Umhverfis- og loftslagsmál

Við gerum okkur grein fyrir því að mestu áhrifin sem bankar hafa í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál koma fram í gegnum lánveitingar og fjárfestingar og þá ábyrgð tökum við alvarlega. Við erum stolt af grænu vegferðinni okkar og þeirri áherslu á umhverfis- og loftslagsmál sem kemur skýrt fram í þjónustu- og vöruframboði bankans.

Miðlun fjármuna í átt að grænni uppbyggingu og hringrásarhagkerfi er afar þýðingarmikil í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ætlum við áfram að feta þá braut. Sjá nánari umfjöllun um græn fjármál og ábyrga bankastarfsemi.

Umhverfis- og loftslagsstefna Arion banka

Við viljum vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum, lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar og losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta áskorun samtímans og nauðsynlegt að halda hlýnun jarðar innan 1,5 gráða.

Við ætlum að leggja okkar af mörkum svo að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og alþjóðlegum umhverfis- og loftslagssáttmálum. Við styðjum metnaðarfull áform Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040 og stefnir bankinn að kolefnishlutleysi sama ár.

Bankar gegna lykilhlutverki í því að fjármagna framfarir og við beinum sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni uppbyggingu. Við gerum þá kröfu til okkar birgja að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í starfsemi sinni.

Við setjum okkur markmið og birtum árangur hvað varðar þá þætti sem við höfum mest áhrif á, svo sem innkaup, eigin rekstur, lánveitingar og fjárfestingar bankans. Með markvissum hætti munum við auka þekkingu starfsfólks á umhverfismálum og styðja við vegferð viðskiptavina okkar í átt að grænni framtíð í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Markmið í tengslum við umhverfis- og loftslagsstefnu bankans

Á árinu 2023 var unnið að því að uppfæra markmið bankans í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál og voru þau samþykkt af sjálfbærninefnd í byrjun árs 2024. Fyrri markmið voru endurskoðuð með tilliti til þess árangurs sem bankinn hefur náð og nýjum bætt við. Markmið bankans eru endurmetin árlega með það fyrir augum að setja markið ávallt hærra.

Bankinn hafði það markmið að hlutfall grænna lánveitinga, sem falla undir græna fjármálaumgjörð Arion banka, væri a.m.k. 20% árið 2030.

Staða: Í árslok 2023 var hlutfall grænna lánveitinga 10,7% af heildarlánasafni bankans en eftir góðan vöxt á milli áranna 2021 og 2022 lækkaði hlutfallið lítillega á árinu 2023. Markmið bankans var að koma hlutfalli grænna lánveitinga, sem falla undir græna fjármálaumgjörð, í að minnsta kosti 20% árið 2030. Það markmið var endurskoðað í byrjun árs 2024 og framvegis mun það ná til bæði grænna lána og lána sem stuðla að jákvæðri þróun samfélagsins. Á árinu hófst vinna við endurskoðun fjármálaumgjarðarinnar sem m.a. snýr að því að fella einnig undir hana lán sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif. Þeirri vinnu mun ljúka á árinu 2024.

Markmið varðandi hlutfall sjálfbærra lánveitinga verður endurskoðað árlega með tilliti til þeirra tækifæra sem gefast á næstu árum til sjálfbærrar fjármögnunar og innleiðingar á flokkunarreglugerð Evrópusambandsins hér á landi. Er það von bankans að vöxturinn geti orðið enn hraðari en markmiðið segir til um.

Frá árinu 2022 hefur Arion banki unnið að sjálfbærnistefnum fyrir þær atvinnugreinar sem hafa mest áhrif í lánveitingum með tilliti til loftslags- og umhverfissjónarmiða.

Staða: Á árinu 2023 var annars vegar birt sjálfbærnistefna í tengslum við sjávarútveg og hins vegar iðnað, orku og framleiðslu. Þar að auki var birt sjálfbærnistefna í tengslum við norðurslóðir en bankinn leggur aukna áherslu á það svæði.

Við gerð sjálfbærnistefna bankans í mismunandi atvinnugreinum leitum við álits frá hagsmunaaðilum og horfum til áætlana og aðgerða í tengslum við umhverfis- og félagsþætti og stjórnarhætti innan greinanna.

Við spyrjum okkar helstu birgja um umhverfis- og loftslagsáhrif af þeirra starfsemi.

Staða: Í birgjamati er lögð áhersla á frammistöðu birgja varðandi umhverfis- og loftslagsmál en einnig jafnréttismál og vinnurétt. Birgjamatið er lagt fyrir birgja yfir ákveðnum stærðarmörkum. Á árinu 2023 fóru 90% nýrra birgja, sem falla undir þá skilgreiningu og eru með samning við bankann, í gegnum matið. Uppfært markmið um framkvæmd birgjamats er að 90% nýrra birgja sem eru með samning við bankann hafi farið í gegnum mat á umhverfis- og loftslagsáhrifum af starfsemi þeirra og að sama hlutfall hafi samþykkt siðareglur bankans.

Markmið bankans var að meta kolefnisspor lánasafnsins til samræmis við aðferðafræði PCAF og þegar góð mynd næðist af kolefnissporinu yrðu sett markmið um hvernig draga mætti úr því til ársins 2030 í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins.

Staða: Samhliða útgáfu árs- og sjálfbærniskýrslu 2023 hefur í annað sinn verið gefin út skýrsla um fjármagnaðan útblástur samkvæmt aðferðafræði PCAF ásamt fyrstu markmiðum í tengslum við lánveitingar bankans til ársins 2030. Unnið var að því á árinu 2023 að setja fram markmiðin.

Uppfært markmið í tengslum við umhverfis- og loftslagsstefnu bankans er að stuðlað verði að samdrætti í fjármagnaðri losun í þeim atvinnugreinum sem hafa hvað mest áhrif (umfang 3) í samræmi við markmið Íslands og bankans um kolefnishlutleysi árið 2040.

Markmið í tengslum við fjármagnaðan útblástur samþykkt af Science Based Targets initiative.

Í desember 2023 undirritaði Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, skuldbindingu þess efnis að bankinn stefndi á að fá markmið í loftslagsmálum samþykkt af Science Based Targets initiative (SBTi) en til þess hefur bankinn 24 mánuði frá undirritun. Samþykki SBTi veitir staðfestingu á því að markmiðin byggist á vísindalegum grunni og séu í samræmi við sáttmála Parísarsamkomulagsins; að markmiðin stuðli að því að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráður; og að vísað sé til sviðsmynda þar sem sá árangur næst.

Bankinn var með það markmið að kaupa ekki inn bíla nema þeir noti 100% endurnýjanlega orkugjafa frá og með árinu 2023.

Staða: Á árinu 2023 voru tæp 94% allra bíla í eigu bankans annaðhvort tengiltvinnbílar eða rafmagnsbílar. Þar af voru 100% þeirra bíla, sem eru í eigu bankans og notaðir í daglegum erindagjörðum starfsfólks (innkaup, fundir o.s.frv.), tengiltvinn- eða rafmagnsbílar. Einungis einn nýr bíll var keyptur á árinu 2023 og gengur sá alfarið fyrir rafmagni. Markmiðið gekk því eftir og við höldum áfram á sömu braut.

Fyrir árið 2023 settum við markið á að koma hlutfalli flokkaðs úrgangs í rekstri bankans í 90%.

Staða: Ágætisárangur hefur náðst í flokkun hjá bankanum og hlutfall flokkaðs úrgangs í rekstri bankans hefur aukist síðustu ár. Heildarhlutfall flokkaðs úrgangs var 67,2% í lok árs 2023 og er því enn verk að vinna. Mest fór hlutfallið upp í 80,1% en það var árið 2022. Við stefnum ótrauð á 90% flokkunarhlutfall og höldum við því markmiði fyrir árið 2024.

Markmið bankans hefur verið að draga úr losun kolefnis og annarra gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi um a.m.k. 55% fyrir árið 2030 miðað við árið 2015 og kolefnisjafna alla þá losun.

Staða: Upphaflega var markmið bankans að draga úr losun vegna eigin starfsemi um 40% fyrir 2030, þ.e. vegna húsnæðis og bíla (umfang 1 og 2). Í lok árs 2020 hafði bankinn þegar dregið úr losun um 34,7% og því þótti rétt að uppfæra markmiðið og stefna á að draga úr losun um 55% fyrir árið 2030. Í lok árs 2023 var losunin 75,5% minni en á viðmiðunarárinu 2015 og því hefur metnaðurinn enn aukist. Uppfært markmið bankans er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi (umfang 1 og 2) um 80% fyrir árið 2030 m.v. árið 2015 og kolefnisjafna þá losun sem eftir stendur. Að auki ætlum við að vinna stöðugt að því að ná betur utan um losun vegna aðkeyptra vara og þjónustu (umfang 3) í starfsemi bankans.

Markmiðið verður endurskoðað árlega en ljóst er að mikill árangur hefur náðst á síðustu árum og bankinn lætur ekki staðar numið. Sjá nánari upplýsingar í umfjöllun um helstu þætti í umhverfisuppgjöri bankans fyrir árið 2023 hér fyrir neðan og í umhverfisþáttum í sjálfbærniuppgjöri.

Fjármögnuð kolefnislosun

Arion banki er aðili að Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF). Um er að ræða alþjóðlegan samstarfsvettvang fjármálafyrirtækja sem hefur það að meginmarkmiði að samræma mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda sem fjármálafyrirtæki fjármagna í gegnum lánveitingar og fjárfestingar (umfang 3). Enda þótt rekstur bankans hafi áhrif á umhverfið liggja mestu áhrif bankans í lánveitingum og eigin fjárfestingum. Þekking á kolefnisspori lánveitinga og fjárfestinga bankans er mikilvægur liður í að stýra loftslagsáhættu og markmiðasetningu í umhverfis- og loftslagsmálum.

Í skýrslu bankans um mat á fjármagnaðri losun vegna lána og fjárfestinga á árinu 2022, sem birt er samhliða árs- og sjálfbærniskýrslu 2023, kemur fram að heildarútblástur hafi dregist saman milli áranna 2021 og 2022. Við útreikninga á fjármagnaðri losun er notast við a.m.k. ársgömul gögn þar sem nýrri liggja ekki fyrir.

Fjármögnuð losun Arion banka árið 2022 vegna lánveitinga og fjárfestinga bankans var 153 ktCO2í að frátalinni losun vegna ríkisskuldabréfa. Losun vegna ríkisskuldabréfa bankans er um 149 ktCO2í í heildina en útreikningar fyrir árið 2021 sýna samdrátt um 88 ktCO2í í þeim flokki. Hins vegar jókst losun vegna útlána en engar takmarkanir vegna heimsfaraldurs voru í gildi árið 2022 og því aukin umsvif í efnahagslífinu. Jákvæð þróun var þó í losunarkræfni lánasafnsins, þ.e. losunar gróðurhúsalofttegunda á hverja milljón, en hún lækkaði um 2% milli ára. Losunarkræfni er notuð til að meta árangur samdráttar þar sem fjárhæðir geta breyst en hlutfallið helst samanburðarhæft.

Við vinnum að því að auka gagnagæði ár frá ári og með nýrri nálgun fást áreiðanlegri niðurstöður. Í ár bættust við útreikningar á kolefnisspori ríkisskuldabréfa en losun vegna þeirra vegur þungt í heildarlosun bankans. Til samræmis var fjármögnuð losun fyrir árið 2021 reiknuð aftur og eru þær niðurstöður notaðar til samanburðar til að meta árangur bankans milli ára.

Losun vegna eigin reksturs bankans (umfang 1, 2 og 3 án fjármagnaðrar losunar) árið 2022 var 574,1 tCO2í. Fjármögnuð losun bankans, að ríkisskuldabréfum undanskildum, er því 266 sinnum meiri en losun frá eigin rekstri og 524 sinnum meiri ef losun vegna ríkisskuldabréfa með landnotkun er tekin með í reikninginn.

Heildar fjármögnuð losun Arion banka árin 2021 og 2022
ktCO2í
Heildar fjármögnuð losun Arion banka árið 2022 - án ríkisskuldabréfa
ktCO2í

 

Óbein losun vegna ríkisskuldabréfa er stærsti þáttur fjármagnaðrar losunar bankans eða 148,5 ktCO2í ef losun vegna landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar er tekin með. Sé hún undanskilin er losun vegna ríkisskuldabréfa 98 ktCO2í. Af útlánum vega fyrirtækjalán langþyngst en losun vegna þeirra er 139,4 ktCO2í eða yfir 90% allrar losunar lánasafnsins. Fyrirtækjalán bankans eru greind niður á atvinnugreinar til að meta hvar mestu áhrifin liggja en virði og losun fylgjast ekki alltaf að. Til að mæla árangur í samdrætti fjármagnaðrar losunar er því horft til losunarkræfni en hún er skilgreind sem útblástur gróðurhúsalofttegunda á hverja lánaða milljón. Skipting kolefnislosunar lánasafnsins milli atvinnugreina er svipuð árin 2021 og 2022 en losunarkræfni fyrirtækjalána dróst saman um 5% frá árinu 2021 til 2022.

Bíla- og tækjalán koma næst á eftir fyrirtækjalánum í umfangi fjármagnaðrar losunar þegar kemur að lánveitingum, með losun upp á 10,5 ktCO2í, en áætluð losun vegna íbúðalána til einstaklinga er aðeins 2,5 ktCO2í þrátt fyrir að sá lánaflokkur sé um helmingur virðis lánasafnsins. Það má fyrst og fremst þakka endurnýjanlegum orkugjöfum okkar, jarðhitanum og vatnsaflinu, en mat á kolefnissporinu nær til orkunýtingar húsnæðisins.

Fjármögnuð losun Arion banka vegna fjárfestinga annarra en ríkisskuldabréfa, þ.e. skráðra og óskráðra verðbréfa, er aðeins um 0,6 ktCO2í. Flestar fjárfestingar í eignasafni samstæðunnar teljast ekki til mengandi iðnaðar. Stærsti hluti losunarinnar í þessum flokki kemur frá félögum sem stunda farþegaflutninga til og frá landinu með flugi. Aðrar atvinnugreinar, sem eiga stóran þátt í þessari losun, eru sjávarútvegur og skipaflutningar.

Markmið til ársins 2030

Arion banki hefur skuldbundið sig til að fylgja aðferðafræði Science Based Targets initiative (SBTi) við setningu markmiða um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en útreikningar samkvæmt aðferðafræði PCAF nýtast til að greina hvar helstu tækifærin liggja.

Upphæð lánveitinga breytist milli ára og því er árangur í samdrætti í fjármagnaðri losun metinn með samanburði á losunarkræfni frekar en raunlosun í lok árs. Markmið Arion banka eru byggð á markmiðum atvinnugreinanna og aðgerðaáætlun stjórnvalda sem sett eru fram til að standast skuldbindingar Parísarsamkomulagsins.

Við höfum sett okkur markmið um samdrátt í kolefniskræfni eftirfarandi atvinnugreina til ársins 2030:

  • Sjávarútvegur 28%
  • Orkuframleiðsla 30%
  • Samgöngur 28%
  • Landbúnaður 5%
  • Álframleiðsla 26%
  • Kol - viðhalda 0% (í lok árs 2023 var bankinn ekki með neina fjármögnun í kolanámum eða -vinnslu)
  • Olía - viðhalda 0% (í lok árs 2023 var bankinn ekki með neina fjármögnun í olíuleit eða -vinnslu)

Skýrsluna og ítarlega útskýringu á aðferðafræðinni má nálgast hér.

Helstu þættir umhverfisuppgjörs á rekstri Arion banka á árinu 2023

Frá árinu 2016 hefur Arion banki gert grein fyrir stöðu og aðgerðum í umhverfis- og loftslagsmálum. Viðmiðunarár umhverfisuppgjörs bankans er árið 2015 og eru uppfærð markmið okkar að draga úr losun frá eigin rekstri um að minnsta kosti 80% fyrir árið 2030 (umfang 1 og 2). Hér fyrir neðan má sjá helstu niðurstöður umhverfisuppgjörs ársins 2023 vegna reksturs bankans. Ítarlegar niðurstöður uppgjörsins má finna í sjálfbærniuppgjöri bankans undir umhverfisþáttum. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna eigin reksturs, þ.e. vegna bifreiða og húsnæðis, hefur dregist saman um 75,5% frá árinu 2015 (umfang 1 og 2). Þar af hefur heildarlosun vegna bifreiða dregist saman um 63,4% og vegna eigin húsnæðis um 86,3%.

Vel hefur gengið síðustu ár að draga úr losun í eigin rekstri með því að fækka fermetrum undir starfsemi bankans og fækka þeim bílum bankans sem ganga fyrir óendurnýjanlegum orkugjöfum. Helstu tækifærin í að draga enn meira úr losun er að hætta alfarið kaupum á eldsneyti á bíla en frá og með árinu 2023 verða ekki keyptir inn bílar í rekstri bankans nema þeir noti 100% endurnýjanlega orkugjafa.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna bifreiða (umfang 1)
tCO2í
Losun gróðurhúsalofttegunda vegna húsnæðis (umfang 2)
tCO2í

 

Þess má geta að hluti af losuninni frá eigin húsnæði hefur flust frá umfangi 2 yfir í umfang 3 þar sem bankinn hefur í sumum tilfellum selt húsnæði en leigt það aftur. Losun vegna dótturfélaganna Varðar og Stefnis, sem deila húsnæði með bankanum, er tekin með inn í útreikninga í umhverfisuppgjöri bankans og losun dótturfélaganna hefur verið dregin frá umfangi 2 og færð yfir í umfang 3. Magn úrgangs í starfsemi félaganna var reiknað út frá starfsmannafjölda og þannig má aðgreina úrgangshlutfall dótturfélaganna frá starfsemi bankans.

Heildarlosun vegna bifreiða og húsnæðis með markmiðum til ársins 2030 (án mótvægisaðgerða)
tCO2í

 

Líkt og fyrri ár fór Arion banki í mótvægisaðgerðir vegna þeirrar losunar sem ekki tókst að koma í veg fyrir á árinu frá eigin rekstri (umfang 1 og 2) og öðrum þáttum sem tengjast starfseminni (umfang 3), svo sem vegna viðskiptaferða, úrgangs og samgangna starfsfólks til og frá vinnu. Á seinni hluta ársins 2023 gerði bankinn samning við Vaxa Technologies og keypti vottaðar kolefniseiningar sem samsvara 650 tCO2í. Vaxa Technologies, sem staðsett er í jarðhitagarði ON á Hellisheiði, selur virkar kolefniseiningar sem verða til við framleiðslu á blágrænum þörungum, spirulina. Bankinn hefur auk þess styrkt Skógræktarfélag Íslands myndarlega til fjölda ára og heldur þeim stuðningi áfram.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna umfangs 3 (án mótvægisaðgerða og fjármagnaðrar losunar)
tCO2í

 

Með aukinni gagnaöflun höfum við betri upplýsingar um aðkeypta þjónustu en áður og vinnum stöðugt að því að ná betur utan um umfang 3. Á árunum 2015-2018 bættist m.a. millilandaflug, flugferðir verktaka, flug með erlendum flugfélögum, leigubílaferðir og gagnaeyðing við umhverfisuppgjör bankans sem skýrir að hluta til af hverju skráð heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna aðkeyptrar þjónustu hækkaði á tímabilinu.

Á árinu 2020 var í fyrsta skipti tekin með óbein losun frá samgöngum starfsfólks til og frá vinnu og á árinu 2022 bættist losun vegna leigðra og útleigðra eigna við umfang 3. Undir leigðar eignir í umfangi 3 fellur losun húsnæðis sem bankinn leigir fyrir starfsemi sína, svo sem útibú og starfsstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins, og þar undir fellur sömuleiðis losun sem verður vegna hraðbanka sem bankinn leigir af þjónustuaðila. Árið 2022 bættust einnig við upplýsingar tengdar aðkeyptum búnaði, þ.e. tölvum og tölvubúnaði.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða (hluti af umfangi 3)
tCO2í

 

Jákvæð þróun hefur átt sér stað í úrgangsmálum hjá bankanum á undanförnum árum þótt enn sé verk að vinna. Við höfum ekki náð markmiði okkar um 90% flokkunarhlutfall í starfseminni sem sett var árið 2019 en stefnum ótrauð áfram að sama marki. Hlutfallið hefur aukist frá 2020 en rúmlega 80% af úrgangi voru flokkuð árið 2022 og var hlutfall flokkaðs úrgangs 67,2% undir lok árs 2023. Þrátt fyrir að hlutfallið sé lægra en árið áður er þróunin jöfn og stígandi frá 2019 að árinu 2022 undanskildu.

Bankinn vinnur stöðugt að því að bæta úrgangsmálin og finna nýjar lausnir sem fela í sér endurnýtingu eða endurvinnslu. Til að mynda innleiddi bankinn í byrjun árs 2023 nýja lausn fyrir meðhöndlun á lífrænum úrgangi sem fellur til í mötuneyti höfuðstöðva bankans. Bankinn er nú með jarðgerðarvél frá Pure North í höfuðstöðvunum en vélin getur breytt lífrænum úrgangi í lífrænan áburð á aðeins 24 klukkustundum.

Magn úrgangs og flokkunarhlutfall
Tonn / %

Samgöngur starfsfólks

Arion banki er með fjarvinnustefnu fyrir starfsfólk. Stefnan kveður á um aukinn sveigjanleika varðandi viðveru á starfsstöðvum og fjölbreyttara starfsumhverfi í takt við breytta tíma. Aukin fjarvinna sparar tíma og dregur úr kolefnisspori vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu. Markviss fjarvinna er þannig til hagsbóta fyrir starfsfólk, fyrirtækið og samfélagið í heild.

Frá árinu 2021 hefur starfsfólki bankans staðið til boða að nýta sér umhverfisvænan ferðamáta sér að kostnaðarlausu. Bankinn gerði þá samning við rafskútufyrirtækið Hopp og viðtökurnar hafa verið afar góðar. Starfsfólk nýtir sér rafskúturnar til að ferðast til og frá vinnu, fara á fundi eða sinna öðrum erindum á vinnutíma. Ánægjulegt er að sjá að áhrif þessarar aðgerðar eru enn að aukast en í árslok 2023 var heildarfjöldi ferða með Hopp 11.789 talsins sem er 73% aukning frá árinu 2022.

Til að styðja við og mæta aukinni notkun rafmagns- og tengiltvinnbíla hefur rafhleðslustöðvum verið fjölgað töluvert undanfarin ár. Við höfuðstöðvar bankans í Borgartúni eru nú 54 rafhleðslustöðvar sem bæði starfsfólk og viðskiptavinir geta nýtt sér.

Í byrjun árs 2024 var gerð könnun meðal starfsfólks varðandi ferðavenjur til og frá vinnu þá daga sem starfsfólk mætti á starfsstöðvar. KPMG sá um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu gagna en annar umsjónaraðili hefur séð um framkvæmd könnunarinnar síðastliðin ár. Breytt aðferðafræði getur því haft áhrif á samanburð á milli ára.

Niðurstöðurnar sýna að heildarlosun vegna samgangna starfsfólks til og frá vinnu árið 2023 var 269 tCO2í og fellur sú losun undir umfang 3 í umhverfisuppgjöri bankans. Meðallosun á hvern starfsmann vegna samgangna á árinu 2023 var 331 kgCO2í sem er 15% meira en árið áður.

Ferðamáti starfsfólks
%

 

71,3% starfsfólks notuðu fyrst og fremst einkabílinn til að komast til og frá vinnu, 19,8% nota rafhjól, hjóla eða ganga og 8,9% nota almenningssamgöngur. Jákvætt er að sjá að fleira starfsfólk nýtir sér aðra ferðamáta en einkabílinn til og frá vinnu samanborið við fyrri ár.

Af þeim sem ferðast til vinnu á einkabíl eru 26,8% starfsfólks á rafmagnsbílum og vex það hlutfall jafnt og þétt á milli ára. 23,8% starfsfólks aka um á tvinnbílum eða tengiltvinnbílum en aðeins örfáir eða 0,4% aka um á metanbílum. Samtals eru þessir aflgjafar því 51,0% en dísil- og bensínbílar 49,0%. Er þetta í fyrsta sinn síðan bankinn hóf að gera samgöngukannanir meðal starfsfólks sem hlutfall þeirra, sem aka um á bílum sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti, mælist lægra en hlutfall þeirra sem aka um á bílum sem ganga fyrir umhverfisvænni orkugjöfum.

Bílar starfsfólks - aflgjafar
%

Lykiltölur

 

85%

Samdráttur á heildarmagni
prentaðs pappírs

63,4%

samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda vegna  bifreiða í rekstri

269 tCO2

heildarlosun vegna
ferðamáta starfsfólks

86,3%

samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda vegna húsnæðis

650 

vottaðar kolefniseiningar
keyptar fyrir losun ársins 2023

331 kgCOí

meðallosun starfsfólks vegna samgangna
til og frá vinnu

Gögn og upplýsingar í umhverfisuppgjörinu gilda fyrir árið 2023 og tengjast meginstarfsemi Arion banka. Gögn sem tengjast dótturfélögum bankans þar sem þau deila húsnæði með bankanum hafa verið færð undir losun vegna útleigðra eigna (umfang 3). Gögn frá árunum 2015-2022 eru sett fram til samanburðar en árið 2015 er viðmiðunarár bankans þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi bankans.

Í umhverfisuppgjöri bankans hefur náðst góður árangur í að afla gagna til þess að ná utan um losun gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af starfseminni. Jafnt og þétt hefur umfang útreikninganna aukist milli ára en með bættri aðferðafræði og breyttri nálgun er takmarkið að ná sem heildstæðastri mynd. Hafa skal í huga að nýr aðili kom að uppgjörinu í ár en reynt var eftir fremsta megni að skila samanburðarhæfum niðurstöðum.

Sjá nánari upplýsingar í umhverfisuppgjöri bankans.

Aðferðafræði við umhverfisuppgjör

Við útreikninga á umhverfisuppgjöri Arion banka er stuðst við The Greenhouse Gas Protocol sem er stöðluð aðferðafræði sem innleidd hefur verið af fjölda fyrirtækja um heim allan með góðum árangri. Arion banki hefur lagt áherslu á að loftslagsverkefnið sé unnið innan ramma þeirra innlendu og alþjóðlegu laga og reglugerða sem snúa að umhverfismálum.

Á myndinni hér fyrir neðan er aðferðafræðinni lýst en samkvæmt henni er gert ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda eigi sér stað í þremur þrepum. Í megindráttum myndast losun vegna flutnings á aðföngum til fyrirtækis, vegna eigin starfsemi fyrirtækis og vegna flutnings á vörum og þjónustu frá fyrirtæki. Þrepin innihalda þrjár tegundir umfangs sem skiptast í bein og óbein áhrif.

Heimild: The Greenhouse Gas Protocol