Fjármögnun og lausafjárstaða

Á árinu 2023 hélt bankinn áfram að vinna að aukinni fjölbreytni fjármögnunarkosta, meðal annars með útgáfu almennra skuldabréfa í krónum og nýju lánshæfismati á sértryggðum skuldabréfum frá Moody´s. Nýja lánshæfismatið er hæsta lánshæfiseinkunn íslensks útgefanda og má segja að það séu ákveðin tímamót að Arion banki fái einkunn sem er þremur þrepum hærri en lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins

Skuldabréfaútgáfur á erlendum mörkuðum

Í maí 2023 gaf Arion banki út almenn skuldabréf að upphæð 300 milljónir evra til þriggja ára. Skuldabréfin bera 7,25% fasta vexti sem jafngilda 407 punkta álagi yfir millibankavöxtum í evrum. Sterk eftirspurn var eftir skuldabréfunum frá fjölbreyttum hópi fjárfesta á alþjóðlegum skuldabréfamarkaði. Í heild bárust tilboð fyrir rúmlega 600 milljónir evra frá yfir 70 fjárfestum frá meira en 15 löndum í Evrópu og Asíu. Samhliða útgáfunni tilkynnti Arion banki um endurkaupatilboð til eigenda 300 milljóna evra skuldabréfaútgáfu bankans sem er á gjaldaga í maí 2024 og nýttu um 73.5% eigenda bréfanna sér tilboðið. Umsjónaraðilar (e. Joint Lead Managers) útgáfunnar voru Barclays, Deutsche Bank og UBS.

Skuldabréfaútgáfur á innlendum mörkuðum

Arion banki lauk í nóvember útboði á nýjum verðtryggðum flokki almennra skuldabréfa. Nýi flokkurinn ARION 28 1512 fékk góðar viðtökur og voru seld bréf fyrir 8,7 milljarða króna á ávöxtunarkröfunni 4,40%. Flokkurinn er verðtryggt vaxtagreiðslubréf með vaxtagreiðslum tvisvar á ári. Lokagjalddagi er 15. desember 2028.

Arion banki hélt áfram útgáfu sinni á sértryggðum skuldabréfum sem tryggð eru samkvæmt lögum nr. 11/2008 um sértryggð skuldabréf. Á árinu 2023 voru gefin út sértryggð skuldabréf fyrir 23,2 milljarða króna.

Arion banki endurnýjaði samninga við Kviku, Íslandsbanka og Landsbankann um viðskiptavakt á sértryggðum skuldabréfum á Nasdaq Iceland útgefnum af Arion banka. Tilgangur samninganna er að efla viðskipti með markflokka sértryggðra skuldbréfa sem eru útgefin af bankanum.

Endurgreiðsluferill fjármögnunar
Milljarðar króna
Samsetning fjármögnunar
%

Lánshæfismat

Moody´s

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Moody's Investors Service veitti Arion banka í fyrsta sinn lánshæfiseinkunn á sértryggð skuldabréf. Arion banki fékk langtímaeinkunnina Aa2 sem útgefandi sértryggðra skuldabréfa í evrum. Lánshæfismatið endurspeglar gæði tryggingasafns sértryggðra skuldabréfa Arion banka, styrk íslenskrar löggjafar í kringum útgáfu sértryggðra skuldabréfa og kerfislegt mikilvægi slíkra bréfa. Sértryggðu skuldabréfin falla undir íslenskan lagaramma sem er í fullu samræmi við samræmingartilskipun Evrópusambandsins. Um er að ræða hæstu lánshæfiseinkunn íslensks útgefanda og má segja að það séu ákveðin tímamót að Arion banki fái einkunn á útgefin skuldabréf sem er þremur þrepum hærri en lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins.

Á árinu fékk Arion banki hækkun á lánshæfiseinkunn sem útgefandi óverðtryggðra skuldabréfa úr Baa1 í A3. Einnig var lánshæfismat langtíma og skammtíma innlána hækkað úr A3/P-2 í A2/P-1. Horfum var jafnframt breytt úr jákvæðum í stöðugar. Uppfærsla lánshæfismatsins endurspeglar hve vel bankanum hefur gengið á síðustu 18 mánuðum að viðhalda góðri arðsemi, sterkri eiginfjárstöðu og góðum eignagæðum, auk aukinnar áherslu á samþættingu banka- og tryggingastarfsemi.

Sú einkunn sem Moody‘s gefur Arion banka í tengslum við áhættu vegna umhverfis- og samfélagsþátta og stjórnarhátta hækkaði einnig á árinu, úr G-3 í G-2. Er það mat Moody‘s að áhætta vegna stjórnarhátta sé lág í ljósi bættrar fjárhagsstefnu bankans og áhættustýringar.

Útgefandi Arion banki Sértryggð skuldabréf Íslenska ríkið
Langtíma A3 Aa2 A2
Skammtíma
 
Horfur Stöðugar   Jákvæðar
Síðasta mat 14. sept. 2023 14. des. 2023  
Innlán Arion banki
Langtíma A2
Skammtíma P-1
Horfur Stöðugar
Síðasta mat 14. sept. 2023

S&P Global Rating

Í maí staðfesti alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) lánshæfismat Arion banka, BBB, og breytti horfum úr stöðugum í neikvæðar. Í nóvember var horfum breytt aftur í stöðugar. Skammtímalánshæfismat bankans er A-2.

S&P Global Ratings telur að sú efnahagslega áhætta sem íslenskir bankar standa frammi fyrir fari dvínandi með auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði og minni skuldsetningu heimila og fyrirtækja.

S&P telur að áfram verði góður hagvöxtur á Íslandi í takt við þann styrk sem efnahagslífið hefur sýnt í kjölfar heimsfaraldursins. Áætlar S&P að hagvöxtur á Íslandi verði 3,8% á árinu 2023 og að meðaltali 2,5% á árunum 2024 til 2026. S&P telur að áhætta á fjármálamarkaði muni haldast að mestu óbreytt þar sem rekstur bankanna sé arðsamur og þeir með sterka eiginfjárstöðu.

S&P hækkaði lánshæfismat sértryggðra skuldabréfa Arion banka frá A í A+ með stöðugum horfum. Lánshæfi sértryggðra skuldabréfa er nú það sama og einkunn íslenska ríkisins hjá S&P. Lánshæfismat sértryggðra skuldbréfa endurspeglar styrk Arion banka sem útgefanda, trausta umgjörð íslensks fjármálakerfis og gæði íbúðalánasafns bankans.

Flokkur Arion banki Sértryggð skuldabréf Íslenska ríkið*
Langtíma BBB A+ A+
Skammtíma A-2
A-1
Horfur Stöðugar Stöðugar Stöðugar
Síðasta mat 17. nóvember 2023 27. nóvember 2023 10. nóvember 2023

*Skuldbindingar í erlendri mynt. Frekari upplýsingar má fá á www.sedlabanki.is.

Lausafjárstaða og lausafjáráhætta

Bankinn er fjármagnaður að stórum hluta með innlánum frá einstaklingum, fyrirtækjum og fagfjárfestum. Eitt af meginmarkmiðum Arion banka er að viðhalda sterku lausafjárþekjuhlutfalli (e. liquidity coverage ratio, LCR) til að styðja við stefnu og framgang bankans.

Lausafjárþekjuhlutfallið, sem er reiknað samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands og evrópskum reglum byggðum á Basel III staðlinum, tekur á áhættuþáttum sem snerta kvikleika innlána og tímamisvægi eigna og skulda. Í árslok var lausafjárþekjuhlutfall bankans 192% og fyrir erlenda gjaldmiðla var hlutfallið 828%, sem er vel yfir þeim mörkum sem reglur Seðlabankans kveða á um.

Fjármögnunarhlutfall bankans (e. Net Stable Funding Ratio, NSFR) var 119% í árslok 2023. Hlutfallið vegur tiltæka stöðuga fjármögnun bankans gagnvart nauðsynlegri stöðugri fjármögnun samkvæmt aðferð sem tekur m.a. tillit til seljanleika eigna og gjalddaga skulda. Há hlutföll draga fram styrka fjármögnun bankans og getu til að styðja við útlánastarfsemi hans í framtíðinni.