Einstaklings­þjónusta

Arion banki veitir einstaklingum vandaða og fjölbreytta fjármálaþjónustu hvar og hvenær sem er. Flestir viðskiptavinir bankans kjósa að sinna fjármálum sínum með því að nota appið, netbankann og aðrar stafrænar lausnir en aðrir kjósa að koma í bankann eða hringja í þjónustuver. Vörður tryggingar og Stefnir eru dótturfélög bankans og náið samstarf innan Arion samstæðunnar gerir viðskiptavinum kleift að fá heildræna fjármálaþjónustu, ýmist í útibúum bankans eða eftir stafrænum þjónustuleiðum þar sem leitast er við að upplifun viðskiptavina sé eins þægileg og skilvirk og kostur er. Bankinn setur umhverfismál í brennidepil og kemur það fram í grænu vöruframboði okkar: grænum innlánum, grænum sjóðum, grænum bílalánum og grænum íbúðalánum. Á árinu 2023 starfrækti Arion þrettán útibú auk þjónustuvers.

Þægilegri fjármálaþjónusta

Fjármálaþjónusta fyrir einstaklinga hefur gjörbreyst á skömmum tíma. Nú geta viðskiptavinir bankans nýtt sér stafrænar lausnir til að sinna öllum helstu fjármálum sínum milliliðalaust þegar þeim hentar. Við hvetjum viðskiptavini okkar engu að síður til að þiggja fjármálaráðgjöf hjá ráðgjöfum okkar í eigin persónu í bankanum eða á fjarfundi ef fólk vill spara sér ferðina. Síðarnefndi valkosturinn hefur vakið mikla ánægju enda felur hann í sér talsverðan tímasparnað fyrir viðskiptavini okkar.

Arion hefur aukið vöruframboð sitt markvisst á síðustu árum og býður nú heilsteypta þjónustu þegar kemur að fjármálum einstaklinga, hvort sem þjónustan snýr að bankaþjónustu, tryggingum eða fjárfestingum, s.s. sjóðum eða lífeyrisvörum. Allt er það gert til að bæta hag viðskiptavina okkar og auðvelda þeim lífið. Þá fær starfsfólk bankans fræðslu allan ársins hring svo að það geti betur upplýst viðskiptavini um alla þætti þjónustunnar og bætt gæði hennar. Hlutverk útibúa felst í sívaxandi mæli í því að aðstoða viðskiptavini þegar kemur að stórum ákvörðunum, s.s. varðandi íbúðalán og lífeyrismál, og veita þeim yfirsýn yfir fjármál sín. Ráðgjafar okkar hafa einnig í auknum mæli samband við viðskiptavini að fyrra bragði og benda þeim á skynsamlegar leiðir til að gæta fjárhagslegra hagsmuna sinna.

Arion banki fylgir verklagsreglum um ábyrga vörustjórnun. Við vöruþróun eru hagsmunir viðskiptavina ævinlega hafðir að leiðarljósi og tryggt eins og kostur er að þeir fái vörur og þjónustu við sitt hæfi. Þróun á verklagsreglum bankans hélt áfram á árinu og leggur bankinn sérstakan metnað í að standa vel að allri vörustjórnun.

Yfir 70% af sölu bankans fara fram í stafrænum lausnum. Samanburðarrannsóknir við erlenda banka hafa sýnt að Arion banki skipar sér í fremstu röð á heimsvísu hvað þetta varðar. Þá var Arion appið besta bankaappið á Íslandi sjöunda árið í röð að mati viðskiptavina allra bankanna, samkvæmt könnun MMR.

Arion Premía er þjónusta þar sem sérstaklega er haldið utan um þarfir umsvifamikilla viðskiptavina bankans. Markmiðið er að tryggja að þessi hópur viðskiptavina, sem er með umtalsverð innlán hjá bankanum og/eða verðbréf í vörslu hans, njóti góðra kjara og bestu mögulegu þjónustu hverju sinni. Á árinu fjölgaði Premíu viðskiptavinum bankans og hefur mælst mikil ánægja með þjónustuna og hún spurst vel út.

Verðtryggðum íbúðalánum fjölgar

Hækkandi vaxtastig hefur dregið úr spurn eftir íbúðalánum á sama tíma og eftirspurnin hefur færst frá óverðtryggðum íbúðalánum yfir í verðtryggð. Hlutfall verðtryggðra lána þegar horft er til nýrra íbúðalána hefur því hækkað og nam 70% árið 2023 samanborið við 46% árið á undan og 17% árið þar á undan.

Við leitumst stöðugt við að þróa þjónustuna og kynna til leiks spennandi nýjungar og voru nokkrar slíkar kynntar á árinu. Helst ber þar að nefna að nú stendur viðskiptavinum til boða greiðsluþak á óverðtryggð íbúðalán. Þegar greiðsluþak er sett á lán greiðir lántaki um tólf mánaða bil fasta fjárhæð sem er lægri en mánaðarleg greiðsla samkvæmt skilmálum lánsins. Mismunurinn er svo lagður við höfuðstól lánsins sem hækkar fyrir vikið lánið og eykur greiðslubyrði þegar tímabili greiðsluþaksins lýkur. Greiðsluþakinu er ætlað að koma til móts við þann hóp sem vill halda íbúðaláni sínu óverðtryggðu en jafnframt lækka greiðslubyrði tímabundið á meðan vaxtastig er hátt.

Lánstími íbúðalána með fasta verðtryggða vexti var styttur úr fimm árum í þrjú. Markmiðið með styttingu lánstímans er að höfða betur til þeirra sem vilja ekki festa vexti lengi.

Einnig voru gerðar breytingar á greiðsluleyfi íbúðalána. Lántaki getur nú kosið að sleppa einum gjalddaga hvenær sem er ársins en vaxtagreiðslur og verðbætur bætast við höfuðstól.

Breytt vaxtastig hefur mikil áhrif á viðskiptavini Arion banka, ekki síst þá sem tekið hafa íbúðalán með hárri greiðslubyrði. Það gefur auga leið að heimili landsins eru í misgóðri aðstöðu til að standa undir snarpri hækkun greiðslubyrðar. Til að búa heimilin undir aukna greiðslubyrði hefur verklagi í kringum tilfærslu af föstum vöxtum yfir á breytilega verið breytt. Nú fá viðskiptavinir tölvupóst þremur mánuðum áður en vextir breytast í breytilega og enn fremur berast skilaboð í app og netbanka einum mánuði áður en vextir breytast. Þá hafa ráðgjafar okkar samband við viðskiptavini og aðstoða þá ef þess gerist þörf. Vænt greiðslubyrði að loknu tímabili með föstum vöxtum er enn fremur birt í Arion appinu í því skyni að upplýsa fólk um við hverju það má búast.

Ný íbúðalán
Milljarðar króna

 

Vegna náttúruhamfara í Grindavík ákvað bankinn undir lok árs að koma til móts við viðskiptavini og felldi niður vexti og verðbætur af húsnæðislánum í þrjá mánuði auk þess að frysta afborganir. Það úrræði var framlengt í janúar 2024 um þrjá mánuði til viðbótar.

Aukin samkeppni og breytingar á kortamarkaði

Á árinu 2023 urðu töluverðar breytingar á kortamarkaði með innkomu nýrra aðila sem bjóða greiðslukort og tengda þjónustu, að mestu án beinnar gjaldtöku. Þetta leiddi til þess að hlutdeild bankans á debetkortamarkaði gaf lítillega eftir. Hins vegar hefur hlutdeild á kreditkortamarkaði aukist og er það m.a. í takt við áherslu bankans á að þjóna sérstaklega umsvifamiklum og kröfuhörðum viðskiptavinum. Samhliða styður bankinn við ungt fólk með því að innheimta hvorki árgjöld né færslugjöld af debetkortum hjá þeim sem eru 23 ára og yngri.

Á haustmánuðum kynntum við til leiks nýja kortavöru sem nefnist Netkort. Kortið er fyrirframgreitt og eingöngu ætlað til notkunar í netviðskiptum. Með þessari þjónustu er verið að koma til móts við þá korthafa sem ekki vilja nota aðalkort sitt í viðskiptum á netinu. Netkortið er frítt og var mikil ásókn í það í kringum stóru netverslunardagana í nóvember.

Kortaveltan, sem náði nýjum hæðum á árinu 2022 eftir að kórónuveirufaraldrinum lauk, gaf nokkuð eftir árið 2023 sé miðað við raunvirði en stóð í stað í krónum talið. Netverslun nóvembermánaðar var svipuð og árið 2022.

Því miður jukust kortasvik á árinu. Bankinn hefur brugðist við með ýmsum hætti og t.a.m. innleitt strangari stýringar, aukna upplýsingagjöf til viðskiptavina og verið með starfsfólk á kvöld- og helgarvöktum.

Rafrænt umsóknarferli bílalána

Markaðshlutdeild Arion banka í bílalánum hefur aukist verulega undanfarin ár og má rekja þennan góða árangur til rafrænna lausna í umsóknarferli og þjónustu sem mætir vel þörfum viðskiptavina. Umsóknarferli bílalána er nánast 100% rafrænt, allt frá umsókn til útgreiðslu lána, og hefur það mælst vel fyrir hjá viðskiptavinum.

Ný bílalán til einstaklinga
Milljarðar króna

86% skammtímalána samþykkt sjálfvirkt

Mikil áhersla er lögð á að spara viðskiptavinum alla óþarfa fyrirhöfn þegar þeir taka skammtímalán á borð við yfirdrátt og núlán og óska eftir kreditkortaheimildum. Nú eru 86% slíkra lána veitt sjálfvirkt og hefur það hlutfall aldrei verið hærra. Þetta leysir viðskiptavini undan því að bíða eftir svari þar sem lánið er samþykkt samstundis. Mikil ánægja hefur verið með þessa þróun. Vanskil skammtímalána hafa ekki hækkað mikið á undanförnum misserum þrátt fyrir krefjandi aðstæður í samfélaginu.

Samstarfið við Leiguskjól hefur gengið mjög vel. Leiguskjól er ungt fyrirtæki sem heldur úti leiguvef sem hjálpar leigutökum að finna íbúðir þar sem ekki er gerð krafa um tryggingafé á bankabók að fullu. Samstarfið við Leiguskjól snýr að húsaleiguábyrgðum og er gott dæmi um vel heppnað samstarf við sprotafyrirtæki sem skapar ávinning fyrir alla þá sem hlut eiga að máli – viðskiptavini, bankann og sprotafyrirtækið – og er í anda þeirrar opnu og gagnsæju bankastarfsemi sem Arion banki vill ástunda. Leiguskjól er nú með yfir tvö þúsund og fimm hundruð virkar húsaleiguábyrgðir í nafni bankans.

Tryggingar í þjónustuleiðum Arion banka

Viðskiptavinir geta nálgast tryggingar Varðar eftir þjónustuleiðum Arion banka og Varðar. Hefur það samstarf skilað afar góðri sölu á tryggingum. Útibú Arion banka gegna þar lykilhlutverki þar sem starfsfólk Arion banka býður viðskiptavinum að fá tilboð í tryggingarnar sínar. Viðskiptavinir Arion banka geta nú einnig fengið tilboð í tryggingar í Arion appinu. Er það mikilvægur hluti af fjármálaþjónustu Arion og hefur skilað sér í bættri upplifun meðal viðskiptavina Arion og Varðar sem hafa nú yfirsýn yfir fjármál sín og tryggingar í einu og sama appinu.

Á árinu opnaði Vörður þjónustuskrifstofu í útibúi Arion banka á Selfossi og er það þriðja útibú bankans sem býður upp á alhliða tryggingaþjónustu. Samstarf Arion og Varðar tryggir að viðskiptavinir geti nálgast alla fjármála- og tryggingarþjónustu á einum stað og þannig sparað sér sporin.

Innlán halda áfram að aukast

Áframhaldandi hækkun stýrivaxta á árinu leiddi til vaxtahækkana hjá viðskiptabönkunum. Þessi þróun hefur aukið samkeppni um innlán til muna og er það neytendum til hagsbóta.

Á árinu kynnti Arion banki, fyrstur fjármálafyrirtækja, verðtryggðan sparnaðarreikning („Vöxtur – verðtryggður“) með 90 daga úttektarfyrirvara í stað þriggja ára fyrirvara sem áður var. Mæltist þessi nýjung vel fyrir hjá viðskiptavinum enda stytti bankinn binditíma innlánanna verulega.

Vitundarvakning varð á árinu meðal viðskiptavina um kosti þess að hafa fjármuni sína á sparnaðarreikningum í stað veltu- og launareikninga. Bundnir reikningar voru í sókn enda með hæstu vexti á markaði. Til dæmis jukust innstæður á Vöxtur – 30 dagar um 50% á árinu og innstæður á verðtryggðum reikningum hækkuðu um 30% á árinu. Einnig margfölduðust innstæður á Vöxtur – fastir vextir sem hafa 3-12 mánaða bindingu.

Þá hefur fjárhæðaþrepareikningurinn Vöxtur – óbundinn haldið áfram að vera vinsæl innlánavara meðal einstaklinga.