Helstu atburðir

Margt dró til tíðinda á árinu og gekk starfsemi bankans vel. Nýtt skipurit tók gildi hjá Arion banka og félögin sem mynda samstæðuna efldu samstarf sitt enn frekar með það að markmiði að veita viðskiptavinum betri þjónustu.

Skipulagsbreytingar innan Arion samstæðunnar

Nýtt skipurit tók gildi hjá Arion banka í október þegar stofnað var nýtt svið sem nefnist rekstur og menning. Markmið breytinganna er aukið samstarf stoðsviða, aukin skilvirkni í rekstri, markviss stýring umbreytingarverkefna og enn skýrari áhersla á þjónustu og upplifun viðskiptavina, auk þess sem sviðið mun gegna lykilhlutverki í áframhaldandi þróun og mótun fyrirtækjamenningar Arion banka.

Birna Hlín Káradóttir, sem gegnt hafði starfi yfirlögfræðings Arion banka frá árinu 2019, tók við starfi framkvæmdastjóra rekstrar og menningar.

Arion banki stærstur á hlutabréfamarkaði Nasdaq Iceland áttunda árið í röð

Á árinu 2023 var Arion banki með mestu heildarveltu á hlutabréfamarkaði NASDAQ Iceland, eða 19,7% markaðshlutdeild. Er þetta áttunda árið í röð sem bankinn er með mestu hlutabréfaveltu allra markaðsaðila. Var bankinn jafnframt með næstmestu veltu markaðsaðila á skuldabréfamarkaði Nasdaq Iceland á árinu, eða 18,5%, og einnig með mestu hlutdeild markaðsaðila á First North markaðnum, eða 24,9%.

Arion banki var enn fremur með forystu þegar kom að nýskráningum í kauphöll og kom að skráningu Arnarlax, Hampiðjunnar, Kaldalóns og Ísfélagsins.

Besta bankaappið sjöunda árið í röð

Arion appið var valið besta bankaappið af viðskiptavinum bankanna sjöunda árið í röð í könnun MMR. Ýmsar nýjungar og uppfærslur litu dagsins ljós í appinu og nýtt viðmót fyrir kortaupplýsingar einstaklinga var kynnt ásamt margvíslegri nýrri virkni í tengslum við kredit- og debetkort. Einnig geta lögaðilar nú átt viðskipti með hlutabréf og sjóði í bæði appi og netbanka.

Vörður og Arion saman á Selfossi

Arion banki og Vörður tryggingar, dótturfélag bankans, héldu áfram að þróa samstarf sitt á sviði bankaþjónustu og trygginga. Vörður opnaði þjónustuskrifstofu í útibúi Arion á Selfossi á árinu. Þar er nú að finna alla trygginga- og fjármálaþjónustu félaganna undir einu og sama þaki og hefur samstarfið þar farið vel af stað.

Konur fjárfestum

Konur fjárfestum er langtíma átaksverkefni á vegum Arion banka þar sem markmiðið er að efla konur í fjárfestingum. Grunnur að verkefninu var lagður á árinu 2023 þegar Arion banki ákvað að leggja sérstaka áherslu á að jafna þátttöku kynjanna á fjármálamarkaði.

Verkefninu var formlega ýtt úr vör 4. janúar 2024 með fjölsóttum opnunarviðburði. Strax í kjölfarið var auglýsingaherferð ýtt úr vör, nýtt vefsvæði opnað, fyrstu fræðsluviðburðir haldnir og fleiri auglýstir. Óhætt er að fullyrða að viðtökurnar hafi verið góðar og spennandi verður að fylgja verkefninu eftir og birta fyrstu niðurstöður að ári.

Frá opnunarviðburði átaksins Konur fjárfestum.

Úrræði vegna eldsumbrota í Grindavík

Í nóvember bauð Arion banki Grindvíkingum, í kjölfar jarðhræringa í nágrenni bæjarins, að frysta íbúðalán sín hjá bankanum vegna húsnæðis í Grindavík í þrjá mánuði auk þess sem bankinn felldi niður vexti og verðbætur lánanna á tímabilinu. Í ljósi áframhaldandi jarðhræringa hefur bankinn boðið Grindvíkingum að frysta íbúðalán sín hjá bankanum í þrjá mánuði til viðbótar og mun jafnframt fella niður vexti og verðbætur lánanna til aprílloka. Bankinn mun áfram fylgjast grannt með stöðu mála í Grindavík og leggja sitt af mörkum til að styðja við samfélagið þar.

Lánshæfiseinkunn frá Moody‘s

Matsfyrirtækið Moody‘s gaf Arion banka á árinu lánshæfiseinkunn sem útgefanda sértryggðra skuldabréfa í evrum, sem er þremur þrepum fyrir ofan einkunn íslenska ríkisins. Það eru frábær tíðindi sem munu greiða leið bankans að stærri hópi skuldabréfafjárfesta.

Áframhaldandi sjálfbærnivegferð Arion

Bankastjóri Arion banka, Benedikt Gíslason, skrifaði undir yfirlýsingu tæplega 80 forstjóra norrænna fyrirtækja innan Global Compact, samtaka SÞ um ábyrga viðskiptahætti, þar sem lýst er yfir stuðningi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og markmið Parísarsamkomulagsins og hvatt til frekari aðgerða í loftslagsmálum svo þau markmið náist. Yfirlýsingin var birt í tengslum við COP28, aðildarríkjafund og ráðstefnu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Á árinu 2023 birti Arion banki sjálfbærnistefnur í tengslum við lánveitingar bankans í mismunandi atvinnugreinum (í sjávarútvegi; í iðnaði, orku og framleiðslu) og á norðurslóðum. Stefnurnar eru í takt við áherslur bankans og skuldbindingar á sviði sjálfbærni.

Í árslok 2023 skuldbatt Arion banki sig til að fá markmið í loftslagsmálum samþykkt af Science Based Targets initative (SBTi). Markmiðin miða að því að hækkun á hitastigi jarðar fari ekki umfram 1,5°C og að bankinn stefni á kolefnishlutleysi. Samþykki frá SBTi staðfestir að loftslagsmarkmið bankans séu byggð á vísindalegum grunni og séu í samræmi við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins.

Arion banki varð enn fremur aðili að Net-Zero Banking Alliance (NZBA), samtökum banka á alþjóðavísu undir hatti UNEP FI, í árslok 2023. Um er að ræða samtök banka sem vilja skara fram úr í loftslagsmálum.

Mikilvægir áfangar í uppbyggingu Blikastaðalands

Sá mikilvægi áfangi náðist á árinu að skipulagsnefnd Mosfellsbæjar samþykkti að heimila skipulagsfulltrúa bæjarins að hefja undirbúning vinnu við mótun fyrsta áfanga deiliskipulags að Blikastöðum. Skipulagssvæði fyrsta áfanga er u.þ.b. 30-35 hektarar að stærð og liggur upp að núverandi byggð. Áhersla verður lögð á samspil byggðar og náttúru, fjölbreyttar samgöngur, blágrænar ofanvatnslausnir, gæði byggðar og samfélags og aukinn líffræðilegan fjölbreytileika grænna svæða. Gert er ráð fyrir á bilinu 1.200-1.500 íbúðum sem skiptast munu í sérbýli, einbýlis-, par-, raðhús og fjölbýli eftir aðstæðum í landi og nálægð þeirra við helstu samgönguæðar. Undirbúningur deiliskipulagsins tekur mið af rammaskipulagi landsins og frumdrögum nýs aðalskipulags.

Blikastaðaland er u.þ.b. 98 hektarar og er stærsta óbyggða landsvæði höfuðborgarsvæðisins. Landið er í eigu Arion banka í gegnum félagið Blikastaðaland ehf. Gert er ráð fyrir að fjöldi íbúða verði í heild um 3.700, blanda fjölbýlis og sérbýlis, að viðbættum 150 íbúðum fyrir 55 ára og eldri, skóla, íþróttaaðstöðu og allt að 66.000 m2 atvinnuhúsnæði. Í allri hönnun verður tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og byggðin vistvottuð samkvæmt BREEAM vistvottunarkerfinu. Samkomulag við Mosfellsbæ felur í sér að Blikastaðaland ehf. taki þátt í uppbyggingu innviða svæðisins.

Ný stefna

Stjórn Arion banka samþykkti nýja stefnu, ný gildi og þjónustuviðmið. Stefnan endurspeglar áherslu Arion á að vera drifkraftur árangurs viðskiptavina okkar, á Íslandi og víðar á norðurslóðum, með því að bjóða fjölbreyttar og snjallar fjármálalausnir sem efla fjárhagslegt heilbrigði og stuðla að sjálfbærri verðmætasköpun.

Nánar má lesa um stefnu og framtíðarsýn Arion banka hér.

Efnahagur

Eignir bankans jukust um 4,1% á árinu 2023 og námu í árslok 1.526 milljörðum króna. Lán til viðskiptavina jukust um 6,3% á árinu. Hækkun á lánum til fyrirtækja var 8,2% og 4,6% á lánum til einstaklinga, einkum íbúðalán.

Arion banki nýtur sterkrar lausafjárstöðu sem er tilkomin vegna fjármögnunar á heildsölumarkaði auk þess sem innlán frá viðskiptavinum jukust um 4,9%, úr 755 milljörðum króna í 793 milljarða króna.

Í maí 2023 gaf Arion banki út almenn skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir evra til þriggja ára. Skuldabréfin bera 7,25% fasta vexti sem jafngilda 407 punkta álagi yfir millibankavöxtum í evrum. Samhliða útgáfunni tilkynnti Arion banki um endurkaupatilboð til eigenda 300 milljóna evra skuldabréfaútgáfu bankans sem er á gjaldaga í maí 2024 og bárust gild tilboð að fjárhæð 220,4 milljónir evra sem voru öll samþykkt.

Arion banki lauk í nóvember útboði á nýjum verðtryggðum flokki almennra skuldabréfa. Nýi flokkurinn ARION 28 1512 fékk góðar viðtökur og voru seld bréf fyrir 8,7 milljarða króna á ávöxtunarkröfunni 4,40%. Flokkurinn er verðtryggt vaxtagreiðslubréf með vaxtagreiðslum tvisvar á ári. Lokagjalddagi er 15. desember 2028.

Arion banki hélt áfram útgáfu sinni á sértryggðum skuldabréfum á innlendum markaði. Á árinu 2023 voru gefin út sértryggð skuldabréf fyrir 44,4 milljarða króna (þar af voru 22,6 milljarðar króna til eigin nota).

Eigið fé bankans nam 199,3 milljörðum króna í árslok 2023 og jókst um 11,3 milljarða króna á árinu. Breytinguna má einkum skýra með afkomu ársins sem nam 25,7 milljörðum króna en til lækkunar koma kaup á eigin hlutum og arðgreiðsla, samtals að fjárhæð 15,6 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall bankans var 24,1% í árslok, hækkaði úr 24,0% í árslok 2022. Hins vegar hækkaði hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 hjá bankanum úr 18,8% í 19,7% á árinu.

Viðurkenningar

Hið virta fjármálatímarit The Banker, sem gefið er út af The Financial Times, valdi Arion sem banka ársins á Íslandi árið 2023. Er þetta þriðja árið í röð sem Arion banki hlýtur nafnbótina.

Arion banki fékk í lok árs 2023 uppfærðar niðurstöður úr UFS-áhættumati alþjóðlega matsfyrirtækisins Sustainalytics sem sérhæfir sig í mati á áhættu fyrirtækja þegar kemur að umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum. Niðurstaðan er jákvæð og er bankinn að mati Sustainalytics áfram í hópi þeirra banka sem standa hvað fremst í þessum málum á heimsvísu.

Arion banki hlaut einnig framúrskarandi einkunn í UFS-áhættumati Reitunar í desember 2023 og er í flokki A3. Matið byggist á árangri bankans á sviði umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta. Bankinn viðhélt 90 stigum af 100 mögulegum og hélt því í við auknar kröfur sem gerðar eru í matinu milli ára. Níutíu stig er mesti fjöldi stiga sem Reitun hefur gefið og er bankinn í hópi þriggja annarra útgefanda sem eru í flokknum A3. Um fjörutíu íslenskir útgefendur hafa verið metnir.

Þann 22. ágúst fengu Arion banki, Vörður og Stefnir endurnýjaða viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Það eru Stjórnvísi, Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland sem veita viðurkenningarnar.

Arion banki var fyrstur fyrirtækja á Íslandi til að fá vottun á stjórnkerfi öryggismála samkvæmt nýjustu útgáfu ISO27001 staðalsins.

Félag viðskipta- og hagfræðinga (FVH) útnefndi Ernu Björgu Sverrisdóttur, aðalhagfræðing Arion banka, hagfræðing ársins 2023.

Fréttir ársins 2023