.

Í útlánastefnu bankans er lögð áhersla á sjálfbærni og í lánareglum er kveðið á um að meta skuli UFS-þætti þegar þörf er á lánshæfismati eða fyrirtæki uppfyllir skilyrði 66. gr.d. laga um ársreikninga. Bankinn gaf út heildstæða græna fjármálaumgjörð á árinu 2021 og hefur síðan farið í fjórar grænar skuldabréfaútgáfur sem byggjast á þeirri umgjörð. Á árinu 2023 hófst vinna við endurskoðun grænnar fjármálaumgjarðar sem m.a. snýr að því að fella einnig undir hana lán sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif. Þeirri vinnu lýkur á árinu 2024.

Á árinu 2023 var annars vegar birt sjálfbærnistefna í tengslum við sjávarútveg og hins vegar iðnað, orku og framleiðslu. Þar að auki var birt sjálfbærnistefna í tengslum við norðurslóðir en bankinn leggur aukna áherslu á það svæði. Við gerð sjálfbærnistefna bankans leitum við álits frá hagsmunaaðilum og horfum til áætlana og aðgerða í tengslum við umhverfis- og félagsþætti og stjórnarhætti innan mismunandi atvinnugreina.

Á árinu var unnið að langtíma átaksverkefninu Konur fjárfestum sem kynnt var til leiks í ársbyrjun 2024. Góður árangur hefur náðst á undanförnum árum og áratugum í jafnréttismálum hér á landi en staðan á fjármálamarkaði er ekki jöfn. Arion banki vill leggja lóð á vogarskálarnar í því skyni að jafna þátttöku kvenna og stúlkna á fjármálamarkaði en eitt þeirra heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, sem Arion banki hefur í hávegum í starfsemi sinni, er markmið 5 sem kveður á um að jafnrétti verði tryggt og völd allra kvenna og stúlkna efld. Tilgangur verkefnisins er að fá konur til þess að taka virkari þátt á fjármálamarkaði með hvatningu, fræðslu og samfélagsátaki. Verkefnið hefur fengið frábærar viðtökur og sambærileg verkefni á Norðurlöndum hafa gefið góða raun. Fræðast má frekar um Konur fjárfestum hér.

Þegar kemur að eignastýringu hefur Arion banki innleitt í starfshætti sína og starfsreglur verklag ábyrgra fjárfestinga sem felur í sér að við stýringu eigna er horft til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta. Bankinn er aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, Principles for Responsible Investment (PRI), og hefur frá árinu 2019 birt framvinduskýrslu. Þannig er ekki aðeins horft til fjárhagslegra þátta í eignastýringu heldur einnig annarra þátta sem teljast hafa þýðingu við greiningu á fjárfestingum og uppbyggingu eignasafna viðskiptavina. Markaðir hófu innleiðingu á nýrri sjálfbærnilöggjöf á árinu. Sjá nánari upplýsingar hér.

Ábyrg innkaup

Í samræmi við það meginmarkmið í stefnu bankans að skapa verðmæti til framtíðar, viðskiptavinum, hluthöfum og samfélaginu öllu til góða, leitar bankinn í nærumhverfi sitt eftir þjónustu eins og frekast er unnt, að því gefnu að birgjar standist kröfur um gæði og hagkvæmni.

Nær allir stærstu og mikilvægustu birgjar bankans starfa á Íslandi. Þrátt fyrir að aðfangakeðja bankans teygi sig út fyrir landsteinana er fyrsti hlekkur hennar oftast á heimamarkaði. Þannig eru tveir erlendir birgjar á meðal tíu stærstu birgja bankans og aðeins fjórtán á meðal þeirra 50 stærstu. Stærsti hluti erlendra birgja bankans tengist innkaupum á hugbúnaði, ráðgjöf og þjónustu tengdri upplýsingatækni. Vélbúnaður er því sem næst allur keyptur með milligöngu innlendra aðila.

Innkaup skiptast með eftirfarandi hætti á milli 50 stærstu birgja: innlendir 83% og erlendir 17%.

Innkaup skiptast með eftirfarandi hætti á milli 50 stærstu birgja
%

Í uppfærðum markmiðum í tengslum við umhverfis- og loftslagsstefnu bankans kemur fram að a.m.k. 90% nýrra birgja, sem eru með samning við bankann, skuli hafa farið í gegnum birgjamat þar sem frammistaða í umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum er metin og að sama hlutfall hafi samþykkt siðareglur bankans fyrir birgja. Innkaupareglur bankans taka mið af þessu.

Í birgjamati bankans, sem fyllt er út rafrænt, er lögð áhersla á frammistöðu birgja varðandi umhverfis- og loftslagsmál en einnig jafnréttismál og vinnurétt. Birgjamatið er bæði á íslensku og ensku og er það lagt fyrir birgja yfir ákveðnum stærðarmörkum. Á árinu fóru 90% nýrra birgja, sem falla undir þá skilgreiningu og eru með samning við bankann, í gegnum matið. Við metum reglulega frammistöðu birgja sem við eigum í viðvarandi viðskiptasambandi við en allir stærstu birgjar bankans, sem við höfum gert útvistunarsamninga við, fóru í gegnum frammistöðumat á árinu.

Siðareglur birgja, sem snúa að sjálfbærni og samfélagsábyrgð, eru aðgengilegar á vefsíðu bankans. Siðareglurnar koma fram í rafrænu birgjamati og eru hluti af samningum bankans.

Verktakar

Á árinu 2022 var tekið upp nýtt ferli sem snýr að verktökum og eru þeir skilgreindir í þrjá flokka eftir mismunandi tegundum aðgangsheimilda og umfangi. Verktakar eru aðilar sem vinna tiltekin verkefni fyrir bankann, til styttri eða lengri tíma, en eru ekki fast starfsfólk bankans. Heildarfjöldi verktaka, sem voru virkir í lok árs 2023, var 287. Dæmi um verktaka eru aðilar sem sinna fasteignaþjónustu og rekstri á eignum bankans, viðhaldi og ræstingu og endurskoðendur og ráðgjafar. Flestir verktakar bankans eru forritarar, eftirlitsaðilar sem sinna meðal annars öryggiseftirliti og aðrir sérfræðingar.

Ábyrg vörustjórnun, vöruframboð og markaðssetning til einstaklinga

Arion banki fylgir stefnu um ábyrga vörustjórnun, vöruframboð og markaðssetningu og bera framkvæmdastjórar viðskiptabankasviðs og upplifunar viðskiptavina ábyrgð á eftirfylgni stefnunnar. Í stefnunni kemur meðal annars fram að bankinn leitist við að bjóða upp á vörur og þjónustu sem eru viðskiptavinum, hluthöfum og samfélaginu öllu til hagsbóta. Verklag ábyrgrar vörustjórnunar á smásölumarkaði er skilgreint innan Arion banka og tekur m.a. mið af viðmiðunarreglum Evrópska bankaeftirlitsins (EBA) um eftirlit með vöruþróun og vörustjórnun á smásölumarkaði.

Bankinn gætir hagsmuna viðskiptavina við þróun á vörum bankans og tryggir eins og kostur er að þeir fái vörur og þjónustu við sitt hæfi. Lögð er áhersla á áhættumiðaða vörustjórnun við að greina og stjórna áhættu sem tengist vörum og þjónustu og áhrifum á neytendur. Skilgreindar áhættur tengdar vörum bankans eru yfirfarnar árlega og áhættumat framkvæmt við innleiðingu á nýjum vörum og mikilvægum breytingum.

Bankinn leggur mikið upp úr því að starfsfólk þekki vel til þeirra reglna sem gilda um þær vörur og þjónustu sem bankinn veitir. Áhersla er lögð á stöðuga og markvissa þjálfun starfsfólks og heyra vissir fyrirlestrar um helstu málefni og vörur bankans undir skyldufræðslu starfsfólks.

Bankinn skráir og flokkar ábendingar og kvartanir eftir vörum og eðli þjónustunnar og miðlar þeim upplýsingum árlega til Seðlabanka Íslands. Brugðist er við ábendingum og kvörtunum þegar við á og stuðst við þær í vöruþróun og til að bæta upplifun viðskiptavina.

Stefna um ábyrga vörustjórnun, vöruframboð og markaðssetningu til einstaklinga

Skuldbindingar, vottanir og þátttaka
í samstarfi á sviði sjálfbærnimála

UNEP FI og meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi – PRB

Í júlí 2019 gerðist Arion banki aðili að UNEP FI, United Nations Environment Programme Finance Initiative (UNEP FI), sem er samstarfsvettvangur umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og fyrirtækja og stofnana í fjármálageiranum víðs vegar um heiminn. Þar er fjallað um áskoranir í samfélags- og umhverfismálum.

Í september sama ár gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible Banking (PRB), sem mótaðar voru af UNEP FI og 30 alþjóðlegum bönkum. Nánari upplýsingar um aðild Arion banka að meginreglunum má sjá hér.

Hér má sjá samantekt á framgangi innleiðingar bankans á meginreglum SÞ um ábyrga bankastarfsemi.

Meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar – UN PRI

Árið 2017 gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, Principles for Responsible Investment (UN PRI). Meginreglunum er ætlað að hjálpa fjárfestum að skilja áhrif umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta á fjárfestingar og styðja þannig við að aðilar að meginreglunum taki ófjárhagslega þætti inn í fjárfestingarákvarðanir sínar. Framvinduskýrsla eignastýringar bankans um ábyrgar fjárfestingar er birt árlega. Sjá má nánari upplýsingar um ábyrgar fjárfestingar í umfjöllun um markaði.

UN Global Compact – sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja

Arion banki hefur verið aðili að UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja, frá árinu 2016. Í sáttmálanum eru sett fram tíu grundvallarviðmið sem snúa að mannréttindum, vinnumarkaði, umhverfi og baráttu gegn spillingu. Bankinn skilar árlega skýrslu til Global Compact varðandi framgang markmiðanna. Bankastjóri Arion banka, Benedikt Gíslason, skrifaði á árinu undir yfirlýsingu tæplega 80 forstjóra norrænna fyrirtækja innan Global Compact þar sem lýst var yfir stuðningi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og markmið Parísarsamkomulagsins og hvatt til frekari aðgerða í loftslagsmálum svo þau markmið náist. Yfirlýsingin var sett fram í tengslum við COP28, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Nánari upplýsingar má finna hér.

PCAF – Partnership for Carbon Accounting Financials

Árið 2021 gerðist Arion banki aðili að Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF). Um er að ræða alþjóðlegan samstarfsvettvang fjármálafyrirtækja sem hefur það meginmarkmið að samræma mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda (GHL) sem fjármálafyrirtæki fjármagna í gegnum lánveitingar og fjárfestingar. Arion banki birti sína fyrstu skýrslu um fjármagnaðan útblástur í árslok 2022 sem byggir á aðferðafræði PCAF. Mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda sem fjármögnuð er í gegnum lánveitingar og fjárfestingar er forsenda þess að bankinn geti sett sér markmið varðandi samdrátt í losuninni og er það næsta skref. 

 

Science Based Targets initiative

Í árslok 2023 skuldbatt Arion banki sig til að fá markmið í loftslagsmálum samþykkt af Science Based Targets initiative (SBTi) innan tveggja ára. Markmiðin miða að því að hækkun á hitastigi jarðar fari ekki umfram 1,5°C og að kolefnishlutleysi bankans. Samþykki frá SBTi staðfestir að loftslagsmarkmið bankans séu byggð á vísindalegum grunni og séu í samræmi við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Yfir 7000 fyrirtæki eru aðilar að SBTi en á fimmta þúsund markmiða hafa nú þegar verið samþykkt. Nánar má lesa um vísindaleg loftslagsmarkmið hér.

Net-Zero Banking Alliance

Arion banki varð aðili að Net-Zero Banking Alliance (NZBA), samtökum banka á alþjóðavísu undir hatti UNEP FI, í árslok 2023. Um er að ræða samtök banka sem vilja skara fram úr í loftslagsmálum. NZBA var stofnað árið 2021 sem vettvangur banka til að mæta kröfum PRB um ábyrgð í loftslagsmálum. Með aðild skuldbinda bankar sig til að setja fram markmið um samdrátt á fjármagnaðri losun til ársins 2030 og að hafa náð kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2050.

 

Festa – miðstöð um sjálfbærni

Arion banki hefur um árabil verið aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Hlutverk Festu er að auka þekkingu á samfélagsábyrgð og sjálfbærni fyrirtækja, stofnana og hvers kyns skipulagsheilda.

Loftslagsyfirlýsing Festu og Reykjavíkurborgar

Árið 2015 gerðist Arion banki aðili að loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar ásamt rúmlega hundrað öðrum fyrirtækjum. Meðal verkefna á sviði loftslagsmála er að ná utan um umhverfisáhrif starfseminnar og að draga markvisst úr neikvæðum áhrifum hennar. Við höfum birt umhverfisuppgjör bankans árlega síðan 2016. Nánari upplýsingar um umhverfisuppgjör Arion banka má finna hér og í sjálfbærniuppgjöri fyrir árið 2023.

IcelandSIF – félag íslenskra fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar

Arion banki hefur verið virkur þátttakandi í mótun og þróun ábyrgra fjárfestinga á Íslandi og var meðal stofnaðila IcelandSIF, félags íslenskra fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar, árið 2017. Tilgangur samtakanna er að efla þekkingu og auka umræðu um aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Bankinn hefur í gegnum árin átt fulltrúa í stjórn og vinnuhópum á vegum samtakanna.

Samstarfsvettvangur um loftslagsmál og grænar lausnir – Grænvangur

Arion banki er einn af stofnaðilum Grænvangs, samstarfsvettvangs atvinnulífs og stjórnvalda sem stuðlar að framþróun í loftslagsmálum og grænum lausnum. Grænvangur leiðir saman íslensk fyrirtæki og stjórnvöld til að vinna að sameiginlegu markmiði um kolefnishlutlaust Ísland 2040. Auk þess kynnir Grænvangur íslenskar grænar lausnir erlendis í samstarfi við Íslandsstofu undir merkjum Green by Iceland.

VAXA Technologies

Arion banki hefur gert samning við VAXA Technologies og keypt af fyrirtækinu vottaðar og virkar kolefniseiningar. Einingarnar eru mótvægisaðgerð Arion banka vegna losunar í eigin rekstri á árinu 2022, meðal annars vegna húsnæðis, bíla, flugferða, sorps og samgangna starfsfólks til og frá vinnu. VAXA Technologies, sem staðsett er í jarðhitagarði ON á Hellisheiði, selur virkar kolefniseiningar sem verða til við framleiðslu á blágrænum þörungum, spirulina.

CDP

Arion banki hefur frá árinu 2019 gert grein fyrir áhrifum sínum varðandi loftslagsmál í gegnum CDP, sem er alþjóðleg sjálfseignarstofnun sem hefur það markmið að búa til vettvang fyrir samræmda upplýsingagjöf varðandi umhverfismál, meðal annars fyrir fjárfesta, borgir, ríki og stjórnvöld. Yfir 17.800 fyrirtæki hafa birt umhverfisgögn í gegnum CDP fyrir árið 2023. Nánari upplýsingar um CDP má finna hér.

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Í ágúst síðastliðnum fengu Arion banki, Vörður og Stefnir endurnýjaða viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Það eru Stjórnvísi, Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland sem veita viðurkenningarnar. Arion banki fékk fyrst viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti árið 2016 en hún er veitt í kjölfar ítarlegrar úttektar óháðs aðila á stjórnarháttum bankans, s.s. starfsháttum stjórnar, undirnefnda og stjórnenda. Viðurkenningin gildir í þrjú ár í senn. Sjá nánari upplýsingar um stjórnarhætti Arion banka hér og í sjálfbærniuppgjöri fyrir árið 2023.

Jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins

Arion banki fékk á haustmánuðum 2018 jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins eftir að hafa farið í gegnum endurvottun frá BSI á Íslandi og varð þar með fyrstur banka til að hljóta merkið. Bankinn fékk upphaflega Jafnlaunavottun VR árið 2015, einnig fyrstur banka, og hefur farið í gegnum launagreiningar árlega síðan þá. Sjá nánar um jafnréttismál í umfjöllun um mannauð í sjálfbærniuppgjöri bankans fyrir árið 2023.

Jafnréttissáttmáli UN Women og UN Global Compact

Frá árinu 2014 hefur bankinn verið aðili að Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact. Jafnréttissáttmálinn er alþjóðleg yfirlýsing og samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta, óháð landi og atvinnugrein, og snúa viðmiðin fyrst og fremst að kynjajafnrétti. Sjá nánari upplýsingar í umfjöllun um jafnréttismál í Arion banka og í sjálfbærniuppgjöri.

Jafnvægisvog FKA

Benedikt Gíslason bankastjóri undirritaði á árinu 2020 viljayfirlýsingu um Jafnvægisvogina þar sem fram kemur að Arion banki ætli að vinna markvisst að því næstu árin að jafna hlut kynja í efsta lagi stjórnunar. Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) og fylgjast má með framgangi verkefnisins í gagnvirku mælaborði.

Stuðningur við samfélagið

Arion banki heldur og kemur að fjölda fræðslufunda, ráðstefna og viðburða og er þannig virkur þátttakandi í samfélaginu. Fjöldi gesta sótti bankann heim á árinu og við tókum einnig þátt í fjölmörgum ráðstefnum og sýningum.

Dæmi um viðburði sem Arion banki stóð fyrir á árinu:
  • Nemendur á háskólastigi komu í heimsókn og fengu fræðslu um fjárfestingar. Tækifærið var nýtt til að hleypa af stokkunum fjárfestingarkeppni Arion. Markmið keppninnar var að efla fræðslu um fjárfestingar og sjóðastýringu og gera nemendum kleift að kljást við raunveruleg verkefni úr atvinnulífinu.

  • Í samstarfi við Félag kvenna í atvinnulífinu héldum við glæsilegan sýnileikadag þar sem yfir 300 konur úr atvinnulífinu komu saman.

  • Hagfræðingur bankans hélt kynningar á hagspá fyrir viðskiptavini.

  • Skákmótið Arion Invitational var haldið með glæsibrag í október þar sem Hjörvar Steinn Grétarsson fór með sigur af hólmi.

  • Við héldum kvennakvöld í tilefni af bleikum október þar sem viðskiptavinir bankans komu saman. Seld voru listaverk ásamt öðrum varningi og rann ágóðinn til Krabbameinsfélagsins.

  • Líkt og fyrri ár var viðskiptavinum boðið á ýmsa fræðslufundi, m.a. um útgreiðslu séreignarsparnaðar. Fjöldi viðskiptavina nýtti sér fundina bæði í sal og í streymi.

  • Félög og viðskiptavinir heimsóttu bankann og má nefna viðburði eins og fund Ungra frumkvöðla, heimsókn forsetalista Háskólans í Reykjavík og fund Skógræktarfélagsins. Einnig héldum við fjölda vísindaferða fyrir nemendur á háskólastigi og tókum á móti ýmsum félagasamtökum og fyrirtækjum.

Styrktarstefna Arion

Arion er í samstarfi við fjölda félagasamtaka og fyrirtækja og styður þau til góðra verka. Bankinn vinnur eftir samþykktri styrktarstefnu og leggur áherslu á að styrkir tengist kjarnastarfsemi bankans eða styðji við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, með sérstaka áherslu á þau markmið sem bankinn hefur í forgrunni.

Við val á styrkþegum og samstarfsaðilum er einnig horft til stjórnarhátta, umhverfis- og loftslagsmála og félagsþátta. Þá er ferlið við styrkveitingar vel skilgreint og gagnsætt.

Framlög til stjórnmálastarfs

Arion banki hefur sett sér stefnu um framlög til stjórnmálastarfs. Í stefnunni kemur meðal annars fram að bankinn styrki þau stjórnmálasamtök sem bjóða fram á landsvísu við alþingiskosningar og óska sérstaklega eftir fjárstuðningi frá bankanum. Skilyrði er að samtökin eigi fulltrúa á Alþingi.

Engin framlög voru til stjórnmálastarfs á árinu 2023.

Stefna Arion banka um framlög til stjórnmálastarfs

Skipting styrkja á árinu 2023
%

Styrkveitingar og samstarf á árinu

  • Arion banki var einn af aðalstyrktaraðilum Arctic Circle ráðstefnunnar sem fram fór í Hörpu í október. Markmið ráðstefnunnar er að stuðla að samtali og samstarfi um framtíð og þróun norðurheimskautsins, en mikilvægi norðurslóða mun aukast á næstu áratugum, ekki síst vegna loftslagsbreytinga.

  • Arion banki gerðist á árinu bakhjarl Heimsþings kvenleiðtoga sem haldið er af Reykjavik Global Forum, Alþingi og ríkisstjórn Íslands í samstarfi við alþjóðlegu þingkvennasamtökin WPL. Heimsþingið gegnir mikilvægu hlutverki í að vekja athygli á og stuðla að auknu jafnrétti kynjanna á heimsvísu og sækja það um 500 kvenleiðtogar frá um 80 löndum. Heimsþingið fór fram í Hörpu í nóvember.

  • Á vorönn kostaði Arion banki forsetalista Háskólans í Reykjavík, en á forsetalistann komast þeir nemendur sem ná bestum námsárangri á hverri önn. Markmiðið með listanum er að hvetja nemendur sem ná framúrskarandi árangri í námi til dáða og vekja athygli á árangri þeirra. Nemendur á forsetalista HR hljóta styrk sem nemur skólagjöldum einnar annar.

  • Arion banki er einn af styrktaraðilum HSÍ en bankinn hefur um árabil stutt íslenskan handknattleik. Þá er bankinn einnig einn af aðalbakhjörlum Íþróttasambands fatlaðra og styður undirbúning og þátttöku sambandsins fyrir mót ársins.

  • Bankinn styrkir Skógræktarfélag Íslands. Styrkurinn felur meðal annars í sér stuðning við framkvæmd verkefnisins „Skógarvist, skógargátt og lýðheilsa“, en verkefninu er ætlað að hvetja til útivistar og þar með bættrar lýðheilsu. Einnig nýtist styrkurinn til skógræktar.

  • Þá styrkti bankinn fjölda góðgerðasamtaka á árinu á borð við Krabbameinsfélagið, Foreldrahús og mæðrastyrksnefndir. Að auki styrktu útibú bankans um land allt fjölda góðra mála í sinni heimabyggð.

Nýsköpun og stuðningur við frumkvöðla

Nýsköpun er mikilvægur þáttur í starfsemi bankans og eflir samkeppnishæfni hans til lengri tíma litið. Stöðug og markviss skoðun á því hvort núverandi aðferðafræði varðandi vörur, þjónustu og verkferla sé best til þess fallin að stuðla að árangri er einn af lykilþáttum starfseminnar.

Á undanförnum árum hefur bankinn komið að fjölda spennandi fjárfestingarverkefna með viðskiptavinum, m.a. með það að markmiði að efla atvinnulíf hér á landi. Á það ekki síst við um hugverkaiðnaðinn sem er vaxandi atvinnugrein á Íslandi og mikilvæg stoð í verðmætasköpun til framtíðar. Við leggjum okkur fram um að vera til staðar fyrir frumkvöðla og hvetjum til nýsköpunar og grósku með stuðningi og samstarfi.

Stuðningur Arion banka við nýsköpun og virk þátttaka í uppbyggingu efnahagslífsins styður við tvö af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna; annars vegar það áttunda sem snýr að góðri atvinnu og hagvexti og hins vegar það níunda sem snýr að nýsköpun og uppbyggingu.

Arion banki hefur fjárfest beint og óbeint í fjölda nýsköpunarfyrirtækja og tekið þátt í viðburðum sem tengjast nýsköpun.

  

Stefnumarkandi samstarfsaðilar

Betri þjónusta við aðila á leigumarkaði í gegnum Leiguskjól

Leiguskjól er gott dæmi um samstarfsaðila sem bankinn hefur valið að starfa með og styður við þjónustu bankans. Leiguskjól tók þátt í Startup Reykjavík-hraðli Arion banka árið 2018. Þá hófst fjárfesting bankans í félaginu þegar bankinn eignaðist 6% hlut. Á árinu 2019 gerði bankinn samstarfssamning við félagið ásamt því að auka við fjárfestingu sína í félaginu og á bankinn nú 51% hlut. Fjárfestingin og samstarfssamningurinn við Leiguskjól eru liður í áherslu bankans á aukið samstarf við fjártæknifélög þar sem markmiðið er meðal annars að nýta grunnstoðir bankans og tengja þær við árveknina og kraftinn sem einkennir frumkvöðlastarf.

Eyrir Sprotar – fjárfestingar í sprotafyrirtækjum

Arion banki er í samstarfi við Eyri Invest um rekstur sprota- og vaxtarsjóðsins Eyrir Sprotar slhf. Eyrir Invest og Arion banki eru stærstu hluthafar sjóðsins. Sjóðurinn er 6 ma. kr. að stærð og hefur fjárfest í ellefu fyrirtækjum.

Efling nýsköpunar á fjármálamarkaði með Fjártækniklasanum

Arion banki er aðili að Fjártækniklasanum sem er liður í að efla samstarf við fjártæknifélög. Tilgangur Fjártækniklasans er að efla nýsköpun í fjármálum. Að auki starfrækir Fjártækniklasinn nýsköpunarsetur og stendur fyrir ýmiss konar viðburðum, m.a. í samvinnu við Arion banka.

Stuðningur við unga frumkvöðla

Arion banki er einn af aðalbakhjörlum Ungra frumkvöðla, Junior Achievement á Íslandi. Samtökin hafa það hlutverk að búa ungt fólk undir framtíðina og auka færni þess til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar með því að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamenntun í framhaldsskólum. Samtökin stóðu fyrir samkeppni meðal framhaldsskólanema á árinu sem gaf nemendum færi á að kynnast frumkvöðlastarfinu af eigin raun í námi sínu. Alls voru 162 fyrirtæki stofnuð í samkeppninni í ár af rúmlega 700 nemendum og 30 fyrirtæki kepptu til úrslita. Fyrirtækið Nomína, sem er í eigu sex nemenda við Verslunarskóla Íslands, var valið fyrirtæki ársins og keppti fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni Ungra frumkvöðla sem fór fram í Istanbúl í Tyrklandi.

Leitar sjóður – fjárfest í frumkvöðlum

Arion Banki er fjárfestir í Leitar Capital Partners ehf. Leitar Capital Partners er nýtt félag sem leggur áherslu á fjárfestingar í verkefnum ungs og öflugs fólks og styður það við að finna fyrirtæki til að kaupa og reka. Félagið er skráður rekstraraðili sérhæfðra sjóða og hefur lokið 1,5 milljarða króna fjármögnun í fyrsta fjárfestingarsjóð félagsins. Fjárfestingarsjóðurinn mun fjárfesta í svokölluðum leitarsjóðum (e. search funds), en leitarsjóður er heiti yfir einkahlutafélag sem er stofnað utan um ungan frumkvöðul, sem oft er nefndur leitari. Leitarinn fær fjármögnun til að leita að fyrirtæki til að kaupa, tekur svo við því sem framkvæmdastjóri við kaup, fær hlut í fyrirtækinu og stýrir því í gegnum umbreytingu og vöxt þar til það er selt aftur. Markmið verkefnisins er að sameina krafta ungra og metnaðarfullra frumkvöðla við reynslu og þekkingu öflugra fjárfesta með kaupum á góðu fyrirtæki sem hefur tækifæri til vaxtar.

Frágangur – spennandi sprotafyrirtæki

Arion Banki er fjárfestir og eigandi þriðjungshlutar í Bílafrágangi ehf. Frágangur er nýsköpunarfyrirtæki sem var stofnað árið 2020 en markmið þess er að auka öryggi og neytendavernd í bílaviðskiptum með stafrænum lausnum. Lausn Frágangs gerir öllum þeim sem koma að ökutækjaviðskiptum kleift að eiga örugg, einföld og hröð viðskipti. Lausnin felur í sér alla skjalagerð sem tengist viðskiptunum, þar á meðal kaupsamninga, eigendaskipti og fjármögnun.

 

Uppskeruhátíð Ungra frumkvöðla, Junior Achievement á Íslandi (JA), sem var haldin í höfuðstöðvum Arion banka í apríl. Fyrirtækið Nomína, sem er í eigu sex nemenda við Verslunarskóla Íslands, var valið fyrirtæki ársins 2023.