Konur fjárfestum - vertu með!

Þátttaka á fjármálamarkaði er mikilvæg leið til að hafa áhrif í samfélaginu, samfara því að byggja upp eigin framtíð. Þrátt fyrir að mikill árangur hafi náðst í jafnréttismálum hér á landi á undanförnum árum og áratugum er staða kynjanna þegar kemur að fjármálamarkaði ekki jöfn.

Konur fjárfestum er langtíma átaksverkefni þar sem markmið Arion banka er að efla konur í fjárfestingum. Grunnur að verkefninu var lagður á árinu 2023 eftir að Arion banki ákvað að leggja sérstaka áherslu á að jafna þátttöku kynjanna á fjármálamarkaði.

Unnið var að því að kortleggja stöðu kynjanna á fjármálamarkaði á árinu 2023, bæði út frá opinberum gögnum og út frá gögnum bankans. Tekin voru djúpviðtöl við konur með það að markmiði að greina þær hindranir sem konur standa frammi fyrir og finna hvaða nálgun á viðfangsefnið skorti helst. Sambærilegum verkefnum hefur verið ýtt úr vör á öðrum Norðurlöndum með góðum árangri og eftir skoðun á þeim var ákveðið að leita eftir frekari upplýsingum frá DNB banka í Noregi sem unnið hefur þrekvirki með sínu verkefni á síðustu árum. Ljóst var strax í upphafi að nálgunin yrði hvatning, fræðsla og samfélagsátak.

Verkefninu var formlega ýtt úr vör 4. janúar 2024 með fjölsóttum opnunarviðburði. Strax í kjölfarið hófst auglýsingaherferð, nýtt vefsvæði var opnað, fyrstu fræðsluviðburðir haldnir og fleiri auglýstir ásamt því að umræðuhópar voru leiddir saman. Óhætt er að fullyrða að viðtökurnar hafi verið góðar og spennandi verður að fylgja verkefninu eftir og birta fyrstu niðurstöður að ári.

Arion banki vill taka sér skýrt hlutverk í þeirri vegferð sem fram undan er. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynjanna felur í sér skýra kröfu um jafna þátttöku kynja á fjármálamarkaði og fjárhagslegt sjálfstæði hverrar konu.

Markmið og mælikvarðar

Möguleikar einstaklinga og heimila til að auka við sig í sparnaði og fjárfestingu fylgja að einhverju leyti stöðu hagkerfisins á hverjum tíma og eru því sveiflukenndir. Markmið verkefnisins Konur fjárfestum stuðlar að því að jafna aðkomu kynjanna að fjármálamarkaði. Til að það náist þurfa konur að auka við fjárfestingu sína umfram karlmenn.

Í því skyni hafa verið sett fram mælanleg markmið til að tryggja að átakið skili tilætluðum árangri. Markmiðin eru sett til þriggja ára í senn og snúa m.a. að hvatningu, fræðslu um fjármál og aukningu í fjárfestingum kvenna umfram karla. Til viðbótar eru svo mælikvarðar til skemmri tíma sem tryggja að átakið sé á réttri leið.

Markmið:
  • að halda 40 fræðsluviðburði á árinu 2024;
  • að aukning eigna á vörslusöfnum kvenna hjá Arion banka verði tvöföld á við aukningu á vörslusöfnum karla á næstu þremur árum;
  • að aukning eigna í sjóðum kvenna hjá Stefni verði tvöföld á við aukningu eigna í sjóðum karla á næstu þremur árum.
Mælikvarðar:
  • aukning í fjölda vörslusafna í eigu kvenna;
  • aukning í eign á vörslusöfnum kvenna;
  • aukning í fjölda sjóðaviðskipta kvenna;
  • aukning í eign í sjóðum kvenna;
  • aukning í reglubundnum sparnaði kvenna.

Á nýju vefsvæði átaksins má finna tölfræði um stöðuna ásamt ítarlegri fræðslu og upplýsingagjöf um fjárfestingar, áhugaverð viðtöl við konur úr atvinnulífinu og yfirlit yfir fræðslufundi og viðburði tengda verkefninu. Þétt dagskrá um land allt, með fræðslufundum ásamt markvissu samtali við ýmsa faghópa kvenna um verkefnið og leiðina að markmiðunum, er hluti af þeirri vegferð að auka fjárhagslegt sjálfstæði kvenna og þar með jafnrétti kynjanna í samfélaginu. Sjá nánari upplýsingar hér.

Konur telja sig hafa minni þekkingu á sínum lífeyrismálum en karlar

Í könnun sem Gallup framkvæmdi á árinu 2023 um lífeyrismál kom fram að konur telja sig almennt hafa verri þekkingu á eigin lífeyrismálum en karlar. Samkvæmt niðurstöðum telja 44% kvenna sig hafa litla þekkingu á sínum lífeyrismálum en 34% karla telja sig hafa litla þekkingu á sínum lífeyrismálum.

Heimild: Gallup

Munur á lífeyri kynja

Konur verða 26 árum lengur en karlar að safna nægjanlegum lífeyri til þess að þurfa ekki að reiða sig á greiðslur frá Tryggingastofnun við starfslok. Konur sem eru fæddar árið 1984 munu, skv. rannsókn Talnakönnunar, ekki þurfa að reiða sig á ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun. Hins vegar munu karlar ná þeim áfanga mun fyrr eða þeir sem fæddir eru árið 1958.

Heimild: Rannsókn talnakönnunar, unnin fyrir Landssamtök lífeyrissjóða

Fjármagnstekjur kvenna eru að aukast

Konur hafa sótt í sig veðrið í fjárfestingum en undanfarin ár hafa fjármagnstekjur kvenna, sérstaklega í yngri aldurshópum, verið að aukast. Árið 2022 var hækkun fjármagnstekna kvenna mjög áberandi en þá hækkuðu þær um 23% frá fyrra ári. Á sama tíma hækkuðu fjármagnstekjur karla um 13%. Mesta hækkunin var hjá konum á aldrinum 16-19 ára þar sem fjármagnstekjur hækkuðu um 103%.

Heimild: Hagstofa Íslands

Þegar kemur að þátttöku á hlutabréfamarkaði er skipting kynjanna 70/30

Þegar kemur að þátttöku á hlutabréfamarkaði er skipting kynjanna í Kauphöll Íslands um 70/30 körlum í hag. Þessi dreifing hefur lítið breyst undanfarin ár.

Heimild: Kauphöll Íslands

Konur eiga um 42% af allri eign í viðbótar-lífeyrissparnaði hjá Arion

Hlutdeild kvenna í viðbótarlífeyrissparnaði Arion er um 42% og hefur aukist lítið undanfarin ár. Hlutdeild kvenna á aldrinum 19-30 ára hefur aukist hvað mest eða um 3 prósentustig frá árinu 2019.

Heimild: Arion banki

Konur hafa sótt í sig veðrið varðandi verðbréfaeign

Konur hafa aukið við sig í verðbréfaeign, umfram karlmenn, þegar horft er til síðastliðinna þriggja ára. Með sama áframhaldi eru þó um 70 ár í að konur og karlar taki til jafns þátt í verðbréfamarkaði.

Heimild: Arion banki

Eitt þeirra heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, sem Arion banki hefur gert að sínu, er markmið 5 sem kveður á um að jafnrétti kynjanna verði tryggt og völd allra kvenna og stúlkna efld. Ein grundvallarforsenda þess að efla völd kvenna og stúlkna og tryggja jafnrétti kynjanna er að byggja undir fjárhagslegt sjálfstæði kvenna. Hnykkt er á þessu í undirmarkmiði 5a þar sem lögð er áhersla á að tryggja konum jafnan rétt á sviði efnahagsmála og aðgengi að fjármálaþjónustu. Einn helsti drifkraftur verkefnisins er að virkja konur til að taka þátt í umræðu um fjárfestingar og lífeyrismál. Á árinu 2023 stóð Arion banki fyrir eða kom að alls tíu viðburðum fyrir konur þar sem fjallað var um fjárfestingar, lífeyrissparnað og jafnrétti, við góðar undirtektir.