Helstu fjárhags­niðurstöður

Hagnaður Arion banka samstæðunnar á árinu 2023 nam 25,7 milljörðum króna samanborið við 26,0 milljarða króna á árinu 2022. Arðsemi eigin fjár var 13,6% en 14,1% á árinu 2022.

Helsta breyting milli ára var á hreinum vaxtatekjum, sem jukust um 11%, og á hreinum fjármunatekjum, sem voru jákvæðar um 1,4 milljarða króna á árinu en voru neikvæðar um 3,3 milljarða á síðasta ári. Kjarnatekjur hafa hækkað um 6,8% milli ára, en þær eru skilgreindar sem hreinar vaxtatekjur, hreinar þóknanatekjur og tekjur af vátryggingum að frádregnum rekstrarkostnaði trygginga. Á sama tíma hefur kostnaður hækkað minna en sem samsvarar verðbólgu.

Hagnaður ársins
Milljarðar króna / %

Rekstrartekjur

Rekstrartekjur námu 64,2 milljörðum króna samanborið við 55,3 milljarða króna á árinu 2022, sem er 16,1% hækkun milli ára.

Hreinar vaxtatekjur hækkuðu um 11,2% frá árinu 2022. Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 3,1% sem er sá sami og var á árinu 2022. Meðalstaða vaxtaberandi eigna hækkaði um 147 milljarða króna milli ára eða sem nemur um 11,3%, einkum útlán, en á sama tíma hækkuðu vaxtaberandi skuldir um 122 milljarða króna eða um 10,7%, einkum innlán og lántaka.

Meginvextir Seðlabankans voru 9,25% í árslok en voru 6% í árslok 2022. Þessi hækkun hafði umtalsverð áhrif, bæði á eigna- og skuldahlið. Þá hefur verðbólga verið nokkuð há allt árið og á sama tíma hefur verðtryggingarójöfnuður aukist um 75 milljarða króna. Þannig hafa verðtryggð lán aukist um 119 milljarða króna milli ára, verðtryggð lántaka aukist um 27 milljarða króna og innlán um 19 milljarða króna.

Bankinn gerir ráð fyrir vaxtamun upp á 3,0%-3,2% við núverandi aðstæður en ýmislegt bendir til þess að vaxtastig hafi náð hámarki miðað við skilaboð Seðlabankans við síðustu vaxtaákvörðun. Vegna aukins verðtryggingarójafnaðar má búast við auknum sveiflum á hreinum vaxtatekjum fram á veginn, þ.e. að vaxtamunur sveiflist með verðbólgu.

Hreinar vaxtatekjur og vaxtamunur
Milljarðar króna / %

 

Hreinar þóknanatekjur stóðu nánast í stað milli ára og námu 16,4 milljörðum króna. Tekjur af greiðslukortum og innheimtuþjónustu aukast nokkuð en vegna minni umsvifa á verðbréfamörkuðum stóðu þóknanir af eignastýringu nánast í stað og þóknanir af miðlun og fyrirtækjaráðgjöf drógust saman. Þóknanir af lánum og ábyrgðum haldast góðar þrátt fyrir samdrátt í útlánavexti. Það er einkum vegna sölu lána og þjónustu vegna þeirra sem bankinn heldur sínu þar.

Hreinar þóknanatekjur
Milljarðar króna

 

Afkoma af vátryggingasamningum nam 152 milljónum króna á árinu 2023 samanborið við 615 milljónir króna á árinu 2022. Tekjur af vátryggingasamningum hækkuðu um 12,9% frá 2022 en hins vegar hækkaði tjónakostnaður um 15,1%, en árið var einkum tjónaþungt vegna bruna, þar sem brunatjón voru sjöfalt meðaltal tjóna á Íslandi á árunum 2017-2021. Samsett hlutfall á árinu 2023 nam 97,0% samanborið við 93,3% á árinu 2022. Á árinu var alþjóðlegur reikningsskilastaðall um vátryggingar, IFRS 17, innleiddur hjá Verði og var samanburðarfjárhæðum vegna ársins 2022 breytt til samræmis í ársreikningi Arion banka 2023.

Vátryggingatekjur Varðar
Milljarðar króna
Samsett hlutfall
%

 

Hreinar fjármunatekjur námu 1,4 milljarði króna á árinu 2023, samanborið við neikvæðar fjármunatekjur á árinu 2022 upp á 3,3 milljarða króna. Markaðsaðstæður voru erfiðar framan af ári en verðbreytingar á fjórða ársfjórðungi leiddu til þess að árið endaði í jákvæðri niðurstöðu. Hagnaður varð af hlutabréfaeign, skuldabréfaeign og gjaldmiðlum en tap af afleiðum og reiknuðum áhrifum vátryggingasamninga.

Hreinar fjármunatekjur
Milljarðar króna

 

Aðrar rekstrartekjur námu 1,6 milljörðum króna samanborið við 1,3 milljarða króna á árinu 2022, sem jafngildir 17,3% hækkun. Virðisbreyting á eign bankans í fjárfestingareigninni Blikastöðum nam um 1,6 milljarði króna og er því meginhlutinn af tekjum ársins.

Aðrar rekstrartekjur
Milljarðar króna

Rekstrarkostnaður

Rekstrarkostnaður, eins og hann birtist í rekstrarreikningi, nam samtals 25,7 milljörðum króna samanborið við 24,3 milljarða króna á árinu 2022, sem samsvarar um 3% hækkun milli ára. Ef horft er til heildarrekstrarkostnaðar, þar sem kostnaður af tryggingastarfsemi er tekinn með, var hann 28,7 milljarðar króna samanborið við 27,0 milljarða króna árið 2022 eða 6,1% hækkun. Kostnaður sem hlutfall af kjarnatekjum nam 44,7% samanborið við 45% árið 2022. Hækkun kostnaðar á árinu er talsvert undir hækkun verðlags.

Laun og launatengd gjöld námu 16,8 milljörðum króna sem er 5,5% hækkun frá fyrra ári. Sú hækkun er tilkomin vegna fjölgunar starfsmanna, einkum í upplýsingatækni og tryggingastarfsemi og þá tók nýr kjarasamningur gildi í upphafi árs, með auknum kostnaði. Stöðugildi hjá samstæðunni voru 822 í árslok en 781 í árslok 2022, sem samsvarar um 4,4% fjölgun milli ára. Áætlaður kostnaður við kaupaukakerfi nam 1,4 milljörðum króna á árinu 2023 samanborið við 1,6 milljarða króna árið áður.

Annar rekstrarkostnaður nam 12,0 milljörðum króna á árinu 2023 sem er 7,0% hækkun frá 2022. Hækkunin milli ára er einkum í aðkeyptri sérfræðiþjónustu, upplýsingatækni og í öðrum stjórnunarkostnaði.

Rekstrarkostnaður / kostnaðarhlutfall
Milljarðar króna / %

 

Hrein virðisbreyting var neikvæð um 1.348 milljónir króna á árinu 2023 samanborið við jákvæða virðisbreytingu upp á 144 milljónir króna á árinu 2022. Eftir óvenjulega stöðu árin 2021 og 2022 vegna heimsfaraldursins færðist niðurfærsla í eðlilegra horf og reiknast niðurfærsla á lánasafnið 0,12% á árinu. Samkvæmt útreikningum áhættustýringar er gert ráð fyrir um 0,3% árlegri niðurfærslu að jafnaði yfir líftíma, þannig að niðurfærsla ársins er nokkuð undir því.

Tekjuskattur nam 9,6 milljörðum króna samanborið við 9,9 milljarða króna árið 2022 sem samsvarar um 4% lækkun milli ára. Tekjuskattur, eins og hann er settur fram í ársreikningi, samanstendur af 20% tekjuskatti af hagnaði og 6% sérstökum fjársýsluskatti sem lagður er á hagnað fjármálafyrirtækja umfram einn milljarð króna. Virkt tekjuskattshlutfall var 27,2% samanborið við 33,9% árið 2022. Tekjuskattshlutfall sveiflast einkum vegna breyttrar samsetningar á tekjum, þar sem mismunandi hlutfall tekna er af söluhagnaði og virðishækkun hlutabréfa sem ekki er skattskyld. Til viðbótar við tekjuskatt greiða Arion banki og önnur stærri íslensk fjármálafyrirtæki bankaskatt (sem er 0,145% á skuldir umfram 50 milljarða króna) og 5,5% fjársýsluskatt af launum starfsmanna fjármálafyrirtækja. Samantekt ofangreindra skatta má sjá á myndinni hér fyrir neðan.

Skattar
Milljarðar króna

 

Tap af starfsemi til sölu nam 4 milljónum króna á árinu 2023 samanborið við 6,5 milljarða króna hagnað á árinu 2022. Á miðju ári 2022 var gengið frá sölu Valitor til Rapyd fyrir um 14,6 milljarða króna og var hagnaður af sölunni 5,6 milljarðar króna. Jákvæð áhrif af rekstri Valitor á fyrri hluta ársins 2022 námu um 1,1 milljarði króna. Allar eignir dótturfélaganna Sólbjargs og Stakksbergs, sem hafa verið flokkuð sem eignir til sölu, hafa nú ýmist verið seldar eða endurflokkaðar í bókum bankans.

Efnahagsreikningur

Eignir

Heildareignir samstæðu Arion banka hækkuðu um 4,1% frá árslokum 2022, þar sem hækkun á lánum til viðskiptavina og aukning í lausu fé var helsta ástæða breytinga.

Sjóður og innstæður hjá Seðlabanka Íslands og lán til lánastofnana námu 131 milljarði króna í árslok 2023 og lækkuðu um 28,7 milljarða króna eða um 18,0% frá árslokum 2022. Lausafjárstýring er meginskýring breytinga á þessum liðum.

Lán til viðskiptavina námu 1.152,8 milljörðum króna í árslok 2023 sem er um 6,3% hækkun frá árslokum 2022. Lán til fyrirtækja jukust um 8,2% á árinu og eru þau um 47% lánabókarinnar í árslok, voru 46% í árslok 2022. Dreifing fyrirtækjalána bankans er í takt við efnahagsumhverfið. Lán til einstaklinga jukust um 4,6% á árinu þar sem íbúðalán eru ráðandi hluti og eru lán til einstaklinga í árslok um 53% lánabókarinnar, lækka úr 54% í árslok 2022. Í árslok eru 47,7% útlána íbúðalán til einstaklinga, sem er svipað og var í árslok 2022 eða 47,3%. Aukning einstaklingslána á árinu er að talsverðu marki vegna verðlagsbreytinga á verðtryggðum íbúðalánum.

Lán til viðskiptavina eftir atvinnugreinum
%

 

Heilbrigði lánabókarinnar er áfram mjög gott. Hlutfall vandræðalána, sem skilgreind hafa verið sem lán með sértæka niðurfærslu, var í árslok 2023 1,7%, hækkaði úr 1,2% í árslok 2022. Með háu vaxtastigi sem og því að fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum eru komnir að endurskoðunartímabili er ekki útilokað að vanskil aukist en sú þróun er ekki komin fram að neinu marki enn sem komið er.

Lán til viðskiptavina
%

 

Verðbréfaeign nam 205,7 milljörðum króna í árslok 2023 samanborið við 193,3 milljarða króna í árslok 2022. Hækkunin er fyrst og fremst í skuldabréfaeign og tengist einkum lausafjárstýringu. Bankinn fjármagnaði evruútgáfu með gjalddaga í maí 2024 og greiddi upp að hluta en það sem eftir stendur er að mestu í skuldabréfaeign. Einnig lækka bréf sem bankinn á til áhættuvarna, sem var viðbúið þegar hlutabréfamarkaðir hafa verið á niðurleið og vaxtastig hátt. Þá hefur bankinn unnið markvisst í að lækka stöðu sína í óskráðum hlutabréfum á árinu.

Verðbréfaeign
Milljarðar króna

 

Skuldir og eigið fé

Skuldir samstæðu Arion banka jukust um 3,8% frá árslokum 2022. Eigið fé hækkaði um 6% frá árslokum 2022. Eigið fé hækkaði vegna afkomu ársins, sem var 25,7 milljarðar króna, en lækkaði vegna endurkaupa á eigin bréfum og arðgreiðslu, samtals að fjárhæð 15,6 milljarðar króna.

Skuldir og eigið fé
Milljarðar króna

 

Innlán frá viðskiptavinum námu 792,7 milljörðum króna í árslok 2023 og jukust um 4,9% frá árslokum 2022. Hlutfall lána á móti innlánum var 145% í árslok 2023 og hækkaði úr 144% í árslok 2022. Samsetning innlána hefur þróast með hagfelldum hætti á þann veg að stærri hluti innlána er nú frá einstaklingum, smærri fyrirtækjum og fyrirtækjum með önnur viðskipti hjá bankanum en hlutfall stofnanafjárfesta hefur lækkað. Innlán eru, nú sem áður, mikilvægasta fjármögnun bankans en samkeppni er mjög mikil í háu vaxtaumhverfi.

Innlán
Milljarðar króna

 

Lántaka bankans nam 420,5 milljörðum króna í árslok 2023, sem er 7,1% hækkun frá árslokum 2022. Hækkunin er einkum vegna nýrrar útgáfu sértryggðra skuldabréfa í bæði krónum og evrum. Endurgreiðsluferli lántöku óveðtryggðar útgáfu í krónum og evru er vel viðráðanlegt. Mjög ánægjulegt er að bankinn gaf út óveðtryggða útgáfu í krónum á fjórða ársfjórðungi sem er sú fyrsta í nokkuð langan tíma. Bankinn stendur vel þegar kemur að endurfjármögnun sem sterkur útgefandi sértryggðra bréfa á íslenskum markaði og reglulegur útgefandi á alþjóðlegum mörkuðum.

Víkjandi lántaka nam 41,3 milljörðum króna í árslok samanborið við 47,3 milljarða króna í árslok 2022. Á fjórða ársfjórðungi greiddi bankinn upp víkjandi lántöku (Tier 2) fyrir samtals um 6,6 milljarða króna. Frekari uppgreiðslur eru fyrirhugaðar á árinu 2024.

Gjalddagar lántöku og víkjandi lántöku
Milljarðar króna

 

Eigið fé bankans nam 199,3 milljörðum króna í árslok 2023 samanborið við 188,0  milljarða í árslok 2022. Breytinguna má einkum skýra með afkomu ársins að fjárhæð 25,7 milljarðar króna en til lækkunar koma kaup á eigin hlutabréfum bankans og arðgreiðsla, samtals að fjárhæð 15,6 milljarðar króna. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 hjá bankanum nam 19,7% í lok árs 2023, samanborið við 18,8% í árslok 2022. Vogunarhlutfall var 12,4% í árslok 2023 samanborið við 11,8% í árslok 2022 og er mjög hátt í öllum samanburði á alþjóðlegum bankamarkaði, eins og verið hefur. Við útreikning eiginfjárhlutfalla er tekið tillit til fyrirhugaðrar arðgreiðslu að fjárhæð um 13 milljarða króna í kjölfar aðalfundar í mars 2024. Bankinn hefur sett sér markmið um að eigið fé sé að jafnaði 1,5-2,5 prósentustigum umfram eiginfjárkröfur eftirlitsaðila og er núverandi staða á bilinu 2,3-3,3 prósentustigum umfram það markmið, einkum vegna sjónarmiðs matsfyrirtækisins S&P, sem er nokkuð íþyngjandi fyrir bankann.