Þátttaka á fjármálamarkaði er mikilvæg leið til að hafa áhrif í samfélaginu, samfara því að byggja upp eigin framtíð. Þrátt fyrir að mikill árangur hafi náðst í jafnréttismálum hér á landi á undanförnum árum og áratugum er staða kynjanna þegar kemur að fjármálamarkaði ekki jöfn.
Konur fjárfestum er langtíma átaksverkefni þar sem markmið Arion banka er að efla konur í fjárfestingum. Grunnur að verkefninu var lagður á árinu 2023 eftir að Arion banki ákvað að leggja sérstaka áherslu á að jafna þátttöku kynjanna á fjármálamarkaði.
Unnið var að því að kortleggja stöðu kynjanna á fjármálamarkaði á árinu 2023, bæði út frá opinberum gögnum og út frá gögnum bankans. Tekin voru djúpviðtöl við konur með það að markmiði að greina þær hindranir sem konur standa frammi fyrir og finna hvaða nálgun á viðfangsefnið skorti helst. Sambærilegum verkefnum hefur verið ýtt úr vör á öðrum Norðurlöndum með góðum árangri og eftir skoðun á þeim var ákveðið að leita eftir frekari upplýsingum frá DNB banka í Noregi sem unnið hefur þrekvirki með sínu verkefni á síðustu árum. Ljóst var strax í upphafi að nálgunin yrði hvatning, fræðsla og samfélagsátak.
Verkefninu var formlega ýtt úr vör 4. janúar 2024 með fjölsóttum opnunarviðburði. Strax í kjölfarið hófst auglýsingaherferð, nýtt vefsvæði var opnað, fyrstu fræðsluviðburðir haldnir og fleiri auglýstir ásamt því að umræðuhópar voru leiddir saman. Óhætt er að fullyrða að viðtökurnar hafi verið góðar og spennandi verður að fylgja verkefninu eftir og birta fyrstu niðurstöður að ári.
Arion banki vill taka sér skýrt hlutverk í þeirri vegferð sem fram undan er. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynjanna felur í sér skýra kröfu um jafna þátttöku kynja á fjármálamarkaði og fjárhagslegt sjálfstæði hverrar konu.