Ávarp stjórnarformanns

Eftir nokkuð kröftugan hagvöxt tók að hægja á vexti í íslensku hagkerfi á árinu 2023. Segja má að eitt helsta verkefni ársins hafi verið að ná niður verðbólgu sem engin bönd virtust halda. Seðlabankinn hækkaði vexti ítrekað og stóðu stýrivextir í árslok í 9,25%, sem hefur komið illa við heimilin og fyrirtækin í landinu. Það var því jákvætt þegar hægja tók á hagvexti, einkaneyslu og umsvifum almennt á árinu, í takt við markmið Seðlabankans. Að auki er óhætt að segja að eldgos og jarðhræringar á Reykjanesskaga hafi sett mark sitt á árið – og geri enn. Ef að líkum lætur þá verða jarðhræringar á Reykjanesi  hluti af tilveru okkar Íslendinga næstu ár og jafnvel áratugi en sem betur fer búum við vel þegar kemur að reynslu og þekkingu vísindafólks á þessu sviði enda hafa eldgos verið nokkuð tíð síðustu áratugina. Minni umsvif í hagkerfinu og hátt vaxtastig hafa eðlilega haft áhrif á rekstur bankans en hann gekk engu að síður mjög vel á árinu. Bankinn stendur sterkur í lok árs með 24,1% eiginfjárhlutfall og 12,4% vogunarhlutfall. Eigið fé bankans nam 199 milljörðum króna í árslok og námu arðgreiðslur til hluthafa 12,4 milljörðum króna á árinu. Hlutfall eiginfjárþáttar 1 var 19,7% í árslok.

Stjórnarformaður Arion banka

Brynjólfur Bjarnason

Arðsamur rekstur

Við höfum á síðustu árum tekið markviss skref til að auka skilvirkni í starfsemi bankans og má segja að þær skipulags- og stefnubreytingar, sem ráðist var í undir lok árs 2019, hafi markað viss tímamót á þeirri vegferð. Breytingarnar tóku mið af þeim styrkleikum og því hugarfari sem einkennt hefur Arion banka og fyrirrennara hans. Þær fólu því ekki í sér að kollvarpa stefnu bankans heldur fremur í því að skerpa sýnina þegar kemur að styrkleikum okkar og hefð. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og hefur arðsemi Arion banka síðustu þrjú ár verið yfir 13% arðsemismarkmiði okkar og bankinn skilað meiri arðsemi eigin fjár en helstu keppinautar. Þessi góði árangur hefur orðið til þess að síðustu þrjú ár hefur Arion banki verið útnefndur banki ársins á Íslandi af hinu virta fjármálatímariti The Banker, sem gefið er út af The Financial Times.

Fjölbreytt fjármálaþjónusta

Eitt af því sem við höfum lagt áherslu á undanfarin ár er að breikka vöruframboð bankans með því að samþætta betur þjónustu Arion banka og Varðar trygginga, dótturfélags bankans, en fyrir var sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir mikilvægur þáttur í þjónustuframboði okkar. Kostir þessa eru annars vegar heilsteyptara þjónustuframboð fyrir einstaklinga, fyrirtæki og fjárfesta og hins vegar fjölbreyttari tekjumyndun bankans. Breið tekjumyndun felur í sér vörn gegn sveiflum í spurn eftir einstaka þjónustuþáttum og er því skilvirk áhættustýring.

Leiðandi í fyrirtækjaþjónustu

Við höfum á síðustu árum jafnframt náð fram aukinni samlegð í fyrirtækjaþjónustu okkar en það var einmitt markmiðið með sameiningu fyrirtækjasviðs bankans og fjárfestingarbankasviðs á árinu 2019. Lykillinn að bættri fyrirtækjaþjónustu felst í aukinni samvinnu sérfræðinga okkar á því sviði, ekki aðeins sérfræðinga innan fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs heldur einnig innan annarra sviða bankans og hjá dótturfélögum okkar, Verði og Stefni. Náið samstarf banka og tryggingafélags þegar kemur að fyrirtækjatryggingum er skref sem ekki hefur verið stigið áður hér á landi og hefur skilað okkur miklum árangri.

Óhætt er að segja að þessar breytingar á sviði fyrirtækjaþjónustu hafi skilað margvíslegum árangri. Meðal annars hefur Arion banki undanfarin ár verið í sérflokki þegar kemur að nýskráningum í kauphöll. Á síðasta ári kom bankinn að skráningu Arnarlax, Hampiðjunnar, Kaldalóns og Ísfélagsins og ef horft er til síðustu tíu skráninga í kauphöll þá hefur Arion banki komið að níu þeirra.

Árangur á krefjandi mörkuðum

Arion banki hefur nú átta ár í röð verið í fyrsta sæti þegar kemur að hlutdeild á hlutabréfamarkaði Nasdaq Iceland. Var bankinn með tæplega 20% af heildarveltu hlutabréfamarkaðarins á árinu 2023. Bankinn var einnig með mestu hlutdeild markaðsaðila á First North markaðnum, 24,9%, og næstmestu veltu markaðsaðila á skuldabréfamarkaði Nasdaq Iceland.

Á árinu 2023 sáum við einnig jákvæða þróun hvað varðar spurn eftir þjónustu okkar á sviði lífeyrismála. Við höfum undanfarin ár lagt mikla áherslu á að gera lífeyrismál viðskiptavina okkar aðgengileg í Arion appinu og gefa þeim þannig aukna yfirsýn yfir þennan mikilvæga þátt fjármála og fjárhagslegs heilbrigðis. Auk þess að fá góða yfirsýn yfir lífeyrissparnað í appinu geta viðskiptavinir nú gert samning um lífeyrissparnað ásamt því að framkvæma allar helstu aðgerðir á einfaldan hátt. Fjöldi nýrra samninga um viðbótarlífeyrissparnað í appinu á árinu 2023 var vel umfram væntingar okkar.

Eignir í stýringu hjá Arion banka námu í árslok um 1.383 milljörðum króna og jukust um 85 milljarða á árinu.

Best í að mæta þörfum viðskiptavina okkar

Á árinu settum við okkar þá skýru framtíðarsýn að verða best í að mæta þörfum viðskiptavina okkar. Við viljum vera leiðandi fyrirtæki og drifkraftur árangurs viðskiptavina okkar og samfélagsins alls. Við viljum vera fyrsti kostur einstaklinga, fyrirtækja og fjárfesta. Reyndar er það oft svo að einn og sami einstaklingur gegnir öllum þessum hlutverkum; er í senn hluti af fjölskyldu og fyrirtæki og stundar fjárfestingar. Þannig viljum við mæta fjölbreyttum þörfum athafnasamra einstaklinga betur en keppinautar okkar gera og þar gegnir fjölbreytni þjónustunnar og greitt aðgengi að henni lykilhlutverki.

Í raun eru ekki mörg fjármálafyrirtæki í Evrópu sem bjóða jafn fjölbreytta fjármálaþjónustu og Arion banki og dótturfélög gera, hvað þá ef horft er til þess hluta þjónustunnar sem nú stendur viðskiptavinum okkar til boða í gegnum stafrænar þjónustuleiðir. Viðskiptavinir geta sinnt nær öllum daglegum fjármálum í appinu og netbanka og auk þess skipulagt sparnað, haft yfirsýn yfir lífeyrismálin og stundað verðbréfaviðskipti. Ein nýjasta viðbótin í appinu felst einmitt í því að nú er auðvelt fyrir þau sem eru í fyrirtækjarekstri að skipta á milli sýnar á persónulegu fjármálin annars vegar og fjármál fyrirtækisins hins vegar.

Samkeppnishæfni byggð á breiðum grunni

Umhverfi fjármálafyrirtækja er síkvikt. Samkeppnin kemur úr ýmsum áttum, bæði frá innlendum og erlendum aðilum. Hér á landi hafa ný fjármálafyrirtæki skotið upp kollinum í netheimum og náð eftirtektarverðum árangri. Það getur verið flókið fyrir rótgróinn banka að bregðast við slíkri samkeppni en við erum þó sannfærð um að fjölbreytt þjónustuframboð okkar og sá árangur sem við höfum náð á sviði stafrænnar þjónustu skili sér í sterkri samkeppnisstöðu. Um 190 þúsund einstaklingar eru í viðskiptasambandi við Arion banka og dótturfélög og er markmið okkar að nýta þessa styrkleika til að efla sambandið enn frekar í allra þágu.

Sjálfbær verðmætasköpun

Á árinu skilgreindum við hlutverk okkar sem er að liðsinna þeim sem vilja ná árangri á Íslandi og víðar á norðurslóðum með snjöllum og traustum fjármálalausnum sem efla fjárhagslegt heilbrigði og stuðla að sjálfbærri verðmætasköpun. Við viljum vera traustur samstarfsaðili og hafa jákvæð áhrif á það samfélag sem við störfum í og umhverfi okkar og loftslag.

Sjálfbærni er hluti af stjórnskipulagi bankans og fellur undir ábyrgðarsvið stjórnar og bankastjóra. Í þessari Árs- og sjálfbærniskýrslu birtum við eins og undanfarin ár ítarlegar sjálfbærniupplýsingar í takt við lög og reglur, leiðbeinandi tilmæli Nasdaq og Global Reporting Initiative (GRI) og tökum jafnframt fyrstu skrefin í átt að upplýsingagjöf í samræmi við ESRS staðalinn, European Sustainability Reporting Standard. Staðallinn er hluti af kröfum sem munu fylgja væntanlegri innleiðingu á tilskipun um sjálfbærniupplýsingagjöf stórra og/eða skráðra fyrirtækja (CSRD) hér á landi. Einnig er horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, tíu grundvallarviðmiða Global Compact og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð, sem bankinn á aðild að. Líkt og síðastliðin ár birtum við upplýsingar um stöðu bankans vegna innleiðingar okkar á meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible Banking (PRB). Þá birtum við skýrslu um fjármagnaða kolefnislosun bankans og okkar fyrstu loftslagsmarkmið henni tengd til ársins 2030.

Aðild að SBTi og Net-Zero Banking Alliance

Arion banki hefur skuldbundið sig til að fylgja aðferðafræði Science Based Targets initiative (SBTi) við setningu vísindalegra loftslagsmarkmiða í tengslum við lánveitingar og fjárfestingar bankans. Jafnframt hefur bankinn undirritað aðild að Net-Zero Banking Alliance, samtökum banka á alþjóðavísu undir hatti Sameinuðu þjóðanna, sem vilja skara fram úr í loftslagsmálum. Mun bankinn vinna að því að fá mælanleg loftslagsmarkmið samþykkt af SBTi innan tveggja ára. Markmiðin miða að því að hækkun á hitastigi jarðar fari ekki umfram 1,5 gráður og að Arion banki verði kolefnishlutlaus árið 2040.

Aðild að bæði Net-Zero Banking Alliance og SBTi felur í sér mikilvægt skref á sjálfbærnivegferð bankans. Það hvernig bankar stýra og miðla fjármagni getur haft afgerandi áhrif á framgang sjálfbærrar þróunar í hverju landi fyrir sig og á heimsvísu. Í umhverfis- og loftslagsstefnu Arion banka kemur fram að bankinn vilji leggja sitt af mörkum til að Ísland nái kolefnishlutleysi árið 2040 og er þetta liður í því að styðja við íslenskt samfélag í að ná þeim markmiðum.

Ríkið er stærsti þátttakandinn á íslenskum fjármálamarkaði

Íslensk stjórnvöld eru enn stærsti gerandinn á íslenskum fjármálamarkaði. Þrátt fyrir að skref hafi verið tekin til að minnka eignarhlut stjórnvalda í fjármálafyrirtækjum þarf að ganga enn lengra því það er hvorki eðlileg né skynsamleg staða að íslenska ríkið eigi að fullu einn af þremur stærstu bönkum landsins og stóran hlut í öðrum. Það er mikilvægt fyrir þróun skilvirks fjármálamarkaðar að ríkið haldi áfram á þeirri braut að draga úr umsvifum sínum. Við það eykst tiltrú og fjárfesting erlendra fjárfesta sem gagnast öllum íslenska hlutabréfamarkaðnum.

Ég ítreka jafnframt þá skoðun mína að stjórnvöld þurfi að jafna samkeppnisstöðu innlendra banka gagnvart erlendum bönkum sem sækjast eftir viðskiptum íslenskra fyrirtækja. Erlendir samkeppnisaðilar íslenskra fjármálafyrirtækja búa við lægri skatta, lægri kröfur um eigið fé og minna íþyngjandi fjármálaeftirlit.

Traustur grunnur og skýr framtíðarsýn

Eftir að hafa setið í áratug í stjórn Arion banka og þar af gegnt stjórnarformennsku síðastliðin fimm ár, tel ég rétt að láta gott heita. Það hefur verið afar ánægjulegt að taka þátt í vegferð bankans sem hefur tekið miklum breytingum á þessum tíu árum. Rekstur bankans hefur gengið vel og efnahagur hans er traustur. Ég er sannfærður um að Arion sé afar vel í stakk búinn að takast á við áskoranir framtíðarinnar  stoðirnar eru traustar og framtíðarsýnin skýr.

Ég þakka hluthöfum bankans fyrir traustið. Starfsfólki Arion, stjórn og viðskiptavinum þakka ég ánægjulegt og árangursríkt samstarf.