Hagsmunaaðilar

Viðskiptavinir Arion banka, hluthafar bankans og skuldabréfaeigendur, mannauðurinn okkar og samfélagið í heild eru helstu hagsmunaaðilar okkar. Við hjá Arion banka gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að taka tillit til mismunandi þarfa þessara hópa og að skilja hvað skiptir þá mestu máli.

Tvöföld mikilvægisgreining

Í ár tók bankinn fyrstu skref sín í innleiðingu á ESRS-staðlinum, European Sustainability Reporting Standard. Staðallinn er hluti af kröfum væntanlegrar innleiðingar á tilskipun um sjálfbærniupplýsingagjöf stórra og/eða skráðra fyrirtækja (CSRD) í íslenskan rétt. Í fyrsta sinn birtum við því tvöfalda mikilvægisgreiningu í tengslum við staðalinn. Niðurstöður greiningarinnar voru fengnar með því að taka viðtöl við hagaðila, gera könnun meðal starfsfólks og halda vinnustofur. Greiningin var unnin í samstarfi við KPMG á Íslandi. Vísað er til ESRS-staðalsins að hluta í umhverfisuppgjöri bankans en innleiðingu á staðlinum er hvergi nærri lokið.

Í greiningunni var litið til fjárhagslegs mikilvægis annars vegar og mikilvægis fyrir samfélag og umhverfi hins vegar, það er út frá helstu tækifærum og áhættum í starfsemi bankans og áhrifum á samfélagið og umhverfi.

Hér fyrir neðan má sjá helstu niðurstöður tvöföldu mikilvægisgreiningarinnar.

Niðurstöður mikilvægisgreiningar

Nánari upplýsingar um tengingu mikilvægisgreiningarinnar við ESRS-staðal Evrópusambandsins er að finna hér.

Viðskiptavinir

Arion banki starfrækir 13 útibú um land allt, ásamt þjónustuveri. Í höfuðstöðvum bankans starfar samhentur hópur sérfræðinga sem veitir einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum sérhæfða ráðgjöf sem og almenna fjármálaþjónustu. Um 99% af öllum samskiptum okkar við viðskiptavini fara nú fram í gegnum stafrænar þjónustuleiðir bankans. Arion appið, netbankinn og vefur bankans eru aðgengileg allan sólarhringinn alla daga ársins.

Með því að bjóða upp á alhliða fjármálaþjónustu og tryggingar fyrir einstaklinga, fyrirtæki og fjárfesta geta viðskiptavinir okkar fengið heildstæða yfirsýn yfir öll sín fjármál á einum stað. Þannig mætum við ólíkum þörfum og nýtum um leið sérþekkingu okkar svo að viðskiptavinir nái sem mestum árangri.

Við viljum að upplifun viðskiptavina okkar sé einstök og á árinu unnum við að nýjum þjónustuviðmiðum sem eru vegvísir okkar við veitingu og þróun þjónustunnar og mikilvægur hlekkur í því að verða best í að mæta þörfum markhópa okkar. Þau eru skrifuð frá sjónarhorni viðskiptavina og lýsa því hvernig við viljum að þeir upplifi þjónustu okkar.

Til að skilja og mæta þörfum viðskiptavina skráum við niður ábendingar og hrós og framkvæmum kannanir meðal viðskiptavina á ánægju þeirra og upplifun. Niðurstöðurnar nýtum við með markvissum hætti til að þróa þjónustu okkar. Á árinu 2023 tókum við á móti 7.672 hugmyndum og ábendingum frá viðskiptavinum sem nýttar eru í starfi okkar. Sjöunda árið í röð mælist Arion appið besta íslenska bankaappið að mati notenda samkvæmt könnun Maskínu. Þá er appið einnig talið það besta af viðskiptavinum annarra banka. Appið er opið öllum sem eru með rafræn skilríki, óháð því hvort viðkomandi er í reglulegum viðskiptum við Arion banka eða ekki. Allir sem eru með appið geta stofnað reikninga, byrjað reglulegan sparnað, keypt tryggingar, átt í verðbréfaviðskiptum og skoðað lífeyriseign sína. Þá mældumst við í öðru sæti í Íslensku ánægjuvoginni árið 2023 í flokki banka en mælingin byggist á ánægju viðskiptavina. Við höldum áfram að einfalda fjármál viðskiptavina og finna nýjar leiðir til að mæta auknum kröfum.

Á síðustu árum höfum við unnið markvisst að því að efla okkar fjölbreyttu þjónustuleiðir og auðvelda viðskiptavinum að nálgast okkur og þá þjónustu sem við bjóðum. Nýtt þjónustuverskerfi var tekið í notkun á haustmánuðum en með kerfinu styrkist þjónustan enn frekar, verður bæði hraðari og skilvirkari. Bankinn starfrækir nú svikavakt sem aðstoðar þá viðskiptavini, sem lenda í óprúttnum aðilum, á og utan opnunartíma. Þar að auki fá eldri borgarar forgang á þjónustu bankans en sérstök lína sinnir þörfum eldri kynslóðarinnar og er mikil ánægja með það fyrirkomulag. Sífellt fleiri viðskiptavinir nýta sér netspjall og er spjallmenni Arion alltaf til staðar og svarar spurningum viðskiptavina allan sólarhringinn. Spjallmennið nær að svara og klára um 60% samtala sem viðskiptavinir hefja, ókláruðum samtölum er vísað á þjónusturáðgjafa. Einnig hafa tækninýjungar eins og rafrænir fundir með þjónusturáðgjöfum bankans auðveldað fólki, ekki síst á landsbyggðinni, að sækja þjónustu með þægilegum hætti.

Samstarf Arion banka, Stefnis og Varðar óx og dafnaði á árinu og sífellt fleiri viðskiptavinir kjósa að vera með bankaviðskipti sín og tryggingar á einum og sama staðnum. Fram undan eru spennandi tímar í samstarfi félaganna og mikil tækifæri eru fólgin í að bjóða viðskiptavinum – fyrirtækjum, fjárfestum og heimilum – upp á heildstæða og framúrskarandi banka- og tryggingaþjónustu.

Mannauður

Markmið Arion banka er að halda í og laða að framúrskarandi starfsfólk og efla það í faglegum og persónulegum vexti. Við viljum skapa jákvætt og hvetjandi starfsumhverfi og styðja við starfsfólk.

Við framkvæmum reglulega vinnustaðagreiningar og ánægju- og viðhorfskannanir meðal starfsfólks. Niðurstöður sýna að Arion er öflugur vinnustaður og að þar starfa öflugir stjórnendur. Starfsfólk er hvatt til að taka ábyrgð á eigin þróun, þekkingu og hæfni og er áhersla lögð á góð samskipti.

Á árinu 2023 var áfram lögð mikil áhersla á fræðslu starfsfólks, bæði rafræna fræðslu og reglubundin fræðsluerindi þar sem starfsfólk bankans deilir þekkingu sinni og reynslu. Við innleiddum fræðslukerfi sem bíður upp á leikvæðingu við kennslu á kerfum fyrirtækisins sem bætir færni starfsfólks enn frekar. Auk þess var boðið upp á svokallað mentorprógramm, nýliðaprógramm og leiðtogaþjálfun – allt er það liður í að gera góðan vinnustað enn betri.

Bankinn hefur sett sér skýra stefnu í jafnréttis- og mannréttindamálum og sett fram aðgerðaáætlun í jafnréttismálum. Eitt af markmiðum bankans er að óútskýrður launamunur kynjanna séu undir 1% en viðhaldsúttekt jafnlaunavottunar á árinu sýndi 0,2% launamun og erum við afar stolt af þeim góða árangri sem náðst hefur á þessu sviði.

Nánari upplýsingar um mannauðsmál bankans

Hluthafar og skuldabréfaeigendur

Fjárfestatengsl bankans sérhæfa sig í samskiptum við hluthafa, skuldabréfafjárfesta, greinendur og aðra markaðsaðila. Fjármögnunarstefna Arion banka styður við stefnu og ímynd bankans og felur í sér að bankinn ætlar að vera leiðandi útgefandi á Íslandi með ríka áherslu á góð samskipti við innlenda og erlenda markaðsaðila, öfluga upplýsingagjöf og gott lánshæfismat óháðra aðila. Haldnir eru reglulegir fundir með fjárfestum og sinnir bankinn upplýsingagjöf á afkomukynningum, markaðsdögum, ýmsum ráðstefnum, fyrir útgáfu skuldabréfa og við önnur tilefni.

Aðalfundur er að jafnaði haldinn í marsmánuði ár hvert. Aðalfundur (eða hluthafafundur) er einn helsti vettvangur fyrir hluthafa bankans til að hafa áhrif á stjórnun bankans. Á aðalfundi fer m.a. fram kjör á stjórn og endurskoðendum og kosið er um mál sem hluthafar eða stjórn hafa lagt fyrir fundinn.

Allar viðeigandi markaðsupplýsingar eru birtar í kauphallartilkynningum og ef um innherjaupplýsingar er að ræða eru þær birtar samkvæmt gildandi lögum og reglum.

Ársfjórðungslega skipuleggur bankinn fundi fyrir markaðsaðila í tengslum við uppgjör bankans þar sem bankastjóri, fjármálastjóri og aðrir stjórnendur kynna árshlutauppgjör bankans. Bankinn stefnir að því að halda markaðsdag fyrir hluthafa og markaðsaðila annað hvert ár og er slíkur viðburður næst áformaður þann 1. mars 2024.

Nánar um fjárfestatengsl

Samfélagið í heild

Arion banki er stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða og samfélagsábyrgð og sjálfbærni bankans snýr að ábyrgum rekstri og jákvæðum áhrifum á samfélagið og umhverfi, m.a. með innkaupum bankans, lánveitingum til viðskiptavina og fjárfestingum fyrir þeirra hönd.

Í allri ákvarðanatöku metum við þá margvíslegu hagsmuni sem undir liggja og horfum til langs tíma ekki síður en skamms og leggjum mat á þann ávinning og þá áhættu sem ákvarðanir og lánveitingar fela í sér. Á hverju ári komum við að fjölda spennandi fjárfestingarverkefna með viðskiptavinum okkar, m.a. með það að markmiði að efla atvinnu- og viðskiptalíf hér á landi.

Nánari upplýsingar um ábyrga bankastarfsemi