Markaðir

Arion banki veitir margvíslega þjónustu á sviði markaðsviðskipta, sjóðastýringar og eignastýringar. Eignastýringarþjónusta bankans snýr að banka- og fjármálaþjónustu fyrir eigna- og umsvifameiri viðskiptavini í Premíu, einkabankaþjónustu, sölu og þjónustu við fagfjárfesta, eignastýringu fyrir fagfjárfesta og rekstri lífeyrissjóða. Stefnir, dótturfélag Arion banka, er sjálfstætt starfandi fjármálastofnun sem stýrir fjölbreyttu úrvali verðbréfa- og sérhæfðra sjóða. Arion banki er, ásamt dótturfélögum sínum, leiðandi í eignastýringu á Íslandi með um 1.383 milljarða króna í stýringu.

Markaðsviðskipti

Arion banki sinnir miðlun verðbréfa fyrir innlenda og erlenda viðskiptavini bankans. Sérfræðingar bankans veita aðstoð við og hafa milligöngu um viðskipti með skráð verðbréf á öllum helstu verðbréfamörkuðum heims.

Viðskiptavinir leita í ríkum mæli til bankans vegna markaðsviðskipta sinna og hefur bankinn undanfarin ár haft sterka stöðu í veltu verðbréfa á Nasdaq á Íslandi. Árið 2023 var Arion banki með mestu heildarveltu á hlutabréfamarkaði Nasdaq Iceland og er þetta áttunda árið í röð sem bankinn er með mestu hlutabréfaveltu allra markaðsaðila. Velta Arion banka var 303 milljarðar króna sem samsvarar 19,7% markaðshlutdeild. Var bankinn jafnframt með næstmestu veltu markaðsaðila á skuldabréfamarkaði Nasdaq Iceland árið 2023. Velta Arion á skuldabréfamarkaði var 735 milljarðar króna og markaðshlutdeild 18,5%. Arion banki var einnig með mestu hlutdeild markaðsaðila á First North markaðnum eða 24,9%.

Markaðshlutdeild og sæti Arion banka í hlutabréfum á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland
 

Krefjandi ár á hlutabréfamarkaði

Hátt vaxtastig og þrálát verðbólga settu mark sitt á hlutabréfamarkaðinn árið 2023. Átti hlutabréfagengi flestra skráðra félaga nokkuð erfitt uppdráttar, öfugt við flesta hlutabréfamarkaði í Evrópu og Bandaríkjunum, þrátt fyrir að rekstur félaga hafi heilt yfir verið góður. Markaðurinn rétti talsvert úr kútnum undir árslok þegar fregnir bárust af mögulegu yfirtökutilboði í Marel og lækkaði heildarvísitalan um 0,7% milli ára. Velta í viðskiptum með hlutabréf á Nasdaq Ísland dróst saman um 25% á árinu.

Innleiðingu Íslands í FTSE Global Equity Index Series sem nýmarkaðsríki lauk í mars 2023, þegar íslensk félög fengu úthlutað endanlegu vægi sínu í vísitölum FTSE. Alvotech bættist síðan í hóp íslenskra félaga í vísitölunni í september. Þessum skrefum fylgdu aukin hlutabréfakaup erlendra fjárfesta. Fjórar nýskráningar á Aðalmarkað áttu sér stað á árinu: Hampiðjan, Ísfélagið, Amaroq og Kaldalón bættust í hópinn og jókst fjölbreytni á íslenskum hlutabréfamarkaði enn frekar með komu þessara félaga. Þá jókst heildarmarkaðsvirði skráðra hlutabréfa hjá Nasdaq Iceland um 6% milli ára og var 2.700 milljarðar í lok árs.

Annað krefjandi ár er að baki á skuldabréfamarkaði á Íslandi og jafnframt á heimsvísu. Hröð hækkun stýrivaxta framan af ári og verðbólga settu mark sitt á verðþróun skuldabréfa innanlands og ávöxtunarkröfur hækkuðu talsvert í verðtryggðum og óverðtryggðum flokkum. Með lækkandi verðbólgu á heimsvísu hækkuðu svo raunvextir á markaði. Þá dró verulega úr langtímaraunvaxtamun við útlönd og mældist hann lítill sem enginn um mitt sumar 2023. Velta á skuldabréfamarkaði jókst umtalsvert á árinu og fór upp um tæp 52% á milli ára. Straumhvörf urðu á skuldabréfamörkuðum á heimsvísu undir lok síðasta árs þegar markaðir tóku verulega við sér. Áhrifin skiluðu sér að einhverju leyti inn á íslenskan markað þar sem árinu lauk á jákvæðari nótum en bent hafði til.

Sjóðastýring

Viðskiptavinum Arion stendur til boða fjölbreytt úrval verðbréfa- og sérhæfðra sjóða í stýringu Stefnis, dótturfélags Arion banka. Stefnir er rótgróið íslenskt sjóðastýringarfyrirtæki með rúma 247 milljarða króna í virkri sjóðastýringu í lok árs 2023. Hlutverk félagsins er að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Stefnir þjónar jafnt einstaklingum sem fagfjárfestum. Félagið var stofnað árið 1996.

Félagið hefur allt frá upphafi verið í fararbroddi í þróun á nýjum tegundum sjóða, jafnt fyrir einstaklinga sem fagfjárfesta. Við þróun og stýringu sjóða er fyrst og fremst horft til hagsmuna viðskiptavina auk þess sem áhersla er lögð á árvekni, yfirsýn og öfluga fagþekkingu.

Stefnir leggur mikla áhersla á heiðarleika í samskiptum og gagnsæi í upplýsingagjöf. Ábyrgar fjárfestingar, fjölbreyttir fjárfestingarkostir og ítarleg upplýsingagjöf eru lykilatriði í starfsemi Stefnis.

Arion banki aðstoðar viðskiptavini sína jafnframt við kaup í sjóðum Stefnis og sjóðum í rekstri alþjóðlegra fjármálafyrirtækja.

Eignastýring

Hvað eignastýringu varðar stýrir bankinn fjármunum fyrir hönd viðskiptavina samkvæmt fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu hvers og eins. Eignastýring byggist á trausti og ábyrgð gagnvart viðskiptavinum, hagsmunaaðilum og samfélaginu öllu.

Heildareignir í stýringu hjá Arion banka og dótturfélögum
Milljarðar króna

Samfélagsábyrgð og ábyrgar fjárfestingar

Samkvæmt grunngildum eignastýringar Arion banka skal fara að gildandi lögum og reglum í öllum þeim fjárfestingum sem ráðist er í fyrir hönd viðskiptavina. Á árinu hóf bankinn innleiðingu á SFDR-reglugerðinni sem fjallar um samræmdar reglur fyrir aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa til að birta upplýsingar um það sem þeim ber skylda til að birta fjárfestum varðandi sjálfbærnitengd áhrif fjármálaafurða. Reglugerðin leggur m.a. skyldur á aðila til að birta upplýsingar um það hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvarðanir sem og í ráðgjöf og hvort, og þá hvernig, tekið er tillit til skaðlegra áhrifa á sjálfbærni. Samkvæmt skilgreiningum SFDR er sjálfbærniáhætta atburður eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gæti, ef hann gerist, haft raunveruleg eða hugsanleg verulega neikvæð áhrif á virði fjárfestingar.

Eignastýring Arion banka hefur innleitt í starfshætti sína og starfsreglur verklag ábyrgra fjárfestinga sem felur í sér að við stýringu eigna er horft til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta (UFS). Unnið er í samræmi við leiðarvísi eignastýringar Arion banka í ábyrgum fjárfestingum sem er ætlað að tryggja samþættingu umhverfis- og félagslegra þátta og stjórnarhátta við fjárfestingarferli og virkt eignarhald. Þannig er ekki einvörðungu horft til fjárhagslegra þátta heldur einnig annarra þátta sem taldir eru hafa þýðingu við greiningu á fjárfestingum og uppbyggingu eignasafna.

Við mat á stökum útgefendum er framkvæmd sú greiningarvinna sem best þykir uppfylla markmið leiðarvísis um ábyrgar fjárfestingar eignastýringar hverju sinni. Við mat á sjóðum, sjóðastýringarfyrirtækjum og sérhæfðum fjárfestingum er gerð áreiðanleikakönnun á því hvernig sjóðir og sjóðastýringarfyrirtæki horfa til UFS-þátta í fjárfestingum sínum og þær upplýsingar nýttar við heildarmat.

Bankinn er aðili að Meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, United Nations Principles of Responsible Investments (UN PRI), sem eru virk alþjóðleg samtök eignastýringaraðila og fjármagnseigenda um málefni ábyrgra fjárfestinga. Eignastýring Arion banka skilar árlega framvinduskýrslu til UN PRI og er sú skýrsla að hluta til aðgengileg almenningi.

    

Arion Premíu þjónusta – umsvifameiri bankaþjónusta

Arion Premía er þjónusta sem sett var á laggirnar til þess að þjónusta betur þá viðskiptavini sem eiga í umsvifamiklum viðskiptum við bankann. Markmið þjónustunnar er að tryggja að þessi hópur viðskiptavina njóti góðra kjara og bestu mögulegu þjónustu hverju sinni. Í upphafi árs var Premíu þjónustan færð af viðskiptabankasviði yfir til markaða. Markmið þessara breytinga voru tvíþætt; annars vegar að færa starfsfólk Premíu þjónustunnar nær verðbréfamarkaðinum og hins vegar að efla almenna bankaþjónustu við viðskiptavini markaða.

Einkabankaþjónusta – persónuleg þjónusta

Einkabankaþjónusta Arion banka er víðtæk og persónuleg fjármálaþjónusta fyrir efnameiri einstaklinga, fyrirtæki, sjóði og stofnanir. Einkabankaþjónusta felur í sér fjármálaþjónustu sniðna að þörfum hvers viðskiptavinar. Hver viðskiptavinur hefur sinn eigin viðskiptastjóra sem heldur utan um eignasafn viðskiptavinarins og fjárfestir með markmið hans að leiðarljósi. Viðskiptastjórinn fylgist náið með hreyfingum á markaði og gerir breytingar samkvæmt fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu sem mótuð er í samræmi við þarfir viðskiptavinarins.

Viðskiptastjórar í einkabankaþjónustu eru í nánu og góðu sambandi við viðskiptavini sína. Fundað er með reglubundnum hætti og ítarleg yfirlit um stöðu og ávöxtun send ársfjórðungslega. Viðskiptavinir geta jafnframt nálgast greinargóð yfirlit í netbanka og appi. Viðskiptavinum einkabankaþjónustu stendur til boða að vera hluti af Premíu þjónustu bankans og fá hagstæð innlána-, útlána- og kreditkortakjör hjá bankanum. Einkabankaþjónusta veitir viðskiptavinum greiðari leið að sérfræðingum bankans.

Þjónusta við fagfjárfesta

Arion veitir fagfjárfestum víðtæka og persónulega aðstoð þegar fjárfest er í sjóðum, jafnt innlendum sem erlendum, og vinnur ötullega að því að leita frekari fjárfestingarkosta í takt við þróun markaða. Bankinn veitir viðskiptavinum sínum aðgengi að leiðandi alþjóðlegum eignastýringum og fjölbreyttu úrvali sjóða. Samstarf Arion banka við aðrar eignastýringar felur í sér þjónustu til fagfjárfesta og hagstæð kjör, ítarlega upplýsingagjöf, greiningarvinnu og þjónustu við kaup og sölu.

Þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður hefur ör og spennandi þróun átt sér stað hjá eignastýringum hér heima og erlendis á síðustu misserum. Samhliða því úrvali sem stendur viðskiptavinum nú þegar til boða hafa verið kynnt til sögunnar ýmis ný og áhugaverð tækifæri á árinu.

Eignastýring fyrir fagfjárfesta

Arion banki veitir fagfjárfestum umfangsmikla og persónulega þjónustu. Nokkrir af stærstu fagfjárfestum landsins, meðal annars lífeyrissjóðir, séreignasjóðir, ýmis samtök og tryggingafélög, nýta þjónustu Arion banka við stýringu á eignasöfnum þeirra, ýmist að hluta til eða í heild, og eiga flest þessara viðskiptasambanda sér langa sögu.

Áhersla er lögð á klæðskerasniðna eignastýringarþjónustu, fagleg vinnubrögð og virka eignastýringu milli og innan eignaflokka. Áherslur eignasafna eru lagaðar að breytingum á markaði hverju sinni, í samræmi við þá fjárfestingarstefnu sem viðskiptavinurinn hefur þegar skilgreint.

Þjónusta bankans við fagfjárfesta felst meðal annars í reglulegum og virkum samskiptum þar sem farið er yfir helstu hreyfingar, þróun og horfur. Fjárfestar fá aðstoð við að móta fjárfestingarstefnu, stefnu um ábyrgar fjárfestingar og hluthafastefnu, sem og við framkvæmd og upplýsingagjöf í framfylgni stefnanna.

Á síðasta ári var oftar en ekki talsverð áskorun að setja saman og hlúa að eignasöfnum í ljósi markaðsaðstæðna. Árangur í stýringu var engu að síður góður, megináherslur eignastýringar gengu eftir og almennt er óhætt að segja að vel hafi tekist til.

Rekstur lífeyrissjóða og verðbréfa

– stafræn þjónusta og aukið aðgengi að upplýsingum

Arion banki sérhæfir sig í rekstri og stýringu eigna fyrir lífeyrissjóði.

  • Frjálsi lífeyrissjóðurinn, stærsti frjálsi lífeyrissjóður landsins, hefur átt í farsælu samstarfi við Arion banka og forvera hans allt frá árinu 2001. Frjálsi býður upp á bæði skyldusparnað og viðbótarsparnað og er sérstaða sjóðsins einkum fólgin í almennu valfrelsi og séreignarmyndun skyldusparnaðar sem leiðir af sér aukinn erfanleika og sveigjanleika í útgreiðslum. Frjálsi hefur notið mikillar velgengni síðustu ár, m.a. hlotið 14 alþjóðleg verðlaun frá hinu virta fagtímariti IPE, fleiri verðlaun en nokkur annar íslenskur lífeyrissjóður. Um 26 þúsund sjóðfélagar velja að greiða í Frjálsa og var stærð hans í lok árs um 454 milljarðar króna.

  • Lífeyrisauki Arion banka er stærsti séreignarsjóður landsins með um 148 milljarða króna í stýringu fyrir alls um 25 þúsund sjóðfélaga. Sjóðurinn ávaxtar viðbótarlífeyrissparnað sjóðfélaga og hefur gert svo frá árinu 1999. Sérstaða Lífeyrisauka felst í fjölbreyttu úrvali fjárfestingarleiða; alls geta sjóðfélagar valið á milli sjö fjárfestingarleiða sem mæta ólíkum þörfum vegna aldurs og viðhorfs til áhættu.

  • Aðrir lífeyrissjóðir í rekstri og stýringu hjá eignastýringu Arion banka eru EFÍA, Lífeyrissjóður Rangæinga og LSBÍ.

Þegar kemur að verðbréfa- og lífeyrismálum leggur Arion banki mikla áherslu á að efla sjálfsafgreiðslu og aðra stafræna þjónustu við viðskiptavini. Sjálfsafgreiðslan fer einkum fram í Arion appinu en einnig á Mínum síðum sjóðanna. Í Arion appinu fá viðskiptavinir yfirsýn yfir lífeyrissparnað sinn og tækifæri til sjálfsafgreiðslu en þar er hægt að gera samning um lífeyrissparnað og framkvæma allar helstu aðgerðir á einfaldan hátt. Viðbrögð viðskiptavina hafa verið góð og hefur fjöldi nýrra lífeyrissamninga, sem gerðir eru í appinu, farið fram úr væntingum. Arion appið færir verðbréf og lífeyrissparnaðinn nær eigendum sínum og eykur áhuga þeirra og vitneskju um sparnaðinn. Á næstu misserum munu fleiri nýjungar bætast við.

Á hefðbundnum opnunartíma Arion hafa viðskiptavinir aðgang að verðbréfa- og lífeyrisráðgjöfum í netspjalli, yfir síma og í tölvupósti. Boðið er upp á fundi í gegnum fjarfundabúnað eða í höfuðstöðvum bankans. Til að nýta tíma viðskiptavina og ráðgjafa sem best er lögð áhersla á fyrir fram bókaða fundi. Hefur þessi aukna áhersla á sjálfvirknivæðingu og fjarfundi mælst vel fyrir.

Árangur viðskiptavina

Starfsfólk Arion banka og Stefnis mun áfram leitast við að skapa og finna góða fjárfestingarkosti fyrir viðskiptavini til að ávaxta fjármuni þeirra eins og best verður á kosið. Áfram verður unnið að því að skapa ávinning fyrir viðskiptavini með góðri þjónustu, ávöxtun, faglegum vinnubrögðum og markvissri áhættustýringu.