Fyrirtækjaþjónusta
Arion veitir fyrirtækjum alhliða fjármálaþjónustu. Árið var viðburða- og árangursríkt þrátt fyrir krefjandi vaxtaumhverfi, áframhaldandi stríð erlendis og jarðhræringar hérlendis með víðtækum áhrifum á rekstur og rekstrarumhverfi fyrirtækja, erlendis jafnt sem hér heima. Þjónusta bankans var umfangsmikil, hvort sem litið er til lánastarfsemi, fyrirtækjatrygginga eða fyrirtækjaráðgjafar.
Umsvifamikið ár að baki
Við veittum stórum og smáum fyrirtækjum alhliða fjármálaþjónustu og komum að margvíslegum verkefnum á árinu, m.a. sölu á ferðaþjónustufyrirtækjum, framkvæmdafjármögnun til að mæta íbúðaþörf í landinu og yfirtöku sem leiddi síðar til afskráningar af markaði. Samvinna eininga innan samstæðu Arion hélt áfram að eflast með ýmsum verkefnum á árinu viðskiptavinum okkar til góðs.
Innlendur hlutabréfamarkaður hélt áfram að vaxa. Á árinu voru fimm skráningar og hafði Arion banki aðkomu að fjórum þeirra.
Til að styrkja fyrirtækjaþjónustu okkar enn frekar var hún nýlega sameinuð á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði bankans. Markmiðið með sameiningunni er að efla og samræma þjónustu við smærri og meðalstór fyrirtæki. Áhersla er á alhliða fjármálaþjónustu úti um allt land sem byggist á framúrskarandi þekkingu reynslumikils starfsfólks okkar.
Einn liður í eflingu þjónustunnar felst í auknu framboði stafrænnar þjónustu og á árinu bættum við m.a. greiðslukortalausnir okkar fyrir fyrirtæki. Áframhaldandi áhersla verður á umbætur stafrænna þjónustuleiða á næsta ári, með tilheyrandi tímasparnaði fyrir viðskiptavini.
Þá hélt vegferð bankans innan norðurslóðasvæðisins áfram, en lán á því svæði jukust um 10% á árinu og er dreifing þeirrar lánabókar nú farin að endurspegla í æ ríkari mæli stefnu bankans á svæðinu.
Skipting lánasafns fyrirtækja á norðurslóðum
Samstarf Arion banka og Varðar þegar kemur að tryggingum jókst á árinu og er áfram lögð áhersla á að kynna tryggingar Varðar fyrir fyrirtækjum í viðskiptum við Arion banka. Þannig geta viðskiptavinir félaganna nálgast tryggingar Varðar bæði í gegnum þjónustuleiðir Arion banka og Varðar. Þetta er mikilvægur hluti af því að bjóða upp á heildarþjónustu í fjármálum með það að markmiði að bæta upplifun viðskiptavina og einfalda þeim alla fjármálaumsýslu.
Sjálfbærni og umhverfismál
Arion hefur markað sér skýra stefnu þegar kemur að samfélagsábyrgð og umhverfis- og loftlagsmálum. „Saman látum við góða hluti gerast“ er yfirskrift stefnu bankans um samfélagsábyrgð og markmiðið ævinlega að starfa með ábyrgum hætti í sátt við samfélag og umhverfi.
Stefna bankans endurspeglast í útlánum hans. Lánveitingar til orkuiðnaðar eru á sviði endurnýjanlegrar orku. Þar sem Ísland er í þeirri einstöku stöðu að nota nær eingöngu endurnýjanlega orkugjafa vegna húshitunar og rafmagns á það einnig við um þau fasteignaverkefni sem bankinn fjármagnar. Lán bankans til sjávarútvegs miða að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar.
Í lok árs námu samþykktar grænar lánveitingar til fyrirtækja um 49 milljörðum króna og skiptast í eftirfarandi flokka: Orkusparnaður, sjálfbærar veiðar og fiskeldi, umhverfisvænar samgöngur, framleiðsla á endurnýjanlegri orku og mengunarvarnir og stýring.
Grænar lánveitingar til fyrirtækja
Stærsta einstaka græna lánveiting barnkans er til verkefnis á vegum Norðuráls, en kolefnisspor áls frá Norðuráli er með því lægsta sem gerist í heiminum. Þess má geta að félagið var valið Umhverfisfyrirtæki ársins 2022.
Ýmsar grænar lánavörur bjóðast fyrirtækjum í viðskiptum við Arion banka og gerir bankinn sömuleiðis úttekt á fjármagnaðri kolefnislosun Arion banka samkvæmt aðferðafræði í PCAF.
Virk þátttaka Arion banka í uppbyggingu efnahagslífsins styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 7 um sjálfbæra orku, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt og markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu.
Lán Arion banka til fyrirtækja
Útlán Arion banka til fyrirtækja námu um 544 milljörðum króna eða sem nemur 47% af heildarútlánum bankans til viðskiptavina. Lán til fyrirtækja jukust um rúmlega 8% á árinu en lánaumsvif voru umtalsvert meiri, m.a. vegna sölu á lánum og aukinnar veltu lánabókarinnar.
Skipting lánabókar eftir atvinnugreinum
Innlán fyrirtækja hjá Arion banka
Innlán fyrirtækja námu um 54% af innlánastöðu bankans við árslok en innlán sem eru bundin í meira en 30 daga eru um 15% af innlánastöðu fyrirtækja samanborið við 12% á síðasta ári. Innlán smærri og meðalstórra fyrirtækja hjá Arion banka jukust um rúmlega 10% á árinu og tæplega 60% af heildarfjölda nýstofnaðra innlána fyrirtækja voru stofnuð rafrænt á síðastliðnu ári.