Dóttur- og eignaumsýslufélög

Arion banka samstæðan samanstendur af móðurfélaginu Arion banka og dótturfélögunum Stefni, Verði tryggingum og Leiguskjóli. Dótturfélögin Vörður og Stefnir gegna mikilvægu hlutverki í þjónustuframboði bankans og framtíðarstefnu og eru til húsa í höfuðstöðvum Arion banka. Saman bjóða Arion banki og dótturfélög viðskiptavinum sínum heildstæða fjármálaþjónustu í gegnum fjölbreyttar og þægilegar þjónustuleiðir. Eignaumsýslufélagið Landey er í eigu Arion banka og var stofnað utan um yfirteknar eignir.

Dótturfélög

Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag sem býður þægilega tryggingaþjónustu fyrir heimili og fyrirtæki með ánægju viðskiptavina að leiðarljósi. Þegar áföll verða þá stöndum við með viðskiptavinum okkar.

Viðskiptavinum Varðar hélt áfram að fjölga á árinu og eru þeir nú liðlega 67.000, þar af eru fyrirtæki um 6.400, en markvisst hefur verið unnið að stækkun á hlut fyrirtækja í tryggingastofninum. Á sama tíma jukust tekjur af vátryggingum umtalsvert eða um 15%, sem styður við markmið félagsins um vöxt og aukna markaðshlutdeild sem var komin í um 18,5% i lok september.

Sjálfbærni og samfélagsábyrgð

Markmið Varðar er að bjóða viðskiptavinum viðeigandi vátryggingavernd á samkeppnishæfu verði. Jafnframt að rekstur félagsins sé til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi, og er ekki eingöngu horft til fjárhagslegra markmiða sem tengjast arðsemi og hagkvæmni, heldur einnig til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta.

Í sjálfbærnimálum er unnið eftir stefnu sem mótuð er til þriggja ára í senn. Stefnan kveður á um vilja félagsins til að vinna af heilindum að sjálfbærnimálum og hafa jákvæð áhrif á hagaðila með því að gæta að beinum og óbeinum umhverfis- og félagslegum áhrifum í starfsemi sinni og styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Umhverfisþættir

Vörður hefur á síðustu árum lagt áherslu á að halda umhverfisáhrifum af starfsemi sinni í lágmarki. Félagið horfir til skuldbindinga Íslands við Parísarsáttmálann. Losun hvers árs er kolefnisjöfnuð hjá Kolviði, en um er að ræða losun vegna eldsneytisnotkunar, rafmagnsnotkunar, vatnsdreifingar, flugs, úrgangs, aðfanga og ferða starfsfólks til og frá vinnu og á vinnutíma.

Félagslegir þættir

Samfélagsábyrgð Varðar grundvallast á því að starfa af heilindum til hagsbóta fyrir alla hagaðila, eins og viðskiptavini, starfsfólk, eigendur og samfélagið í heild. Félagið sinnir þessu hlutverki með því meðal annars að fara fram með góðu fordæmi hvað jafnrétti, sanngirni og mannréttindi varðar og hvetja aðra, svo sem birgja og aðra hagaðila, til hins sama.

Áhersla er og verður á forvarnir. Með markvissu forvarnarstarfi stuðlar Vörður að því að fækka slysum og tjónum hjá viðskiptavinum og í samfélaginu í heild. Vörður vinnur út frá því markmiði að vera fremst í forvörnum á íslenskum tryggingamarkaði með áherslu á öryggi, heilsu og umhverfi. Með því að virkja starfsfólk í þátttöku forvarnarstarfs og innleiða forvarnir og öflugt áhættumat í ferla félagsins færumst við í átt að settum markmiðum. Vörður leggur áherslu á náið samstarf í öryggismálum við fyrirtæki.

Stjórnarhættir

Stjórnarháttum Varðar er ætlað að stuðla að opnum og traustum samskiptum stjórnar, hluthafa, viðskiptavina og annarra hagaðila félagsins. Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að ábyrgri stjórnun og ákvarðanatöku, með það að markmiði að skapa samfélagsleg verðmæti.

Rekstrarafkoma

Rekstur Varðar gekk í meginatriðum vel á árinu 2023. Markmið um vöxt, aukna markaðshlutdeild, aukinn hlut fyrirtækja í stofninum og rekstrarkostnað undir 20% náðust. Þá var 2,3 milljarða viðsnúningur í fjárfestingatekjum.

Veðurfarslegar aðstæður geta haft mikil áhrif á afkomu vátryggingafélaga. Einkum á það við um fjölda og alvarleika umferðatjóna en válynd veður geta einnig leitt af sér fleiri tjón á fasteignum og á það jafnt við um heimili og atvinnuhúsnæði. Fyrstu mánuðir liðins árs voru einkar erfiðir veðurfarslega þar sem snjóþungi, frosthörkur og að endingu asahláka ollu álagi á bæði bíla og fasteignir. Lagnir í sumarhúsum eru t.d. viðkvæmar fyrir kuldatíð. Að öðru leyti settu húsbrunar mark sitt á árið sem margir hverjir leiddu til hárra bótagreiðslna. Tjón vegna bruna á árinu voru margfalt hærri en sést hefur áður hjá Verði og að svo stöddu lítum við svo á að um einstakt ár hafi verið að ræða en ekki vísbendingu um nýjan veruleika. Eftir afar erfitt ár á fjármálamörkuðum 2022 varð góður viðsnúningur í afkomu á því sviði þrátt fyrir að árið hafi verið sveiflukennt.

Heildarfjöldi tilkynntra tjóna var liðlega 24 þúsund á árinu og fjölgaði þeim um 1.500 á milli ára. Á sama tíma jókst tjónakostnaður um 18%, sem má eins og áður segir fyrst og fremst rekja til brunatjóna.

Verkefnin fram undan

Nýr forstjóri tók til starfa á árinu og hefur í kjölfarið verið unnið að endurskipulagningu á ýmsum þáttum í starfsemi Varðar. Breytingar hafa orðið á stjórnendahópi félagsins og hefur Vörður nú á að skipa hópi starfsfólks sem í sameiningu hefur mikla þekkingu á tryggingum en einnig reynslu af öðrum sviðum sem kemur sér vel fyrir félagið. Vörður er því vel í stakk búinn til að mæta áskorunum framtíðarinnar, sem verða án efa fjölbreyttar og spennandi.

Framtíðarhorfur

Stefnumótun til næstu ára byggist á þeirri sýn að Vörður verði besti kostur viðskiptavina þegar kemur að vörum og þjónustu á tryggingamarkaði. Lykilþættir í stefnunni eru framúrskarandi þjónusta við viðskiptavini, vöruval sem mætir þörfum þeirra og sanngjörn verðlagning. Leiðir að markmiðinu felast í samstarfi við móðurfélagið Arion banka og aðra aðila um vöruframboð, nýsköpun og ekki síst forvarnir, sem eru afar mikilvægt samfélagsmál.

Stefnir hf. er eitt elsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins. Stefnir byggir á farsælli og verðmætri sögu og hefur skapað virði með viðskiptavinum sínum í áratugi. Stefnir hefur verið leiðandi í vöruþróun á sjóðastýringarmarkaði og náð árangri með ábyrgum hætti fyrir viðskiptavini sína með sterkri liðsheild og teymisvinnu. Félagið er að fullu í eigu Arion banka og tengdra félaga og starfsstöðvar félagsins eru til húsa í höfuðstöðvum bankans. Eignir í stýringu félagsins eru rúmir 247 milljarðar króna og eru í eigu fjölbreytts hóps fjárfesta, allt frá einstaklingum upp í stærstu fagfjárfesta landsins. Í árslok 2023 voru 24 starfsmenn hjá Stefni.

Eignir í virkri stýringu lækkuðu á árinu um 13 milljarða króna eða úr tæpum 260 milljörðum króna í rúma 247 milljarða króna. Lækkunin skýrist bæði af neikvæðri ávöxtun og útflæði úr sjóðum sem rekja má til óvissu á mörkuðum. Dreifing eignaflokka í stýringu er góð og tekjusamsetning félagsins í samræmi við markmið stjórnar.

Vöruþróun og áfangar á árinu

Stefnir stýrir fjármunum fyrir hönd viðskiptavina sinna og leggur ríka áherslu á að gera það með ábyrgum og gagnsæjum hætti. Á árinu seldi SÍA III, sérhæfður sjóður í rekstri Stefnis, allan eignarhlut sinn í íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Men & Mice til alþjóðlega félagsins BlueCat Networks. SÍA III átti hlut sinn í gegnum MM Holdings ehf. en sjóðurinn keypti 93% hlut í félaginu árið 2019. Þessir ánægjulegu áfangar leiða til lækkunar á eignum í stýringu hjá Stefni.

SÍL 2 hs., nýr lánasjóður í rekstri Stefnis, kláraði fyrstu innköllun frá fjárfestum á árinu með útgáfu skuldabréfs sem skráð var á First North. Áskriftarloforð sjóðsins eru 7 milljarðar króna. Sjóðurinn starfar á lánamarkaði til innlendra lögaðila og ávaxtar fjármuni með útgáfu skuldabréfs. Stefnir telur að eignaflokkurinn muni stækka nokkuð á næstu misserum.

Á árinu var tekinn saman fjármagnaður útblástur gróðurhúsalofttegunda frá eignum sjóða í rekstri Stefnis og birt skýrsla þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um losunarkræfni hverrar milljónar sem fjárfest hefur verið fyrir í tilteknum sjóðum. Aðferðafræðin sem notuð er við útreikninginn byggist á aðferðafræði Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF), alþjóðlegs samstarfsvettvangs fjármálafyrirtækja sem hefur það meginmarkmið að samræma mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda.

Ábyrgar fjárfestingar og hlutverk Stefnis

Hlutverk Stefnis er að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Ábyrgar fjárfestingar, fjölbreyttir fjárfestingarkostir og ítarleg upplýsingagjöf eru lykilatriði við framkvæmd þeirrar samfélagsábyrgðar sem Stefnir vill standa fyrir. Með því að taka tillit til umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta hefur Stefnir jákvæð áhrif á samfélag sitt, eigendur í sjóðum og aðra haghafa.

Stjórn Stefnis hefur sett félaginu stefnu um ábyrgar fjárfestingar og er stöðugt unnið að innleiðingu hennar í fjárfestingaferla og við samval fjárfestinga. Vöruþróun felst að miklu leyti í að bjóða ábyrga fjárfestingarkosti í takt við óskir viðskiptavina okkar.

Stjórn Stefnis hefur tileinkað sér góða stjórnarhætti og einsett sér að stuðla að og styðja við ábyrga hegðun og fyrirtækjamenningu innan Stefnis, til hagsbóta fyrir alla hagaðila félagsins. Stefnir var fyrst íslenskra félaga til að hljóta nafnbótina fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum árið 2012 og hefur viðhaldið þeirri stöðu allar götur síðan.

Leiguskjól ehf. er fjártæknifélag sem býður viðskiptavinum sínum húsaleiguábyrgðir frá Arion banka auk annarrar virðisaukandi þjónustu og rekur einnig leiguvefinn www.myigloo.is. Arion banki á 51% hlut í Leiguskjóli ehf.

Leiguskjól er gott dæmi um samstarfsaðila sem bankinn hefur valið að starfa með og styður við þjónustu bankans. Leiguskjól tók þátt í Startup Reykjavík hraðlinum árið 2018. Þar hófst fjárfesting bankans í félaginu þegar bankinn eignaðist 6% hlut. Á árinu 2019 gerði bankinn samstarfssamning við félagið ásamt því að auka við fjárfestingu sína í félaginu og á bankinn nú 51% hlut. Fjárfestingin og samstarfssamningurinn við Leiguskjól eru liður í áherslu bankans á aukið samstarf við fjártæknifélög þar sem markmiðið er meðal annars að nýta grunnstoðir bankans og tengja við þá einurð og kraft sem felst í frumkvöðlastarfi.

Eignaumsýslufélag

Landey ehf. er fasteignaþróunarfélag í eigu Arion banka hf. Landey hefur frá stofnun árið 2009 komið að eignarhaldi á ýmsum fasteignum og þróunarverkefnum. Núverandi eignir félagsins eru lóðir og fasteignir á Blikastaðalandi, við Þrastarhöfða í Mosfellsbæ, 51% eignarhlutur í Arnarneshálsi í Garðabæ og lóð og verksmiðjuhúsnæði í Helguvík.

Markmið félagsins er að auka verðmæti eigna sinna með áframhaldandi þróun og uppbyggingu þessara svæða.